Fimm Steven Lennon lék vörn KR grátt hvað eftir annað í úrslitaleiknum í fyrrakvöld og á hér í höggi við Gunnar Þór Gunnarsson, miðvörð Vesturbæinga. Hann skoraði tvö mörk á fyrstu fjórum mínútum leiksins og þrennu fyrir hlé.
Fimm Steven Lennon lék vörn KR grátt hvað eftir annað í úrslitaleiknum í fyrrakvöld og á hér í höggi við Gunnar Þór Gunnarsson, miðvörð Vesturbæinga. Hann skoraði tvö mörk á fyrstu fjórum mínútum leiksins og þrennu fyrir hlé. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is „Ég átti alveg von á því við myndum vinna, en 5:0 og ég skora öll mörkin hvarflaði aldrei að mér,“ sagði skoski framherjinn Steven Lennon í samtali við Morgunblaðið í gær.

Fótbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Ég átti alveg von á því við myndum vinna, en 5:0 og ég skora öll mörkin hvarflaði aldrei að mér,“ sagði skoski framherjinn Steven Lennon í samtali við Morgunblaðið í gær.

Þessi 24 ára gamli lipri Skoti sýndi hreint mögnuð tilþrif með Frömurum í fyrrakvöld þegar þeir tryggðu sér Reykjavíkurmeistaratitilinn með því að bursta Íslands- og bikarmeistara KR í úrslitaleik í Egilshöllinni. Lennon gerði sér lítið fyrir og skoraði öll mörk Safamýrarliðsins þar sem hann lék varnarmenn Íslandsmeistaranna ansi grátt og lét þá líta illa út.

Varnarmenn í Pepsídeildinni hljóta að fá kvíðahnút í magann þegar þeir hugsa um Lennon og sjá hverju þeir eiga von á þegar þeir fara að glíma við þennan eldsnögga og leikna framherja sem svo sannarlega kryddaði íslenska fótboltasumarið í fyrra með frammistöðu sinni.

Gleymi þessu ekki

Spurður hvort þetta sé í fyrsta sinn á ferlinum sem hann skorar fimm mörk í einum og sama leiknum segir Lennon: „Já. Ég hef nokkrum sinnum náð að skora þrennu en það var virkilega gaman að skora fimm mörk og það gegn KR sem er bæði Íslands- og bikarmeistari. Þetta er nokkuð sem ég mun ekki gleyma,“ sagði Lennon.

Það er óhætt að segja að Lennon hafi verið himasending fyrir Framara en hann kom til liðsins þegar það var í hálfvonlausri stöðu í botnsæti Pepsídeildarinnar um mitt tímabil í fyrra. Lennon gjörbreytti leik liðsins en eftir að hann kom til liðsins vann liðið sex leiki, gerði þrjú jafntefli og tapaði þremur. Hann skoraði fimm mörk í tólf leikjum og lagði upp nokkur mörk fyrir samherja sína. Framarar voru ekki lengi að setjast niður með Skotanum eftir Íslandsmótið og nokkrum dögum eftir að hafa fagnað áframhaldandi veru í deild þeirra bestu skrifaði Lennon undir nýjan tveggja ára samning við félagið.

Liðið betra og stefnan að ná Evrópusæti

Ykkur Frömurum hefur gengið vel á undirbúningstímabilinu en hvaða væntingar hefur þú til sumarsins?

„Ég vona bara að við náum að halda áfram þessu góða gengi. Við enduðum tímabilið mjög vel í fyrra og höfum bara haldið áfram á sömu braut í vetur. Það er komin meiri breidd í leikmannahópinn, liðið er töluvert betra en í fyrra og ég er bara bjartsýnn fyrir tímabilið. Toddi er virkilega góður þjálfari sem nær mjög vel til leikmanna og æfingarnar eru góðar hjá honum. Við vorum í mikilli fallbaráttu í fyrra en ég er að gæla við að getum endað í einu af þremur efstu sætunum í sumar og náð að vinna okkur sæti í Evrópukeppninni.

Við megum ekki ofmetnast þó svo að við höfum unnið þetta mót en ég held að þetta veiti liðinu gott sjálfstraust upp á framhaldið. Nú tekur við nýtt mót (Lengjubikarinn) sem byrjar um helgina og ég held að við eigum að spila við KR 23. febrúar. Það verður áhugaverður leikur eftir úrslitin í síðasta leik,“ sagði Lennon.

