Gunnar Steinn Jónsson
Gunnar Steinn Jónsson
Ekkert verður af því að handknattleiksmaðurinn Gunnar Steinn Jónsson gangi til liðs við þýska 1. deildar liðið Gummersbach á næstu dögum. Stjórn Drott samþykkti í gær að afþakkað tilboð þýska liðsins í Gunnar Stein.

Ekkert verður af því að handknattleiksmaðurinn Gunnar Steinn Jónsson gangi til liðs við þýska 1. deildar liðið Gummersbach á næstu dögum. Stjórn Drott samþykkti í gær að afþakkað tilboð þýska liðsins í Gunnar Stein. Þjálfari Drott hafði áður krafist þess að stjórnin afþakkaði boðið þar sem hann vildi ekki missa Íslendinginn úr herbúðum sínum nú þegar komið er inn á síðari hluta sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik.

Gunnar Steinn sagði í gær að hann virti skoðun stjórnarinnar og þjálfarans. Hann myndi eftir sem áður einbeita sér að því að leggja sig fram með Drott þar til samningur hans við Halmstad-liðið rynni út um mitt þetta ár.

Þar sem samningur Gunnars Steins við Drott rennur út um mitt þetta ár fær félagið ekkert fyrir hann flytji hann sig um set að samningstímanum liðnum. Gummersbach var tilbúið að greiða Drott fyrir vistaskipti Gunnars Steins þótt það ætlaði fyrsta kastið aðeins að gera við hann samning fram á mitt þetta ár.

„Nú er það bara að einbeita sér að Drott út tímabilið og vona að það komi eitthvað annað spennandi þegar samningurinn minn rennur út,“ sagði Gunnar Steinn í gær en hann er nú að á sinni þriðju leiktíð með Halmstad-liðinu sem situr í sjötta sæti af 14 liðum sænsku úrvalsdeildarinnar.

iben@mbl.is