„Ég reikna nú bara með því að ég verði í vinnunni en síðan ræðst það nokkuð eftir veðri og vindum hvar ég verð niðurkominn. Þannig að ég passa mig alveg á því að gera ekki nein plön,“ segir Gísli Einarsson, fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu, aðspurður hvað hann ætli að gera á afmælisdaginn sinn, en hann er 45 ára í dag. „Ég hélt almennilega upp á fertugsafmælið mitt og ef ég næ því að verða fimmtugur þá kannski pæli ég í því að halda meira upp á það,“ segir Gísli að lokum.
„Það er annars svona eini fasti punkturinn að ég fæ væntanlega brauðtertu á afmælisdaginn. Það er svona regla á mínu heimili ef ég er á annað borð heima,“ segir hann og svarar því játandi spurður að því hvort slíkar tertur séu í uppáhaldi hjá honum. „Þetta eru eiginlega einu skiptin sem maður fær brauðtertu öðruvísi en í jarðarförum þannig að þetta er kærkomið og tilhlökkunarefni.“
Talið berst að lokum að veðurfarinu en Gísli er búsettur í Borgarnesi. „Það hefur snjóað drjúgt hérna. Eins og ég segi, maður veit ekki alveg hvar maður verður niðurkominn á afmælisdaginn, fastur í skafli eða eitthvað,“ segir Gísli og hlær. hjorturjg@mbl.is