Í kosningaham Barack Obama gengur að skrifstofu sinni í Hvíta húsinu í gær. Obama ítrekaði í stefnuræðu sinni á þriðjudag að hinir ríku ættu að bera sömu byrðar og almenningur og endurvekja ætti sanngirni í samfélaginu.
Í kosningaham Barack Obama gengur að skrifstofu sinni í Hvíta húsinu í gær. Obama ítrekaði í stefnuræðu sinni á þriðjudag að hinir ríku ættu að bera sömu byrðar og almenningur og endurvekja ætti sanngirni í samfélaginu. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Forsetinn talar í anda yfirtökuhreyfingarinnar • Reynir að ná til reiðra kjósenda með loforðum um jafnræði og sanngirni • Stefnuræðan eins og kosningaávarp • Segir ótækt að auðmenn borgi lægri skatta en ritararnir þeirra og vill að lágmarksskattur á milljón í tekjur verði 30%

Baksvið

Karl Blöndal

kbl@mbl.is

Ofurlaun og misskipting auðs hafa valdið ólgu og reiði almennings á tímum efnahagsþrenginga í Bandaríkjunum og stefnuræða Baracks Obama Bandaríkjaforseta á þriðjudagskvöld bar því vitni. Obama krafðist þess að skattbyrði milljónamæringa yrði hækkuð verulega til þess að tryggja jafnræði og sanngirni.

„Annað hvort getum við sætt okkur við land þar sem sífellt fámennari hópi manna vegnar mjög vel á meðan vaxandi fjöldi Bandaríkjamanna rétt skrimtir, eða við getum endurbyggt efnahag þar sem allir fá sanngjarnt tækifæri, allir leggja sitt af mörkum og allir leika eftir sömu reglum,“ sagði Obama í ræðunni.

Boðar Buffett-regluna

Hann gerði ummæli auðkýfingsins Warrens Buffett um að hann greiddi lægri skatta en ritarinn hans að sérstöku umtalsefni. Lagði hann til að tekin yrði upp ný regla, Buffett-reglan, sem hljóðar þannig að sá sem þénar meira en milljón dollara á ári skuli ekki greiða minna en 30% í skatta.

„Washington ætti að hætta að niðurgreiða milljónamæringa,“ sagði Obama og vitnaði þar í repúblikanann Tom Coburn. „Reyndar ætti sá, sem vinnur sér inn meira en milljón dollara á ári ekki að fá sérstakar niðurgreiðslur eða frádrátt frá skatti. Hins vegar ættu skattar þeirra sem er með undir 250 þúsund dollurum í árstekjur eins og 98% Bandaríkjamanna ekki að hækka. Þeir berjast við hækkandi kostnað og tekjur sem standa í stað. Þeir þurfa á hjálp að halda.“

Forsetinn hélt áfram á sömu nótum: „Þið getið kallað þetta stéttabaráttu ef þið viljið. En að fara fram á það að milljarðamæringur borgi að minnsta kosti jafn mikið og ritarinn hans í skatta? Flestir Bandaríkjamenn myndu kalla það heilbrigða skynsemi.“

Obama sagði að velgengni í peningamálum væri ekki tilefni öfundar í Bandaríkjunum, heldur aðdáunar. „Þegar Bandaríkjamenn tala um að fólk eins og ég eigi að bera minn hluta af skattbyrðinni er það ekki vegna þess að þeir öfunda þá ríku,“ sagði forsetinn. „Það er vegna þess að þeir skilja að þegar ég fæ skattafrádrátt, sem ég þarf ekki á að halda eykst annað hvort fjárlagahallinn eða einhver annar þarf að vinna upp mismuninn, til dæmis ellilífeyrisþegi með fastar tekjur eða námsmaður sem er að reyna að komast í gegnum skóla eða fjölskylda sem er að reyna að ná endum saman. Það er ekki rétt og Bandaríkjamenn vita að það er ekki rétt.“

Þetta var síðasta stefnuræða Obama á þessu kjörtímabili og andstæðingar hans vona að hún verði sú síðasta. Vinsældir forsetans hafa farið þverrandi og hann þarf að finna leið til að ná til kjósenda líkt og hann gerði fyrir fjórum árum eigi hann að ná endurkjöri. Honum hafa verið mislagðar hendur í flestum málum og mistekist að koma efnahagslífinu í gang. Repúblikanar hafa gert það sem þeir geta til að vera honum erfiðir og mætt sáttfýsi hans af fullri fjandsemi. Í ræðunni á þriðjudagskvöld var sáttatónninn horfinn og fremur að forsetinn byði andstæðingum sínum byrginn.

