Lagarfljótsormurinn Úr myndbandinu sem Hjörtur Kjerúlf, bóndi á Hrafnkelsstöðum, tók af „orminum“ í Jökulsá í Fljótsdal í fyrstu viku febrúar.
Lagarfljótsormurinn Úr myndbandinu sem Hjörtur Kjerúlf, bóndi á Hrafnkelsstöðum, tók af „orminum“ í Jökulsá í Fljótsdal í fyrstu viku febrúar.
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Það er óhætt að segja að myndskeið af „Lagarfljótsorminum“ goðsagnakennda hafi vakið heimsathygli eftir að það var birtist á vef Ríkisútvarpsins í byrjun febrúar.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Það er óhætt að segja að myndskeið af „Lagarfljótsorminum“ goðsagnakennda hafi vakið heimsathygli eftir að það var birtist á vef Ríkisútvarpsins í byrjun febrúar. Um fjórar milljónir manna höfðu skoðað það á vefsíðunni Youtube í gær og fjallað hefur verið um það í sjónvarpsþættinum Good Morning America á ABC og af fréttastöðvunum Reuters og Fox News.

Discovery News reyndi svo að leysa gátuna um það sem sést hlykkjast í vatninu og telur að um dauðan hlut hafi verið að ræða, eins og fiskinet eða dúk. Þá hefur Oddur Sigurðsson jarðfræðingur sagt að líklega sé um að ræða girðingardræsu sem dragi á eftir sér íshröngl í leysingunum. Hvað sem þarna hefur verið á ferð er sagan góð og hefur vakið heimsathygli.

Öll umfjöllun vekur athygli

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri hjá Ferðamálastofu, á erfitt með að svara hvort sú athygli, sem þetta myndskeið hefur vakið, eigi eftir að hafa áhrif á ferðamannastrauminn til Íslands. „Þetta er umfjöllun og öll umfjöllun vekur athygli á landinu en ég veit ekki hvort bein áhrif á ferðaþjónustuna verða mikil eða viðvarandi. Þetta er skemmtifrétt og slíkar fréttir geta vakið athygli á landinu og þá sér í lagi hjá þeim sem hafa einhvern áhuga eða þekkingu á landinu fyrir,“ segir Ólöf og bætir við að fyrir þá sem hafa þegar ákveðið ferð hingað getur þetta vakið athygli á landshlutanum, Austurlandi.

Hún segir að það yrði líkast til sterkari kynning ef erlendur fjölmiðill myndi fjalla um þjóðsöguna um Lagarfljótsorminn, og að yfirleitt sé vænlegra til árangurs til lengri og skemmri tíma að byggja á raunverulegum styrkleika ferðaþjónustunnar.

Ólöf man ekki eftir neinu viðlíka myndbandi af „Lagarfljótsorminum“ en segir það þó ekki vekja mikla athygli á landinu miðað við eldgosin í fyrra og hittifyrra. „Eldgosin voru raunveruleg birtingarmynd landsins. Umfjöllun um eðliseiginleika íslenskrar náttúru hefur varanlegri áhrif á ferðamannastrauminn en svona skemmtifrétt,“ segir Ólöf.