Fólk Hlutfall þeirra sem voru undir lágtekjumörkum hér á landi var 9,8%.
Fólk Hlutfall þeirra sem voru undir lágtekjumörkum hér á landi var 9,8%. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Sláandi tölur um umfang fátæktar í Evrópulöndum er að finna í nýrri samantekt Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Sláandi tölur um umfang fátæktar í Evrópulöndum er að finna í nýrri samantekt Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins. 23% Evrópubúa eru sögð vera undir skilgreindum lágtekjumörkum eða búa við hættu á félagslegri einangrun.

Tölurnar sem samanburður Eurostat byggist á eru frá árinu 2010. Öll aðildarlönd ESB eru undir í þessari samantekt og einnig eru birtar tölur fyrir Ísland, Noreg og Sviss. Skv. upplýsingum Hagstofunnar eru upplýsingarnar um Ísland fengnar úr lífskjararannsókn Hagstofunnar 2010. Þær hafa nú verið felldar inn í samanburð milli Evrópuþjóða.

Ef eingöngu er litið á hversu stór hluti hverrar þjóðar var fyrir neðan skilgreind lágtekjumörk, sem ýmsir hafa talið gefa sterka vísbendingu um fátæktarmörk, kemur í ljós að meðaltalið í Evrópu var um 16% á árinu 2010. Ísland kemur betur út úr samanburðinum en nær öll önnur Evrópulönd, því hlutfall þeirra sem voru undir lágtekjumörkum hér á landi var 9,8%. Þetta er eftir sem áður sláandi stór hópur eða ríflega 31 þúsund einstaklingar, sem eru með minni ráðstöfunartekjur en sem nemur lágtekjuviðmiðinu, (156.900 króna ráðstöfunartekjur fyrir einstakling hér á landi árið 2010).

Dekkri mynd er dregin upp ef félagslegar greiðslur, aðrar en ellilífeyrir og örorkubætur, eru undanskildar í samanburðinum á ráðstöfunartekjum einstaklinga. Þá hækkar hlutfall Íslendinga sem eru fyrir neðan lágtekjumörkin í 22,8%. Þetta hlutfall er 26,6% í Noregi, 26,7% í Svíþjóð og 24,2% í Danmörku.

Hagstofa ESB gengur þó lengra í samanburðinum og skoðar ekki eingöngu hversu margir eru undir lágtekjumarkinu, heldur tekur einnig tillit til útgjalda, þ.e. hvort viðkomandi á fyrir nauðþurftum, getur mætt óvæntum útgjöldum og er óvirkur á vinnumarkaði skv. samræmdum viðmiðum. Þeir sem falla undir þessi viðmið eru sagðir eiga á hættu félagslega útilokun.

Í samantekt Eurostat eru dregnar saman upplýsingar um þá sem eru fyrir neðan lágtekjumörkin og teljast þá vera í hættu á félagslegri einangrun. Eins og áður segir er meðaltalið fyrir öll Evrópulöndin tæplega fjórðungur íbúa sem eru fyrir neðan lágtekjumörkin og/eða í hættu á félagslegri útilokun. Hlutfallið er lægst á Íslandi af löndunum 30 eða 14,3% en það þýðir þó miðað við nýjustu mannfjöldatölur að ríflega 45 þúsund Íslendinga eru fyrir neðan lágtekjumörk og/eða er hætt við félagslegri einangrun. Hlutfallið er 14,9% í Noregi og 15% í Svíþjóð.

17,6% barna undir tekjuviðmiði og er hætt við einangrun

Það vekur hins vegar athygli að börn og unglingar, 17 ára og yngri, á íslenskum heimilum koma verr út úr þessum samanburði en jafnaldrar þeirra annars staðar á Norðurlöndum. 17,6% Íslendinga undir 18 ára aldri eða um 14 þúsund einstaklingar, búa á heimilum sem eru undir lágtekjumörkum og/eða er talið hætt við félagslegri útilokun. Hlutfallið er 14,6% í Noregi, 14,5% í Svíþjóð og 14,2% í Finnlandi.

Íslensk börn og ungmenni skera sig einnig úr þar sem hlutfall þeirra sem falla undir þessi lágtekju- og félagslegu mörk er mun hærra en í öðrum aldurshópum hér á landi. Þessu er öfugt farið í nágrannalöndum þar sem hlutfallið er minnst í yngstu aldurshópunum.

ÓLÍK STAÐA ALDURSHÓPA

Hinir eldri betur settir

Tæp 27% barna og ungmenna, 17 ára og yngri, í aðildarlöndum ESB lifðu undir fátæktarmörkum og bjuggu við hættu á félagslegri einangrun árið 2010 skv. skýrslu Eurostat. Meginástæðurnar eru litlar tekjur foreldra, bágar heimilisaðstæður, atvinnuleysi og skortur á velferðaraðstoð af hálfu hins opinbera í einstökum löndum. Þó Ísland komi betur út en flest þessara landa kom fram í lífskjararannsókn Hagstofunnar í fyrra að íslenskar konur 18-24 ára væru sá hópur sem hefði mesta tilhneigingu til að lenda fyrir neðan lágtekjumörkin eða 19%. Í samanburði Eurostat er hlutfallið hins vegar lægst í elstu hópunum. Þar kemur fram að 5,3% Íslendinga 65 ára og eldri lentu fyrir neðan lágtekjumörkin og/eða eru talin í hættu á félagslegri einangrun. Hlutfallið er hvergi lægra í Evrópu.