Aflandskrónur Lífeyrissjóðirnir munu taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans sem fer fram í dag.
Aflandskrónur Lífeyrissjóðirnir munu taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans sem fer fram í dag. — Morgunblaðið/Ernir
Fjármálaráðuneytið hafnar því að lífeyrissjóðirnir njóti einhvers konar fjárhagslegrar ívilnunar gagnvart öðrum fjárfestum sem taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands.

Fjármálaráðuneytið hafnar því að lífeyrissjóðirnir njóti einhvers konar fjárhagslegrar ívilnunar gagnvart öðrum fjárfestum sem taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands.

Samkvæmt samkomulagi við fjármálaráðuneytið munu lífeyrissjóðirnir taka þátt í útboði Seðlabankans í því augnamiði að fjármagna hlut þeirra vegna greiðslu sérstakra vaxtabóta árin 2011 og 2012. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, segir í samtali við Morgunblaðið að samkomulagið hafi verið gert í samráði við Seðlabankann.

Rétt eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær þá hefur eignarhaldsfélagið Salander Holdings Ltd., sem er skráð á Möltu, kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna framkvæmdar á gjaldeyrisútboði bankans þar sem fjárfestar sitji ekki við sama borð. Róbert Guðfinnsson, talsmaður félagsins, segir að sjóðirnir fái sérlega góð kjör þar sem þeir „geti boðið lægra verð í útboðinu og tekið hagnaðinn inn í gegnum skattaívilnanir sem þeim bjóðast“.

Fá sama verð

Í svari frá Seðlabankanum segir að lífeyrissjóðunum bjóðist ekki betri kjör í útboðinu. „Þátttaka lífeyrissjóðanna í útboðum bankans verður með hliðstæðum hætti og annarra fjárfesta og munu þeir sæta sömu skilmálum og aðrir. Útboðsfyrirkomulag verður með þeim hætti að öll samþykkt tilboð bjóðast aðalmiðlurum á sama verði. Hæsta samþykkta verð ræður útboðsverði. Fjárfestar fá því sama verð fyrir gjaldeyri sinn í útboðinu.“

Í gjaldeyrisútboði Seðlabankans, sem fer fram í dag, er ætlunin að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir 100 milljónir evra. Annars vegar af lífeyrissjóðunum í skiptum fyrir verðtryggð RIKS30-bréf og hins vegar af langtímafjárfestum sem eru reiðubúnir að kaupa krónur samkvæmt fjárfestingaleið Seðlabankans.

hordur@mbl.is