Ójöfnuður Mér skilst að það sé ríkinu nauðsynlegt að eiga gjaldeyrisvarasjóð. Til þess tökum við lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og greiðum af því vexti.

Ójöfnuður

Mér skilst að það sé ríkinu nauðsynlegt að eiga gjaldeyrisvarasjóð. Til þess tökum við lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og greiðum af því vexti. Sumir Íslendingar hafa ráð á að fara til útlanda og fá þá úthlutað gjaldeyri, sem annaðhvort er tekinn af varasjóðnum eða einhverju öðru, sem gæti minnkað lánið og vaxtagreiðsluna (sem ég og þú borgum). Þessir einstaklingar fá að eyða jafngildi 65.000 króna af dýrmætum gjaldeyri í vörur til að flytja tollfrjálst til Íslands, í viðbót við það áfengi, sem þeir neyta í ferðinni, án þess að „ríkið“ fái nokkuð í sinn kassa. Við (þú og ég) höfum ekki ráð á ferðinni, en kaupum e.t.v. einn eða tvo bjóra (íslenska framleiðslu) og borgum „ríkinu“ bróðurpartinn af andvirðinu. Okkur (þér og mér) er ekki launað fyrir aðhaldssemina eða sparnaðinn í gjaldeyri. Ef við (þú og ég) eigum ættingja eða vini í útlöndum, sem aumkva sig yfir fátæka landa sína og kaupa handa þeim gjöf fyrir gjaldeyri, sem ekki á uppruna sinn í íslensku efnahagskerfi og alls ekki er tekinn af gjaldeyrisvarasjóðnum, þá skulum við (þú og ég) greiða toll af verðmæti gjafarinnar umfram skitnar 10.000 (verðlausar) íslenskar krónur. Mér finnst það vera skýlaus réttur okkar (þín og mín) að fá gjafirnar tollfrjálsar allt að 65.000 kr.

Þórhallur

Hróðmarsson.


Svarað í síma 5691100 frá 10-12 velvakandi@mbl.is