Karl Friðriksson
Karl Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þverfaglegt samstarf í verkefninu Ísland allt árið hefur meðal annars skilað sér í útgáfu á fjölda skýrslna þar sem einstaka þættir í íslenskri ferðaþjónustu hafa verið greindir.

Þverfaglegt samstarf í verkefninu Ísland allt árið hefur meðal annars skilað sér í útgáfu á fjölda skýrslna þar sem einstaka þættir í íslenskri ferðaþjónustu hafa verið greindir. Skýrslurnar sem hér um ræðir eru átta talsins, þrjár þeirra beinast að innviðum ferðaþjónustunnar og fjalla meðal annars um samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar á alþjóðavísu, niðurstöður netkönnunar sem unnin var síðastliðið sumar og auk þess um sérstöðu ákveðinna svæða og umfjöllun um klasa og almenna tölfræði. Fimm skýrslur voru unnar þar sem gerð var úttekt á stöðu fimm landa á sviði ferðaþjónustu. Samanburðarlöndin voru Finnland, Kanada, Noregur, Nýja-Sjáland og Ísland. Skýrslurnar má nálgast á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Íslandsstofu og hjá Ferðamálastofu.

Meginmarkmið þessarar vinnu er að afla hráefnis í almenna stefnumótun fyrir greinina. Ljóst er að verulegur vöxtur er í ferðaþjónustu hér á landi og býr greinin við alla kosti og galla þess að vaxa hratt. Áskorunin snýst ekki eingöngu um að lengja ferðamannatímabilið og brúa tómarúm vetrarmánaðanna heldur einnig að greina hvort greinin sé að ná til þeirra ferðamanna sem hún sækist eftir. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að líta til framtíðar, ekki bara til næsta tímabils og miða uppbyggingu og markaðssetningu með hliðsjón af framtíðartækifærum.

Nefna má nokkur atriði sem huga þarf sérstaklega að í þessu sambandi. Það fyrsta er arðsemi greinarinnar sem ekki er viðunandi. Meginástæða þess er léleg nýting fjárfestingar í greininni á lágönn. Gæðamál í víðtækri merkingu þess orðs er annað atriði. Þarna kemur innri viðmið um góða stjórnunarþætti og þjónustu ferðaþjónustustaða inn í myndina, umgengni um náttúruperlur og uppbygging á þeim. Síðan og ekki síst er það þolinmæði og þrautseiga að leyfa langtímasjónarmiðum að ráða för við þróun greinarinnar og markaðssetningu og nýta þannig sem best það fjármagn sem greinin hefur til umráða til að ná ásættanlegum árangri. Meðal annars á grundvelli framangreindra gagna er núna verið að vinna að stefnumótun greinarinnar og verða umrædd atriði tekin til umfjöllunar þar og viðeigandi ráðstafanir gerðar. Á vel heppnuðu Ferðamálaþingi sem haldið var á Ísafirði á haustmánuðum 2011 komu fram mörg áhugaverð sjónarmið og nýjar víddir sem ekki hafa verið ofarlega í umræðunni síðustu ár. Skoða má erindin á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvar Ísland: www.nmi.is. Nauðsynlegt er fyrir grein eins og ferðaþjónustuna að tileinka sér nýja hugsun við lausn sinna viðfangsefna í stað hefðbundinna lausna þar að segja „að gera meira í dag miðað við það sem gert var áður“.

www.stjornvisi.is