Dagur elskenda Valentínusardagurinn er vinsæll víða um heim.
Dagur elskenda Valentínusardagurinn er vinsæll víða um heim. — AP
Teheran. AFP. | Þótt klerkastjórnin í Íran hafni vestrænum áhrifum nýtur Valentínusardagurinn vaxandi vinsælda meðal unga fólksins þar í landi.

Teheran. AFP. | Þótt klerkastjórnin í Íran hafni vestrænum áhrifum nýtur Valentínusardagurinn vaxandi vinsælda meðal unga fólksins þar í landi.

Klerkastjórnin hefur barist gegn erlendum menningaráhrifum, sem hún segir til marks um spillingu og úrkynjun, en Valentínusardagurinn hefur samt haldið velli og gott betur. Ein af ástæðunum kann að vera sú að 60% af 75 milljónum íbúa Írans eru undir þrítugu og einn af hverjum þremur er á aldrinum 15-30 ára.

Vinsæll meðal ungs fólks í efri stéttum

Margt af unga fólkinu er einhleypt og þar sem klerkastjórnin hefur bannað bari, skemmtistaði og kynjablönduð teiti líta mörg ungmennanna á Valentínusardaginn sem kærkomið tækifæri til að stíga í vænginn við hitt kynið. Íranskir kaupmenn og veitingamenn líta einnig á Valentínusardaginn sem gott viðskiptatækifæri.

Nokkrir kaupmenn í Teheran sögðu fréttamanni AFP að vaxandi eftirspurn væri eftir rósum, Valentínusarkortum, konfekti, ilmvötnum og öðrum gjafavörum í aðdraganda Valentínusardagsins. Eigandi veitingahúss, sem býður upp á ítalskan mat, sagði að það væri uppbókað á Valentínusardeginum og pör hefðu bókað borð með löngum fyrirvara.

Flestir þeirra sem halda upp á Valentínusardaginn eru af miðstétt eða yfirstétt, að sögn eins viðmælanda fréttamannsins, 24 ára konu sem leggur stund á háskólanám í arkitektúr í Teheran.

Þjóðernissinnaðir Íranar vilja að unga fólkið skiptist frekar á gjöfum á hátíð sem nefnist Mehregan og er haldin í október til heiðurs Mithra, fornri persneskri ástargyðju. Lítil þátttaka er hins vegar í þeirri hátíð meðal ungra elskenda.