Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Lyfjaverslun hefur tekið merkjanlegum breytingum undanfarin ár. Aðhald, breyttar reglur og bætt vinnubrögð sjást mjög skýrt hjá lyfjainnflytjendum eins og Icepharma. „Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er greinilegur og birtist m.a. í minni innkaupum á nýjum lyfjum og dýrari tegundum lyfja. Þó virðist hagræðingin hafa farið fram án þess að dregið hafi úr fjölda veittra dagskammta til sjúklinga,“ segir Bessi H. Jóhannesson, framkvæmdastjóri lyfjasviðs Icepharma.
Má ekki staðna of lengi
Eftir hrun gripu stjórnvöld til þess sparnaðarráðs að taka fyrir að ný lyf færu í sölu hér á landi. Bessi segir þessa aðgerð ekki þurfa að vera áhyggjuefni ef hún sé aðeins til skamms tíma, en verði sömu stefnu haldið til streitu um margra ára skeið geti það haft alvarlegar afleiðingar. „Langvarandi lokun á ný lyf leiðir til þess að lyfjafyrirtækin verða síður áhugasöm um að markaðssetja nýþróuð lyf á Íslandi í framtíðinni. Um leið myndast ekki reynsla af lyfjunum og um leið ekki markaður fyrir samheitalyf, þannig að þegar einkaleyfistíma lyfja lýkur verður markaðurinn síður áhugaverður fyrir framleiðendur samheitalyfja. Útkoman getur því orðið vítahringur sem heldur lyfjaframboðinu til lengri tíma lítt breyttu frá því sem var 2007.“Ekki virðist um það að ræða að tilteknir lyfjaflokkar hafi tekið stökk við kreppuna. Þannig segir Bessi ekki hægt að merkja að lyf við geðdepurð seljist meira en áður, ólíkt því sem víða hafði verið spáð. Þar spila þó vafalítið inn í breytingar á greiðsluþátttöku og eins ávísanahegðun lækna. „Einhver merki má þó greina um að sala sé að aukast í ólyfseðilsskyldum lyfjum. Gæti ástæðan verið sú að þegar kreppir að reyni fleira fólk að meðhöndla sig sjálft frekar en leita til læknis og fá viðeigandi lyf við kvillum sínum.“
Hindranir hækka verðið
Reglulega spretta upp umræður um lyfjaverð á Íslandi og umgjörð lyfjaverslunar hérlendis. Bessi segir margt hafa breyst til betri vegar en þó sé greinilegan ávinning að hafa af því að ryðja fleiri hindrunum úr vegi. „Smæð markaðarins torveldar markaðssetningu, og eins er það verulegur baggi að þurfa að uppfylla íslenskar sérreglur, afla leyfa með hverju lyfi og útbúa íslenskar umbúðir og fylgiseðla. Fyrir lyf við fátíðum sjúkdómum sem aðeins eru seld í litlu magni er viðbúið að þetta þýði mun hærra verð eða geri sölu á lyfinu yfirleitt ekki mjög áhugaverðan kost fyrir innflytjandann.“Bessi segir að stjórnvöld hafi markað þá stefnu að lyfjaverð á Íslandi skuli vera það lægsta á Norðurlöndunum og hefur það markmið náðst að stærstum hluta. „En fyrir vikið verður markaðurinn aftur minna áhugaverður fyrir lyfjaframleiðendur. Eins mætti væntanlega lækka verð samheitalyfja og auka framboð með því að opna íslenska lyfjamarkaðinn meira,“ segir Bessi og nefnir að tilslakanir í íslenskun umbúða eða einföldun skráningar nýrra lyfja myndi skila sér í lægra lyfjaverði til neytenda og gefa svigrúm fyrir nýjungar.
HEILSUVARAN SELST VEL