Ólöf Halldóra Pétursdóttir fæddist á Bergsstöðum, Vatnsnesi, Vestur-Húnavatnssýslu 23. september 1924. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni 10. janúar 2012.
Útför Lóu fór fram frá Neskirkju 20. janúar 2012.
Móðursystir mín, Ólöf Halldóra Pétursdóttir var kölluð Lóa. Ég minnist Lóu með hlýju og þakklæti fyrir allar góðu samverustundirnar. Þegar ég var barn var það tilhlökkunarefni þegar von var á Lóu frænku í heimsókn, því hún hafði alltaf tíma fyrir okkur krakkana. Hún var mjög góður sögumaður og það var unun að hlusta á hana segja okkur sögur og ævintýri og svo spilaði hún við okkur. Það voru árleg jólaboð hjá Lóu eins og systkinum hennar og henni tókst alltaf að gera þau eftirminnileg og skemmtileg með alls konar leikjum og þrautum sem allir tóku þátt í bæði börn og fullorðnir. Þá var líka spiluð félagsvist og fleira.
Þá er líka eftirminnilegt þegar við systurnar vorum litlar að Lóa bauð okkur árlega að fara með okkur að kaupa jólagjafir handa pabba og mömmu. Mamma fylgdi okkur í Hafnarfjarðarstrætó og Lóa tók á móti okkur í Reykjavík. Þetta var ævintýri. Lóa sýndi okkur skreytingar í búðargluggum og svo fórum við í Liverpool og keyptum jólagjafirnar. En þar fyrir neðan stóð alltaf fólk úr Hjálpræðishernum og aldrei fórum við þar framhjá án þess að Lóa gæfi eitthvað í kassann. Þannig var Lóa fyrirmynd í svo mörgu.
Lóa kenndi í Mýrarhúsaskóla yfir 40 ár og hún æfði nemendur fyrir leiksýningar á vorin. Þá bauð hún okkur systrum nokkrum sinnum. Það var áhugavert og hefur starf hennar sjálfsagt haft sín áhrif á okkur systurnar því allar urðum við kennarar.
Lóa var ótrúlega dugleg kona og hjálpsöm. Hún gekk í öll störf í sveitinni, vann sem matráðskona og ýmis önnur störf á sumrin. Hún eignaðist sína íbúð og ekki var hún vön að kvarta. Það var alltaf allt gott að frétta af henni. Þegar ég átti í veikindum kenndi hún mér eftirfarandi: „Á hverjum degi í einu og öllu er mér að fara fram.“ Þetta jákvæða viðhorf og traust hennar á Guði var einkennandi fyrir hana. Hún naut þess líka að syngja í kór og var lengst í kór Neskirkju.
Þá eru ótalin ferðalögin á sumrin og ferðirnar í sumarbústaði á ýmsa staði á landinu. Lóa bauð mér og fjölskyldu minni ásamt pabba og mömmu með sér í sumarbústað sem hún fékk leigðan hjá sínu stéttarfélagi og eftir það skiptumst við á að sækja um bústaði á sumrin og fórum saman í mörg sumur. Það eru ógleymanlegar ferðir.
Lóa var orðin fertug þegar hún eignaðist Magneu, einkadóttur sína. Hún hafði heitið því þegar hún var ung stúlka að ef hún lifði af alvarleg veikindi myndi hún eignast dóttur og skíra hana í höfuðið á konunni sem annaðist hana. Lóa gerði allt sem hún gat fyrir dóttur sína og mikið varð hún glöð yfir litlu barnabörnunum Eyþóri og Lóu Bryndísi og bar hag þeirra og fjölskyldunnar mjög fyrir brjósti.
Mamma og við systkinin, Steinunn, Bergdís, Pétur Vilberg og fjölskyldur sendum ykkur, elsku Magnea, Arnar, Eyþór og Lóa Bryndís innilegar samúðarkveðjur.
Guðrún.