Vertíð Loðnufrysting hófst í Vinnslustöðinni í gær. Unnið er allan sólarhringinn á vöktum. Rúmlega 30 manns eru á hvorri 12 tíma vaktinni.
Vertíð Loðnufrysting hófst í Vinnslustöðinni í gær. Unnið er allan sólarhringinn á vöktum. Rúmlega 30 manns eru á hvorri 12 tíma vaktinni. — Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Loðnufrysting hófst hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum í gær. Þá landaði Kap VE-4 um 800 tonnum af fallegri loðnu sem fékkst út af Jökulsá á Breiðamerkursandi. Í morgun var von á Sighvati Bjarnasyni VE-81 með svipaðan skammt.

Loðnufrysting hófst hjá Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum í gær. Þá landaði Kap VE-4 um 800 tonnum af fallegri loðnu sem fékkst út af Jökulsá á Breiðamerkursandi. Í morgun var von á Sighvati Bjarnasyni VE-81 með svipaðan skammt.

„Þetta er fín loðna og stærðin er fín,“ sagði Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs hjá Vinnslustöðinni.

Hann sagði að um 40 hængar væru í kílói eða um 50 hrygnur. Hrognafylling er nú um 14% en hún þarf að fara yfir 20% og hrognin að þroskast betur áður en hrognavinnsla getur hafist. Sindri sagði að venjulega hæfist hrognavinnsla 20. til 25. febrúar ár hvert. Hluti aflans fer nú í heilfrystingu fyrir markaði í Austur-Evrópu. Einnig er keyrt á fullu við vinnslu á mjöli og lýsi. Sindri sagði að markaðsaðstæður hefðu verið erfiðar fyrir frysta loðnu.

Unnið er á tólf tíma vöktum, nótt og dag, við loðnufrystinguna hjá Vinnslustöðinni. Sindri sagði að rúmlega 30 manns væru á hvorri vakt. Þá er líka verið að vinna bolfisk, bæði verið að frysta og salta.

Loðnan gengur nú vestur með suðurströndinni. „Hún er að þétta sig og hrognafyllingin eykst,“ sagði Sindri. gudni@mbl.is