Leikararnir Aðalleikararnir Dane DeHaan, Michael B. Jordan og Alex Russell eru óþekktir en skila sínu vel í þessari mjög athyglisverðu kvikmynd.
Leikararnir Aðalleikararnir Dane DeHaan, Michael B. Jordan og Alex Russell eru óþekktir en skila sínu vel í þessari mjög athyglisverðu kvikmynd.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Josh Trank Handritshöfundur: Max Landis Leikarar: Dane DeHaan, Michael B. Jordan, Michael Kelly, Alex Russell. 84 mín. Bandaríkin. 2012

Ég veit ekki hvort það hjálpaði til að ég vissi ekkert hvað ég var að fara á þegar ég fór á þessa mynd en hún reyndist hin óvæntasta skemmtun. Hún byrjar hægt þar sem er verið að leika sér með handhelda tökuvél sem mér hefur alltaf fundist velfjármögnuðum myndum farast illa úr hendi. En eftir svolítið sundurlausa byrjun ná sagan og aðalpersónur myndarinnar tökum á manni. Það kom svolítið aftan að manni þar sem maður var alltaf að bíða eftir að einhver formúlufrásögn færi af stað en á meðan maður beið var maður orðinn hugfanginn af því að fylgjast með þessum þremur piltum og þroskasögu þeirra, en um það fjallar myndin.

Sagan fjallar um þrjá unglinga í Seattle-borg í Bandaríkjunum sem öðlast yfirnáttúrlegan mátt og hvernig þeir þroskast með völdunum. Þetta eru vel gerðir strákar en einn þeirra kannski aðeins veikur fyrir vegna slæmra uppeldisaðstæðna. Það er kannski ekki góður bakgrunnur upp á að fá svona gríðarleg völd í hendurnar. Sagan sýnir hvernig þeir leika sér með völd sín og krafta og lenda í erfiðum siðferðislegum vangaveltum um hvað þeim leyfist og hvað ekki. Þeir upplifa mikla hamingju vegna krafta sinna en einnig miklar ógnir og hættur.

Leikur piltanna er góður og karakterarnir vel uppbyggðir. Fyrir vikið er gaman að fylgjast með þeim leika sér með hina nýju þekkingu og færni.

Leikstjórinn Josh Trank er víst aðeins 27 ára gamall Breti og handritshöfundurinn Max Landis ári yngri og eiga þeir örugglega eftir að láta að sér kveða.

Kvikmyndatakan er flott á myndinni og er bæði takan og hljóðið hugvitssamlega notað til að skapa spennu, fjarlægð og nánd, allt eftir því sem þarf. Stundum er skipt skarpt á milli mikils hávaða og algjörrar þagnar, eins og eftir mikið og hávaðasamt klúður einnar aðalpersónunnar, Detmers (Dane DeHaan), að skipt er yfir á föður hans koma inn á spítalann til hans og þá er það sýnt í þögn í gegnum öryggismyndavélar þannig að áhorfandinn getur engan veginn gert sér í hugarlund hvernig föðurnum er innanbrjósts þótt það skipti verulega miklu máli.

Í stuttu máli eru engin undur og stórmerki í gangi með þessari mynd og þemað er klassískt; hvernig fólk nær að höndla mikil og nýtilkomin völd. Þetta er svipuð saga og hefur verið sögð í árþúsundir í mannaheimum. En þetta er lipurlega gert, óvænt mynd í þessari röð ofurhetjumynda sem hafa tröllriðið markaðnum og hin allra besta skemmtun.

Börkur Gunnarsson

Höf.: Börkur Gunnarsson