Súr Hálfdán til í slaginn rétt fyrir blót, með lundabaggafrómasinn.
Súr Hálfdán til í slaginn rétt fyrir blót, með lundabaggafrómasinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjálfsagt myndi ekki hver sem er smakka súkkulaðihúðuð hrútseistu, sláturpestó eða lundabaggafrómas. En þessir réttir voru meðal þess sem finna mátti á fusion-þorrablóti sem vinahópur frá Ísafirði hélt á dögunum.

Sjálfsagt myndi ekki hver sem er smakka súkkulaðihúðuð hrútseistu, sláturpestó eða lundabaggafrómas. En þessir réttir voru meðal þess sem finna mátti á fusion-þorrablóti sem vinahópur frá Ísafirði hélt á dögunum. Meðlimir hópsins eru óhræddir að prófa sig áfram en maturinn í ár var minna óætur en í fyrra og ekkert á borðum sem engan veginn var hægt að koma niður.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Vinahópur á Ísafirði hélt heldur óvenjulegt Þorrablót á dögunum en þar var reiddur fram fusionþorramatur. Það er að segja hinn hefðbundni þorramatur í heldur óvenjulegum útfærslum. Í hópnum eru um 20 manns og er kjarninn gamall vinahópur á Ísafirði sem síðan hefur bæst við. Hópsfélagar eiga það sameiginlegt að vera áhugafólk um frumlega matargerð.

Djúpsteikt hvalrengi verst

Á borðum var meðal annars þorrafondue með niðurskornum hrútseistum, hákarli og fleiru sem dýft var í súkkulaðifonduepott, sláturlasagna, lundabaggafrómas, brauðréttur með súrum hval og hrútseistum, sláturpestó, djúpsteiktar flatkökur og súkkulaðihúðað laufabrauð, súkkulaðihúðuð sviðasulta og slátursmoothie eða sláturbúst. „Bústið var hnausþykkt og eins og að drekka mold. Það var dálítið erfitt að koma því niður en tókst að lokum. Þetta er í annað sinn sem við höldum slíkt blót en í ár var maturinn talsvert ætari en í fyrra. Þá kom ég t.d. með hvalrengi sem var djúpsteikt upp úr tælensku gogi-deigi. Þetta er líklegast það versta sem ég hef nokkurn tímann bragðað og því gat enginn komið niður. Menn „pulla sig nú vel upp“ áður en þeir mæta. Ég held að enginn sé svo vitlaus að mæta sársvangur þar sem það getur brugðið til beggja vona hvernig maturinn bragðast,“ segir Hálfdán Bjarki Hálfdánarson, einn af hinum framsæknu matgæðingum.

Útlitið blekkir

Flestir í hópnum eru þorravanir og fusion-þorrablótið því ekki þeirra fyrsta þorrablót. Það er kannski eins gott því líkt og Hálfdán segir þá er með þorramatinn eins og ýmislegt annað að hlutirnir eru ekki endilega góðir saman þó að þeir séu ágætir hver í sínu lagi. Sem dæmi um slíkt megi nefna súrsað ávaxtasalat.

Meðlimir hópsins prófa sig þó óhræddir áfram en Hálfdán segir matreiðsluna nú frekar ganga út á að hafa matinn áhugaverðan heldur en bragðgóða. Framreiðslan skipti máli og réttirnir líti oftast mjög venjulega út. Þannig geti útlitið auðveldlega blekkt fólk viti það ekki hvað sé í réttinum. Hálfdán segir nýtinguna á matnum sjaldnast mjög góða og ekki sé allt étið upp til agna.

Franskt þorraeldhús

Hálfdán segir að nægar hugmyndir séu eftir og honum hafi dottið í hug að blanda franskri eldamennsku við þorramatinn næst. „Mér hefur dottið í hug að gera útfærslu af crème brûléele með súrum hval og þeyta inn í það súrum hval. Nú er vertíð í þorrablótum og flestir í hópnum sem mæta á fleiri en eitt blót. Mér finnst langflestur þorramatur góður en hef þó aldrei vanist á lundabagga. Þeir eru samt ágætir í frómas og gekk merkilega vel að koma þeim niður. Ég held að þarna sé jafnvel kominn nýr jólafrómas fyrir næstu jól.“

ÞORRAKVÆÐI

Lygilega súr frómas

Þetta skemmtilega kvæði sömdu Hálfdán og eiginkona hans Dóra Hlín Gísladóttir um fusion þorramatinn.

Lundabaggafrómasinn er

lygilega súr,

látum eins og ekkert sé

þó ælan velli eyrum útúr...

Höldum í oss ælunni

inn með matinn inn

fjörið er á Fusion-blóti

inn með matinn inn.