Ábyrgðarlaust væri að fela ESB að ákveða hlut Íslands í flökkustofnum

Í athyglisverðri grein hér í blaðinu í gær vekur Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landsambands íslenskra útvegsmanna, athygli á hagsmunum Íslands vegna makrílsins og fleiri fiskistofna sem fara inn og út um íslensku efnahagslögsöguna. Þýðing makrílsins fer vaxandi fyrir íslenskan sjávarútveg og þar með fyrir efnahag Íslands og eins og Friðrik bendir á skilaði aðeins þorskurinn meiri útflutningsverðmætum inn í landið.

Um þessa miklu hagsmuni togast Íslendingar nú á við Evrópusambandið og fleiri sem gera kröfur til veiða úr stofninum. Þar sem Íslendingar hafa borið gæfu til að standa utan við Evrópusambandið eiga þeir þess kost að semja um þessa hagsmuni sína og þurfa ekki að ganga að þeim afarkostum sem Evrópusambandið reynir nú að þröngva upp á þá.

Friðrik vekur athygli á afstöðu Evrópusambandsins til veiða sambandsins og Íslands úr norsk-íslenska síldarstofninum og úthafskarfanum. Óhætt er að segja að þar er afstaða Evrópusambandsins mjög andsnúin hagsmunum Íslands og reynir sambandið í öllum tilvikum að ganga á augljósan rétt Íslands.

Þeir Íslendingar sem eru blindaðir af trú sinni á Evrópusambandið og telja allt til vinnandi að koma Íslandi í þann félagsskap halda því ýmist fram að hagsmunir Íslands séu litlir þegar kemur að flökkustofnum eða að innan sambandsins gætu Íslendingar náð fram hagstæðum samningum fyrir sig. Báðar eru kenningarnar vitaskuld fjarstæðukenndar. Hagsmunirnir eru augljósir, bæði hvað varðar þá stofna sem nú er um að tefla og eins hina sem síðar kunna að færa sig inn í lögsöguna. Um stöðu Íslands til samninga væri landið innan Evrópusambandsins þarf tæpast að hafa mörg orð. Þar gætu Íslendingar ekkert annað gert en þegið það sem ákveðið væri í Brussel og þeir hefðu lítið sem ekkert um að segja. Þar ráða allt aðrir hagsmunir en Íslands og Íslendinga.