Spurður hvaða lið hann haldi að verði í toppbaráttunni í sumar sagði hann: „KR verður örugglega í toppbaráttu og bæði FH og Vestmannaeyjar eru með góð lið en ég held að mörg lið geti blandað sér í þá baráttu og við í Fram ætlum okkur að vera þar.“

Var fljótur að aðlagast hlutunum

Lennon segist kunna ákaflega vel sig í herbúðum Fram og segir leikstíl liðsins henta sér mjög vel.

„Ég naut þess að spila með liðinu eftir að mér bauðst að koma til Íslands um mitt sumar í fyrra. Ég var fljótur að aðlagast hlutunum og mér var ákaflega vel tekið. Það hjálpaði auðvitað til að vera með Sam Tillen, Alan Lowing og Samuel Hewson í liðinu. Ég vildi reyna fyrir mér utan Bretlands og ég sé ekki eftir því að hafa komið hingað til Íslands.“

Hóf ferilinn með Rangers

Lennon hóf feril sinn sem miðjumaður og árið 2006 gerði hann samning við skoska stórliðið Rangers. Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliði Rangers í desember sama ár en samhliða því lék hann með U19 ára liði félagsins og skoraði til að mynda þrennu gegn erkifjendunum í Celtic þegar Rangers hafði betur í úrslitaleik skosku bikarkeppninnar hjá U19 ára liðunum árið 2007. Lennon, sem lék sex leiki með U21 árs landsliði Skota 2008, gerði nýjan samning við Rangers árið 2007 og gilti sá samningur til ársins 2010. Hann var sendur á lán til skoska liðsins Partick Thistle tímabilið 2009-09 og lék sem lánsmaður með enska liðinu Lincoln City hluta ársins 2010 og það sama ár samdi hann við írska liðið Dundalk. Þar varð hann fyrir því óláni að fótbrotna. Í febrúar á síðasta ári gerði Lennon stuttan samning við velska liðið Newport County og lék með því út tímabilið en hann hafnaði nýjum samningi í maí og tveimur mánuðum síðar var hann kominn í búning Framliðsins.

Hann útilokar ekki að spila á nýjan leik með Rangers. „Það er aldrei að vita. Ég gæti haldið aftur heim eftir nokkur ár en núna er ég með hugann við Fram.“

Hvernig finnst þér gæðin á fótboltanum hér á Íslandi. Eru þau meiri en þú reiknaðir með?

„Mér finnst mörg góð lið hér á Íslandi og mikið af góðum spilurum. Ég get nefnt nokkra hjá KR og Stjörnunni til að mynda og ég tek eftir því að það er mikið af ungum og efnilegum leikmönnum hér á landi.“

Hélt að það ætlaði aldrei að hætta að snjóa

Lennon segist vera hrifinn af landi og þjóð. „Ísland er virkilega gott land. Eins og í Skotlandi er fólkið hér afar vinalegt og veðrið er svipað og heima í Skotlandi. Ég hélt að vísu að það ætlaði aldrei að hætta að snjóa hérna þegar ég kom hingað eftir frí í janúar. Svona mikinn snjó hef ég aldrei séð áður,“ sagði Skotinn knái og hló við.

Heldur með Tottenham

Lennon segist fylgjast grannt með ensku úrvalsdeildinni sem og þeirri skosku. Rangers er að sjálfsögðu hans lið í Skotlandi en hvaða liði skyldi hann fylgja á Englandi?

„Mitt lið er Tottenham Hotspur. Ég er mjög ánægður með hvernig liðinu gengur. Það spilar flottan fótbolta og í því eru margir klassaleikmenn. Vonandi fer liðið alla leið. Hópurinn er nógu góður til þess,“ sagði hinn geðþekki Lennon.

Steven Lennon
» Hann er nýorðinn 24 ára og var í fjögur ár á mála hjá Rangers í Skotlandi.
» Þar spilaði hann þrjá leiki í úrvalsdeildinni, 18 ára gamall, en skoraði mikið fyrir unglinga- og varalið félagsins. Hann lék sex leiki með skoska 21-árs landsliðinu.
» Lennon var í láni hjá Partick Thistle í hálft ár, 2008-09, og síðan í þrjá mánuði hjá Lincoln í ensku D-deildinni snemma árs 2010.
» Lennon lék með Dundalk á Írlandi seinni hluta árs 2010 og síðan með velska liðinu Newport í úrvalsdeild ensku utandeildanna fyrri hluta árs 2011.
» Hann kom til liðs við Fram í júlí 2011 og skoraði sex mörk í tíu leikjum í úrvalsdeildinni.
Fram var með 3 stig eftir 10 leiki þegar Lennon kom til liðsins en fékk 21 stig eftir það og bjargaði sér frá falli með ævintýralegum endaspretti.