Drífa Kristjánsdóttir
Drífa Kristjánsdóttir
Unnið er að undirbúningi sameiningar leikskólans á Laugarvatni við Grunnskóla Bláskógabyggðar. Sameiningin tekur gildi við byrjun næsta skólaárs. „Markmiðið er að efla skólastarfið fremur en að spara.

Unnið er að undirbúningi sameiningar leikskólans á Laugarvatni við Grunnskóla Bláskógabyggðar. Sameiningin tekur gildi við byrjun næsta skólaárs. „Markmiðið er að efla skólastarfið fremur en að spara. Við höfum gætt þess hér að draga ekki úr þjónustu á samdráttartímum,“ segir Drífa Kristjánsdóttir, oddviti Bláskógabyggðar, um breytingarnar.

Þær voru ákveðnar að undangengnum umræðum á skólaþingi og skoðun málsins í vinnuhópi.

Leikskólinn og grunnskólinn eru báðir litlar einingar sem reknar eru undir sama þaki. Þótti ávinningur í að sameina þá. Einn stjórnandi verður yfir skólanum en Drífa segir hugmyndina ekki síður að nýta krafta leikskólakennara við kennslu yngstu barnanna í grunnskóladeildinni.

Bláskógabyggð rekur einnig grunnskóladeild og leikskóla í Reykholti. Þ-listinn sem er í minnihluta vill ganga lengra og sameina alla leikskóla og grunnskóla sveitarfélagsins í eina öfluga skólastofnun. Drífa segir að unglingarnir úr grunnskólanum á Laugarvatni séu hluta úr tveimur dögum í Reykholti og til greina komi að auka samkennslu en ákveðið hafi verið að hafa áfram heildstætt skólastarf á báðum stöðum.