Lítt dulbúin árás á Romney

Áhersla hans á að hinir ríku eigi að borga sinn skerf er líka lítt dulbúin árás á Mitt Romney, sem margir gera ráð fyrir að verði frambjóðandi repúblikana í kosningunum í nóvember, þótt Newt Gingrich sæki nú óvænt í sig veðrið.

Obama nefndi Romney aldrei á nafn í ræðunni, en hann er einn af auðmönnunum, sem forsetinn beindi orðum sínum að. Andstæðingar Romneys í forkosningum repúblikana hafa ítrekað skorað á hann að birta skattskýrslur sínar og á þriðjudag lét hann undan þrýstingnum. Þar kom í ljós að hann var með 21,7 milljónir dollara í tekjur af fjárfestingum sínum árið 2010 og 20,9 milljónir dollara árið 2011. Árið 2010 borgaði hann rétt rúmlega þrjár milljónir dollara í skatt eða 13,9%, sem er mun lægra skatthlutfall en flestir Bandaríkjamenn. Bandarískir launþegar geta þurft að borga allt að 35% í skatta til ríkisins.

Gingrich hefur veist harkalega að kapítalistanum Romney og er í raun kominn til vinstri við Obama í gagnrýni sinni á hann. Gingrich segir að á fimmtán ára ferli fjárfestingafélags hans, Bain Capital, hafi Romney rænt fyrirtæki og lagt niður störf.

Málflutningur Obama er í anda þeirrar óánægju, sem nú ríkir meðal Bandaríkjamanna. Bandaríkin eru nú að ganga í gegnum mesta samdrátt í efnahagslífinu í 78 ár og sú ímynd takmarkalausrar græðgi, sem fjármálaheimurinn hefur, auðveldar Bandaríkjamönnum ekki að kyngja hlutskipti sínu.

44% telja kerfið ósanngjarnt

Samkvæmt könnun, sem Gallup gerði fyrir dagblaðið USA Today í október, eru 44% Bandaríkjamanna þeirrar hyggju að bandarískt efnahagskerfi sé ósanngjarnt gagnvart þeim persónulega.

Þá sendi hugveitan Economic Policy Institute frá sér greiningu þar sem fram kom að eignir þess eins prósents Bandaríkjamanna, sem mest hafa á milli handanna, væru meiri en þeirra 90% sem „minnst“ eiga, ef hægt er að taka þannig til orða. Þá hljóta margir að vera hugsi yfir því að samkvæmt nýlegri könnun rannsóknarstofnunarinnar Pew eru fleiri Bandaríkjamenn undir þrítugu jákvæðir gagnvart sósíalisma heldur en kapítalisma, 49% á móti 46%, og er það í fyrsta skipti sem það gerist.

Mótmæli yfirtökuhreyfingarinnar, sem hófust á Wall Street í september, hafa snúist um misrétti. Kjörorð hennar er að hún gangi erinda 99% með vísan til þess auðs, sem er í eigu þess eins prósents Bandaríkjamanna, sem mest hafa á milli handanna.

Þegar mótmæli hreyfingarinnar fóru að vekja athygli í október naut hún velþóknunar 54% Bandaríkjamanna, samkvæmt könnun Brookings-stofnunarinnar, og er það mun meiri stuðningur en var við mótmælin á sjöunda áratugnum í Bandaríkjunum.

Það er því kannski ekki að furða að málflutningur Obama skuli nú bera keim af yfirtökuhreyfingunni. Obama hefur á sér orð fyrir að vera handgenginn fjármálaheiminum, ekki síst vegna þess að hann leitaði þangað þegar hann skipaði í stjórn sína. Með því að tala um „sláandi græðgi hinna fáu“ og að „endurreisa sanngirni“ reynir hann að slá nýjan tón.

Forsetinn óvinsæll
» Repúblikanar gefa lítið út á málflutning Obama um að hækka skatta á hina ríku og segja að það væri aðeins ávísun á útgjöld og sóun í ríkisgeiranum.
» Aðeins 44% Bandaríkjamanna eru ánægð með frammistöðu Obama samkvæmt daglegri könnun Gallup, en viðtekið er að sitjandi forseti þurfi að njóta velþóknunar helmings kjósenda til að vera viss um endurkjör.
» Samkvæmt könnun CBS/New York Times í síðustu viku nýtur þingið hins vegar aðeins velþóknunar 13% almennings.