— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fundur strandríkjanna og Rússlands um skiptingu makrílkvótans gæti staðið út vikuna.
Fundur strandríkjanna og Rússlands um skiptingu makrílkvótans gæti staðið út vikuna. Ríkin hafa fundað í vetur án þess að samkomulag hafi náðst og er talið að lokatækifærið til að ná samkomulagi um makrílveiðar þessa árs sé á fundinum sem hófst í Reykjavík í gær. Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til 646 þúsund tonna heildarafla á síðasta ári. Strandríkin settu sér einhliða kvóta og voru veidd samtals 900 þúsund tonn. Kvóti Íslands var tæplega 147 þúsund tonn sem samsvarar 16% af samanlögðum kvóta ríkjanna. Hann skilaði um 25 milljörðum í útflutningstekjur. Upphafskvóti Íslands í ár er svipaður og kvótinn í fyrra. Strandríkin eru Ísland, ESB, Noregur og Færeyjar. Fulltrúar Íslands eru við borðsendann fjær, frá hægri: Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Tómas H. Heiðar sem er aðalsamningamaður Íslands og Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar. Við hlið Jóhanns er Galovanov, áheyrnarfulltrúi Rússlands.