Óheppin María Lind Sigurðardóttir virtist hafa jafnað fyrir Hauka á ögurstundu, í lok framlengingarinnar í Njarðvík, en skaut aðeins of seint, að mati dómaranna. Þar með var leiknum lokið og Njarðvíkingar komnir í bikarúrslitin.
Óheppin María Lind Sigurðardóttir virtist hafa jafnað fyrir Hauka á ögurstundu, í lok framlengingarinnar í Njarðvík, en skaut aðeins of seint, að mati dómaranna. Þar með var leiknum lokið og Njarðvíkingar komnir í bikarúrslitin. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján Jónsson kris@mbl.is Í framhaldi af háspennuleik Njarðvíkur og Hauka í undanúrslitum Powerade-bikars kvenna í körfuknattleik á mánudagskvöldið hafa lokasekúndur leiksins nokkuð verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og á...

Fréttaskýring

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Í framhaldi af háspennuleik Njarðvíkur og Hauka í undanúrslitum Powerade-bikars kvenna í körfuknattleik á mánudagskvöldið hafa lokasekúndur leiksins nokkuð verið til umfjöllunar í fjölmiðlum og á samskiptasíðum.

Án þess að málsatvik séu rakin í löngu máli þá kom upp sú staða að Haukar áttu innkast undir körfu Njarðvíkur á lokasekúndu leiksins og Njarðvík var tveimur stigum yfir. Eftirlitsmaður og dómarar leiksins komust að þeirri niðurstöðu að 0,5 sekúndur væru til leiksloka. Haukar framkvæmdu sóknina vel því María Lind Sigurðardóttir fékk boltann í góðu skotfæri og skoraði. Dómararnir Jón Guðmundsson og Jakob Árni Ísleifsson leyfðu hins vegar körfunni ekki að standa á þeim forsendum að leiktíminn hafi verið runninn út þegar María sleppti knettinum.

Morgunblaðið hafði samband við Pétur Hrafn Sigurðsson, formann dómaranefndar KKÍ, og spurði hann út í verkferlana varðandi tilvik sem þessi. „Ef 0,3 sekúndur eða meira er eftir af leiktímanum þá er það skylda dómara að ákvarða hvort skotmaður sleppti knetti áður en leikklukka hljómaði til að gefa til kynna lok leikhluta. Ef um er að ræða 0,2 eða 0,1 sekúndu er eini möguleikinn á gildri körfu ef leikmaður blakar boltanum eða treður honum í körfuna í loftinu,“ sagði Pétur en þessi ákvæði eru skýr í reglunum. Pétur bætti því við að aðaldómarinn ætti lokaorðið þegar um matsatriði er að ræða.

„Aðaldómarinn tekur lokaákvörðun. Hann getur ráðfært sig við meðdómara sinn og eftirlitsmann ef hann er til staðar. Á endanum er það alltaf aðaldómarinn sem tekur ákvörðunina og er eini maðurinn á vellinum sem hefur vald til þess,“ útskýrði Pétur Hrafn.

Gerist með reglulegu millibili

Morgunblaðið spurði Pétur hvort dómarar lentu oft í aðstæðum sem þessum í körfuboltanum hérlendis? „Já, það gerist með reglulegu millibili. Ég var framkvæmdastjóri KKÍ í sautján ár og þessi staða kom upp með reglulegu millibili. Þetta gerist ekki bara í meistaraflokkunum heldur einnig í yngri flokkunum að körfur eru skoraðar um það bil þegar lokaflautið heyrist. Það er þá bara matsatriði hverju sinni því það eru bara örfáir leikir sem eru teknir upp á vélar eins og þekkjast á sjónvarpsstöðvunum,“ sagði Pétur ennfremur.

Takmarkað hvað má skoða

Dómurum er heimilt að nýta myndbandsupptökur á leikstað þegar um vafaatriði eins og þessi er að ræða. Þeir geta hins vegar ekki stöðvað leikina til að kíkja á upptökur af hinum og þessu matsatvikum í leikjum.

„Eina sem þeir hafa heimild til að skoða meðan á leiknum stendur er hvort um sé að ræða löglega körfu í lok leikhluta eða framlengingar. Einnig geta þeir athugað á myndbandsupptökum hvort slík karfa hafi verið tveggja eða þriggja stiga. Annað mega þeir ekki skoða meðan á leiknum stendur,“ sagði formaður dómaranefndar, Pétur Hrafn Sigurðsson, í samtali við Morgunblaðið.

• Á mbl.is/sport/korfubolti er að finna myndskeið af lokamínútunum í viðureign Njarðvíkur og Hauka.