Hlýindi Fyrri hluti febrúar hefur verið með hlýrra móti víða um land.
Hlýindi Fyrri hluti febrúar hefur verið með hlýrra móti víða um land. — Morgunblaðið/RAX
Hlýtt hefur verið víða á landinu það sem af er febrúar.

Hlýtt hefur verið víða á landinu það sem af er febrúar. Á öðrum tímanum í fyrrinótt fór hitinn í 14,8 stig á Teigarhorni við Berufjörð, sem er nýtt hitamet í febrúar á þessari fornfrægu veðurstöð, að því er Sigurður Þór Guðjónsson skrifar í bloggi sínu (nimbus.blog.is). Þá fór hitinn í 14,1 stig á Fáskrúðsfirði og 13,6 stig í Grundarfirði. Veðurstofan spáir kólnandi veðri þegar líður á daginn og frosti um allt land síðar í vikunni.

Meðalhitinn í Reykjavík fyrstu 14 daga febrúar er 3,4 stig sem er 3,8 stigum yfir meðallagi þegar horft er til síðustu 60 ára. Meðalhiti á Akureyri sömu daga er 4,0 stig og 6,4 stigum fyrir ofan meðallag þar í bæ.

Trausti Jónsson veðurfræðingur sagði að fyrri hluti febrúar 1956 og 1959 á Akureyri hefði verið ámóta og nú. Spáð er kólnandi veðri í bili og eftir er að sjá hversu langt meðalhitinn hrapar á næstu dögum. Þegar litið er til meðalhita fyrstu 14 daga febrúar í Reykjavík undanfarin 60 ár hefur það líklega gerst fjórum sinnum að meðalhiti hafi verið meiri en nú. Að sögn Trausta var fyrri helmingur febrúar 1986, 1965, 1991 og 1959 lítillega hlýrri en nú. Árunum er raðað í hlýindaröð. Trausti sagði að ekki munaði miklu, febrúar 1986, 1991 og 1959 hröpuðu allir talsvert eftir miðjan mánuð, en 1965 hélt sínu striki til mánaðamóta og er næsthlýjasti febrúar allra tíma í Reykjavík, aðeins febrúar 1932 var hlýrri.

Trausti sagði niðurstöður svona samanburðar markast af því tímabili sem valið er. Það geti vel verið að finna megi önnur jafn löng tímabil á sama árstíma sem gefi svipaða niðurstöðu og þeir dagar sem nú voru skoðaðir. gudni@mbl.is