Frá Páli Pálmari Daníelssyni: "Fallöxin í Frakklandi gekk alveg fram af sjálfri byltingunni frægu, aðstandendum hennar flestum, skilst mér, og allri arfleifðinni, með þeim afleiðingum að lífið leitaði fram í Bandaríkjunum."

Fallöxin í Frakklandi gekk alveg fram af sjálfri byltingunni frægu, aðstandendum hennar flestum, skilst mér, og allri arfleifðinni, með þeim afleiðingum að lífið leitaði fram í Bandaríkjunum. Þess vegna er þaðan jafnan að vænta stórstígra framfara í þágu alls mannkyns, einkum vegna frelsis-„áráttu“ þeirra. Raunar flýtur með ýmislegt fleira, mis- görótt stöff sem flokka mætti oft sem freistingar. Að afstöðnum borgarastyrjöldum.

Þó varð það þeirra hlutskipti að berja niður illskuna sem reis hvað hæst í Þýskalandi og Japan (hroki á sterum) á styrjaldarárunum. Með illu (alveg skelfilegum sprengjum). Mörgum hættir til að álasa Bandaríkjamönnum óhóflega fyrir þær ákvarðanir sem teknar voru í reykfylltum bakherbergjum, þegar heimurinn allur stóð í björtu báli.

Þá kom líka fljótlega í ljós erfitt hlutskipti þeirra á þessari jörð: Að byggja upp aftur í stað þess sem brotið var niður – en nú með „frelsi“ að leiðarljósi. Ekki bara málfrelsi og athafnafrelsi, heldur líka og ekki síst – trúfrelsi. Það varð m.a. til þess að búddismi Nichiren Daishonin fékk að streyma fram óhindraður í kjölfar ríkistrúarinnar „Shinto“ sem Japönum var gert að aðhyllast fram að uppgjöfinni skilyrðislausu.

Íraksstríðið síðara (á okkar öld) fannst mér sérkennilega ólíkt öllum öðrum stríðum, enda komu Íslendingar við sögu í aðdragandanum. (Samþykktu túlkun vestrænna ríkja á ályktun Öryggisráðs SÞ og lofuðu fjármagni til uppbyggingarinnar í Írak eftir sprengjuárásirnar.) Ekki var byrjað að hreyfa heraflann fyrr en búið var að semja við alþjóðlega verktaka fyrirfram.

Að vísu var sjálfu stríðinu þjófstartað um hálfan sólarhring eða svo, vegna ónákvæmra upplýsinga að sögn – en vel hefði mörgum þótt fara á því að Saddam hefði þá strax verið fargað – í stað þess að skepnan var dregin upp úr holu eins og könguló löngu síðar, dæmd og hengd við lítinn orðstír. Betur fór þó að bræðurnir synir hans, ódrættirnir úrkynjuðu, voru báðir upprættir í einu með sömu sprengjunni. Höfðu þeir um langa hríð notið þeirrar gerðar „frelsis“ sem engin sómakær manneskja getur samþykkt.

Ábyrgð á ávallt að fylgja frelsi og enginn má ganga á rétt samborgara sinna. Fara ber að lögum, enda sé vel til þeirra vandað.

PÁLL PÁLMAR

DANÍELSSON,

leigubílstjóri.

Frá Páli Pálmari Daníelssyni

Höf.: Páli Pálmari Daníelssyni