Svalt „Það verður að segjast að sá kynþokki sem lak af Sæþóri alla tónleikana er fáséður. Yfirvegunin og skeytingarleysið minntu um margt á Ástralann eitursvala Warren Ellis,“ segir rýnir m.a. Sæþór er til vinstri á myndinni.
Svalt „Það verður að segjast að sá kynþokki sem lak af Sæþóri alla tónleikana er fáséður. Yfirvegunin og skeytingarleysið minntu um margt á Ástralann eitursvala Warren Ellis,“ segir rýnir m.a. Sæþór er til vinstri á myndinni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Útgáfutónleikar rokksveitarinnar Sólstafa vegna plötunnar Svartra sanda. Fimmtudagurinn 9. febrúar.

Hljómsveitin Sólstafir hefur farið mikinn upp á síðkastið og var plata hennar Svartir sandar með þeim betri á síðastliðnu ári. Efnt var til tónleika í hinu gullfallega Gamla bíói síðastliðinn fimmtudag þar sem platan var flutt í heild. Glatt var á hjalla og bekkir þéttsetnir er liðsmenn sveitarinnar stigu á svið við mikið lófaklapp viðstaddra. Það er ekki á hverjum degi sem setið er á rokktónleikum sem þessum og því var von á áhugaverðri kvöldstund.

Andrúmsloftið varð kynngimagnað strax í fyrsta laginu, „Ljós í stormi“, en drungalegir tónarnir fóru einkar vel saman við þögla áhorfendurna sem sátu sem fastast meðan á flutningi stóð. Þær skemmtilegu andstæður sem myndast þegar þungir og kraftmiklir tónar mæta hreyfingarlausum áhorfendum eru magnaðar og upplifunin verður að mörgu leyti áhrifaríkari fyrir vikið. Það voru þó ákveðnir hárprúðir einstaklingar í salnum sem þurftu greinilega að halda í sér til að fara ekki að „slamma“ og var ákveðin skemmtun fólgin í því að fylgjast með þeim kreppa hnefana og beisla á sér hárið. Þeim var þó greinilega skemmt.

Það var skammt stórra högga á milli en lagið „Fjara“, sem er með vinsælli lögum á plötunni, kom næst og fór mjög vel í tónleikagesti. Liðsmenn Sólstafa fengu þar aðstoð bakradda sem leystu hlutverk sitt með miklum sóma. Það var skemmtileg andstæða í tveimur síðustu lögunum fyrir hlé en yfirvegaðir tónar lagsins „Kukls“ róuðu salinn eftir hamaganginn í laginu „Æru“. Í „Kukli“ komu til skjalanna m.a. píanó og sílófónn sem Sæþór Maríus Sæþórsson, gítarleikari sveitarinnar, lék á. Það verður að segjast að sá kynþokki sem lak af Sæþóri alla tónleikana er fáséður. Yfirvegunin og skeytingarleysið minntu um margt á Ástralann eitursvala Warren Ellis og ekki skemmdi hnausþykkt skeggið ásýndina. Aðalbjörn Tryggvason söngvari var líflegur á sviðinu sem og bassaleikarinn Svavar Austmann. Trymbillinn Guðmundur Óli Pálmason rak svo smiðshöggið og var sviðsframkoma þeirra félaga í heild mjög góð. Í síðari hluta var öllu til tjaldað og mátti meðal annars sjá félaga úr kórnum Hljómeyki stíga á svið og státaði kórinn af miklum þokka. Síðasta lagið á dagskrá var svo „Djákninn“, sem var einstaklega vel flutt og vakti mikla lukku viðstaddra. Ég er ekki frá því að ég hafi séð glitta í hvítan blett í hnakka mannsins sem fyrir framan mig sat er hann reis á fætur í fagnaðarlátunum og smeygði ég mér því úr annarri erminni til að hafa allan vara á. Að loknu einu uppklappslagi voru vel heppnaðir tónleikarnir á enda runnir og við tók stinningskaldi íslenskrar vetrarnætur.

Davíð Már Stefánsson

Höf.: Davíð Már Stefánsson