Mark Rut Jónsdóttir skorar í leik með Team Tvis Holstebro en hún og liðið eiga góðu gengi að fagna.
Mark Rut Jónsdóttir skorar í leik með Team Tvis Holstebro en hún og liðið eiga góðu gengi að fagna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Landsliðskonan Rut Jónsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarliðið Team Tvis Holstebro.

Handbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Landsliðskonan Rut Jónsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarliðið Team Tvis Holstebro. Rut er á sínu fjórða ári með liðinu og hefur ríkt mikil ánægja með hana hjá forráðamönnum félagsins.

Örvhenta skyttan, sem lék með HK áður en hún hélt til Danmerkur, er í stóru hlutverki með liðinu, sem hefur komið mikið á óvart á yfirstandandi leiktíð.

„Það voru fleiri lið sem ræddu við mig en ég er það ánægð hér í bænum og hjá liðinu að mér fannst í raun ekki koma til greina annað en að gera nýjan samning. Þetta var besti kosturinn og ég sé ekki ástæðu til þess að fara frá liðinu. Aðstaðan er virkilega góð og það hefur verið staðið við alla gerða samninga og ekki skemmdi það fyrir að við fengum nýja höll í fyrra. Við höfum náð góðum árangi og frammistaðan á tímabilinu hefur verið betri en við áttum sjálfar von á. Við megum þó ekkert fara að slaka á því það er mikið eftir af því,“ sagði hin 21 árs gamla Rut Jónsdóttir við Morgunblaðið í gær en hún lék nýlega sinn 100. leik með danska liðinu.

Mætir Lada á nýjan leik

Team Tvis Holstebro er í 1.-2. sæti í dönsku úrvalsdeildinni, ásamt Viborg, og þá er liðið komið í átta liða úrslit í EHF-keppninni þar sem liðið dróst á móti rússneska liðinu Lada í gær. Liðin áttust við í undanúrslitum í keppninni í fyrra þar sem Rut og stöllur hennar höfðu betur samanlagt, 52:51. Í úrslitum tapaði svo Holstebro-liðið fyrir danska liðinu Midtjylland samanlagt, 52:47.

„Það verður erfitt að vinna danska meistaratitilinn en ég hef fulla trú á því að við vinnum til verðlauna. Svo ætlum við að reyna að komast sem lengst í Evrópukeppninni. Við vorum að vonast til að mæta ekki aftur liði Lada en við verðum að vinna það aftur eins og í fyrra. Á góðum degi eigum við að geta það,“ segir Rut.

Frábært að hafa Þóreyju

Rut er ekki eini íslenska landsliðskonan sem leikur með Team Tvis Holstebro því hornamaðurinn Þórey Rósa Stefánsdóttir kom til liðsins síðastliðið sumar og gerði nýjan tveggja ára samning við félagið eins á dögunum eins og fram kom í Morgunblaðinu.

„Það var frábært að fá Þórey. Það er fínt að geta talað íslenskuna inn á milli á æfingunum og svo er Þórey frábær í alla staði. Hún hefur staðið sig virkilega vel og það er gott til þess að vita að við eigum eftir að spila saman næstu árin,“ sagði Rut.

Rut er búinn að klára menntaskólann en námið stundaði hún í fjarnámi og samhliða handboltanum vinnur hún í nokkra klukkutíma á viku á frístundarheimili.

„Það er fínt að vera með krökkunum í stað þess að hanga bara heima og gera ekki neitt. Handboltinn tekur drjúgan tíma og það bara hið mesta mál,“ sagði Rut.

Einn besti „fintarinn“

Niels Agesen, þjálfari liðsins, fagnar því að Rut verði um kyrrt hjá félaginu.

„Rut er einn besti „fintarinn“ í þessari stöðu í deildinni. Hún á eftir að bæta sig meira með meiri styrk enda eru hæfileikarnir svo sannarlega til staðar hjá henni,“ segir Agesen á vef félagins.