Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, viðurkennir að hafa gengið of langt í þingsalnum á mánudag þegar hann sagði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að þegja.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, viðurkennir að hafa gengið of langt í þingsalnum á mánudag þegar hann sagði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að þegja.

Steingrímur sagði við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í gær, að þetta væri ekki stór atburður í hans huga, „en ég er nógu stór til að viðurkenna það, að þetta er ekki viðeigandi orðbragð,“ sagði Steingrímur.

Hann sagði að þetta hefðu verið orðahnippingar úti í þingsalnum og ekki ætlaðar fyrir fjölmiðla eða í hljóðritun. „Við þurfum væntanlega báðir að sitja á strák okkar og stilla skap okkar í framhaldinu,“ sagði Steingrímur.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokks, sagði í umræðu á Alþingi um störf þingsins í gær að Steingrímur hefði farið yfir öll velsæmismörk þegar hann sagði Sigmundi Davíð að þegja.

Gunnar Bragi sagði að ýmis orð hefðu verið látin falla í þingsal en nýtt væri að mönnum væri sagt að þegja og það væri hneyksli.

Velti Gunnar Bragi því fyrir sér hvort Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti þingsins, þyrfti ekki að grípa inn í og ræða við ráðherra ríkisstjórnarinnar um það hvernig þeim bæri að haga sér og koma fram við þingið og þingmenn.

„Ég held að forseti þingsins ætti að taka hæstvirtan formann Vinstri grænna á kné sér og rassskella hann,“ sagði Gunnar Bragi.