Auðvitað er líkast öfugmælavísu að RÚV sé með á dagskrá sinni sjónvarpsþátt um bókmenntir og útvarpsþátt um kvikmyndir. Þetta ætti í réttu lagi að snúa á hinn veginn, nema hvorum þætti um sig stjórnar leikið fjölmiðlafólk sem sinnir sínu alveg ljómandi vel. Við fáum fína tilfinningu fyrir bíóinu hjá Sigríði Pétursdóttur í útvarpinu og bókaspjall Egils Helgasonar gerir sig vel í mynd. En mætti ekki gera meira af þessu?
Útvarpsmessan á sunnudagsmorgnum er ómissandi þáttur í ritúali landans og gaman gæti verið að sjá myndræna gerð hennar. Svipbrigði eru hluti tjáningarinnar og skipta miklu. Já, og svo gæti líka verið gaman að sjá hverjir hafi brugðið undir sig betri fætinum og skroppið í kirkju. Og því ekki að flytja okkur sígilda tónlist í myndrænni gerð? Sinfóníutónleikar í Hörpunni væru sjónvarpsefni í allra hæsta gæðaflokki.
Annað efni mætti eftir atvikum færa úr sjónvarpinu – enda dugar hljóðið. Umræðuþættir eins og til dæmis Silfur Egils og Kastljós eru kannski betri sem útvarpsefni, enda er myndmálið oft aðeins til uppfyllingar í þeim þáttum. Malandi þingmenn, þótt sannlega fríðir séu, eru óþarfir sem silfurgestir í sjónvarpi. Pistlahöfundi dugar að hlusta.