Sveinbjörn Matthíasson
Sveinbjörn Matthíasson
Frá Sveinbirni Matthíassyni: "Þetta hljómar barnalega en hvers vegna eru þessar deilur um Reykjavíkurflugvöll og hvaða tilfinningar eru þar að baki? Til að fá svör við þessum spurningum brá ég mér á ráðstefnu sem haldin var á vegum Háskólans í Reykjavík 19 janúar sl."

Þetta hljómar barnalega en hvers vegna eru þessar deilur um Reykjavíkurflugvöll og hvaða tilfinningar eru þar að baki? Til að fá svör við þessum spurningum brá ég mér á ráðstefnu sem haldin var á vegum Háskólans í Reykjavík 19 janúar sl.

Flugvöllurinn hefur verið mér kær og í ljósi minninganna eru umsvif hernámsins það fyrsta sem ég man eftir. Eftir stríðið var mikil umferð um flugvöllinn, þar voru áberandi gulu kennsluvélarnar Piper Cup og Tiger Moth sem notaðar voru við þjálfun flugmanna framtíðarinnar; mannanna sem tóku þátt í vori flugsins á Íslandi. Áræði lítillar þjóðar sem fékk nafnbótina „flugþjóð“ vakti athygli um heim allan og ávann sér virðingu á sviði flugsins.

Á ráðstefnunni voru lagðar fram staðreyndir um eðli flugsins og kosti flugvallarins í almannasamgöngukerfinu.

Þarna mættust tvær andstæðar fylkingar þar sem sjónarmið virtust ósættanleg. Einföldun á niðurstöðu málefnisins var einfaldlega þessi: „Innanlandsflugvöll eða ekki.“

Það var athyglisvert að heyra fulltrúa borgarinnar halda því fram að borgin gæti lagt flugvöllinn niður þar sem hagsmunum borgarbúa væri betur borgið með því að byggja blokkir í mýrinni.

Einnig hefur verið endurvakin hugmyndin um byggingu járnbrautarstöðvar og leggja teina alla leið til Keflavíkur. Málið hefur verið rætt áður og niðurstaðan er fyrirliggjandi: kostnaður yrði óyfirstíganlegur fyrir þjóðina, auk þess sem með færslu innanlandsflugs til Keflavíkur væri þar með verið að leggja innanlandsflugið niður.

Ef við reynum að komast að niðurstöðu í þessum ágreiningi er hún þessi:

Með viðhorfi þeirra fulltrúa innan borgarstjórnarinnar sem vilja fá flugvallarsvæðið til byggingar eru þeir þar með að segja að flugsamgöngur hafi ekki það gildi sem aðrir vilja halda fram. Landsbyggðin hafi ekki rétt á því að tenging við höfuðborgina sé eins góð og mögulegt er.

Ef til vill fæst ekki lending í þessu máli þar sem ráðandi öfl innan borgarkerfisins eru ekki tilbúin að hlusta á vel unnin rök, það er því skoðun mín að lausnin felist í því að Alþingi taki af skarið og tryggi það að aðalsamgönguvirki Reykjavíkur verði ekki skammsýni ráðandi afla að bráð.

Einföld og ódýr niðurstaða er fyrir hendi: „Látið flugvöllinn í friði“ og snúið ykkur að einhverju öðru.

SVEINBJÖRN

MATTHÍASSON,

Rauðalæk 47, Rvík.

Frá Sveinbirni Matthíassyni

Höf.: Sveinbirni Matthíassyni