[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hið árlega Ákamót HK í handbolta fyrir yngstu krakkana fór fram í Digranesi um fyrri helgi. Mótið hefur verið haldið samfleytt frá árinu 1996 en til þess var stofnað í minningu Þorvarðar Áka Eiríkssonar, fyrrverandi formanns HK.

Hið árlega Ákamót HK í handbolta fyrir yngstu krakkana fór fram í Digranesi um fyrri helgi. Mótið hefur verið haldið samfleytt frá árinu 1996 en til þess var stofnað í minningu Þorvarðar Áka Eiríkssonar, fyrrverandi formanns HK.

Nálægt eitt þúsund stúlkur og drengir í 7. og 8. flokki tóku þátt í mótinu. Liðin voru 150 talsins frá sextán félögum, og var keppt frá miðjum föstudegi og þar til síðdegis á sunnudeginum.

Að sögn Jóhanns Viðarssonar hjá barna- og unglingaráði HK heppnaðist mótið í alla staði mjög vel. Keppt var á þremur völlum í Digranesi, hver leikur var níu mínútur og hvert lið lék 4-5 leiki á um það bil tveimur klukkutímum, þannig að allur sá fjöldi foreldra og annarra aðstandenda krakkanna sem mætti til að fylgjast með mótinu var ekki bundinn yfir því heilan dag eða helgi. Jóhann sagði að líklega hefðu um 3.000 manns komið í Digranesið um helgina.

Kristinn Ingvarsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, mætti á mótið og tók þar meðfylgjandi myndir. vs@mbl.is