<strong>Undanfari</strong> Stilla úr marglaga myndbandsverki Sigurðar Guðjónssonar, þar sem unnið er með mynd og hljóð.
Undanfari Stilla úr marglaga myndbandsverki Sigurðar Guðjónssonar, þar sem unnið er með mynd og hljóð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Undanfari er heiti sýningar með nýrri myndbandsinnsetningu eftir Sigurð Guðjónsson myndlistarmann, sem verður opnuð í Hafnarborg á morgun, fimmtudag, klukkan 17.00.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Undanfari er heiti sýningar með nýrri myndbandsinnsetningu eftir Sigurð Guðjónsson myndlistarmann, sem verður opnuð í Hafnarborg á morgun, fimmtudag, klukkan 17.00. Sigurður hefur verið iðinn við sýningarhald undanfarin ár og hafa marglaga og hrífandi verk hans verið sýnd víða um lönd.

Þegar Sigurði var boðið að sýna í Hafnarborg ákvað hann að vinna verkið fyrir Sverrissal.

„Í haust bauð listaverkasafnari mér að dvelja í mánuð í íbúð sem hann á í Vínarborg,“ segir Sigurður þegar hann er spurður um kveikju verksins. „Þetta var 200 fermetra klassísk íbúð, án allra húsgagna. Hann bauð mér húsgögn en ég ákvað að halda henni tómri, fyrir utan skrifborð og stól. Ég notaði íbúðina síðan sem vinnustofu. Gólffjalirnar voru gamlar og það brakaði í þeim; það bergmálaði í rýminu eins og í íslenskum helli. Brakið er í raun kveikjan að þessu verki.“

Í verkinu sér inn í tóman sal og þar er nakinn karlmaður sem gerir einskonar líkamsæfingar, þannig að það brakar í gólfinu.

Yfir þá mynd leggst önnur, stálstrengir sem vísa í hljóðfæri, og eftir strengjunum ferðast skuggi eins og pendúll og þeir gefa frá sér hljóð.

„Samspil myndast milli strengjanna, líkamans og rýmisins og ég horfi í það,“ segir hann.

Vönduð úrvinnslan og persónulegur myndheimur hafa skipað Sigurði meðal fremstu myndbandslistamanna okkar. Verk hans hafa verið sýnd á fjölmörgum einka- og samsýningum hér á landi en auk þess hafa þau verið sýnd víða erlendis, í galleríum og söfnum, en einnig í sambandi við kvikmyndahátíðir. Í verkum Sigurðar eru ætíð nokkur lög. Hann vinnur með myndefnið og ekki síður hljóðheiminn.

„Eftirvinnslan er helmingur ferlisins,“ segir hann. „Verkin byrja á kveikju sem í þessu tilfelli eru gólffjalirnar, líkaminn og rýmið, en svo leggjast önnur lög við.

Verkið er sex mínútna langt, er endurtekið í sífellu og hefur ákveðna abstrakt sögu.

„Margt sést ekki. Hljóðheimurinn býr til að mynda til undiröldu sem ekki er auðvelt að koma í orð. Það er stór þáttur í mínum verkum.“

Myndbandið hefur verið miðill Sigurðar síðan hann kom fram á sjónarsviðið sem myndlistarmaður. Hann útskrifaðist frá LHÍ árið 2003 og stundaði framhaldsnám í Vínarborg.

„Já, þegar maður byrjar á vídeóinu er engin leið að komast út úr því. Möguleikarnir eru svo margir. Ég var búinn að vera í þrjá mánuði í Listaháskólanum á sínum tíma þegar ég kom inn í vídeóverið og ég hef ekki farið út úr því síðan.“