Sigríður Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 30. mars 1950. Hún lést í Svíþjóð 26. janúar 2012.

Foreldrar hennar: Sigurður Kristján Sigurbjörnsson, f. 12. nóvember 1903, d. 27. september 1989, og María Finnbogadóttir, f. 24. apríl 1914. Systkini hennar eru Hákon, f. 20. september 1942, og Björg, f. 12. desember 1943.

Sigríður giftist hinn 11. september 1971 eftirlifandi eiginmanni sínum, Hauki Viggóssyni, f. 14. júní 1951. Börn þeirra eru: Finnbogi Már, f. 11. maí 1971, dóttir hans er María, Jóhann Steinar, f. 3. nóvember 1974, og Una Ragnheiður, f. 7. mars 1979.

Sigríður fluttist með foreldrum sínum til Kópavogs fimm ára gömul. Þar bjó hún til þrítugs er þau Haukur fluttu til Reykjavíkur. Seinustu árin áður en þau fluttu til Svíþjóðar vann hún hjá Námsgagnastofnun. Í Svíþjóð fóru þau í framhaldsnám tengt kennslu sem bæði höfðu valið sér sem ævistarf. Sigríður menntaði sig til að sinna börnum með félagsleg vandamál. Eftir það kenndi hún við Verner Rydén-skólann í Malmö. Tvö barna þeirra og barnabarn búa í Svíþjóð en eitt á Íslandi.

Útför Sigríðar fer fram frá Digraneskirkju í dag, 15. febrúar 2012, og hefst athöfnin kl. 15.

Fyrsta vitneskja mín um hana litlu, elskuðu, systur mína var í desember 1949 þegar ég vældi yfir því að vinkona mín hefði eignast bróður. Mamma svaraði mér því að ég skyldi bíða róleg fram í mars, þá gæti vel verið að ég yrði jafnheppin. Þetta gekk eftir og var þessi viðbót við fjölskylduna okkur öllum kærkomin. Ég taldi hana vera hálfgerða framlengingu af mér því þegar ég fékk að passa hana og var að basla með vagninn þurfti ég að losa mig við utanyfirfötin og fannst mér þá sjálfsagt að það væri eins með hana.

Ekki minnist ég annars en að okkur systkinunum hafi fundist eðlilegt að hún yrði nánari mömmu en við sem vorum nokkru eldri en hún. Hún var rólegt barn og þægileg í umgengni eins og hún hefur alla tíð verið.

Þegar Sigga var fimm ára fluttum við í Kópavog. Þar gekk hún í Kársnesskóla og fór seinna í Kennaraskólann. Eftir það fór hún að kenna í gamla barnaskólanum sínum. Sagði hún þá að hún hefði ekki getað orðið kennari ef hún hefði ekki farið í sveit og kynnst lífinu þar.

Hún vann við Námsgagnastofnun í nokkur ár áður en fjölskyldan flutti til Svíþjóðar til framhaldsnáms. Ætlunin var að vera þar í fáein ár en það breyttist og árin eru orðin tuttugu og tvö.

Sigga fór í sérnám og lærði að sinna börnum með félagsleg vandamál. Þar var hún á réttum stað.

Hún sinnti börnunum „sínum“ vel og náði góðum árangri. Sem dæmi má taka unglingsdreng sem færður var í bekkinn hennar. Hann var talinn vonlaus í skóla. Þegar að skólaslitum kom á sal bað þessi sami piltur um að fá að koma upp á svið og segja nokkur orð. Þangað kom hann með þrjá blómvendi. Fyrsta vöndinn færði hann skólanum, annan einni skólasystur í þakklætisskyni fyrir besta kvöld sem hann hafði upplifað á lokaskemmtuninni kvöldið áður og þriðji vöndurinn var til Siggu kennarans hans. Það segir allt sem segja þarf.

Ég ætla þó að minnast á réttlætiskennd systur minnar. Sigga sagði nemendum sínum að segja sér alltaf ef þau yrðu fyrir aðkasti því hún sæi það ekki á þeim ef slíkt gerðist. Þá tók hún strax á málinu og viðkomandi óróaseggur var ekki til vandræða eftir það.

Það er erfitt að skrifa eftirmæli eftir þá sem maður elskar og getur ekki sætt sig við að missa. Við Sigga höfum ekki búið í sama landi nema helminginn af ævi hennar. Maður leiðir ekki hugann að því þegar tengslin eru sterk. Maður ber þessar manneskjur ætíð innra með sér. Sigga og Haukur voru mér og börnum mínum betri en enginn þegar maðurinn minn og faðir þeirra lést. Það var reynt að hugsa fyrir öllu sem hægt var til að gera okkur lífið léttara. Fyrir það og alla aðra hjálp frá þeim þakka ég nú og við berum Siggu í huga okkar og hjarta um ókomna tíð.

Ég sendi kveðjur frá móður okkar aldraðri til ljúflingsins hennar.

Haukur minn og börnin. Samúðarkveðjur sendum við ykkur.

Björg Sigurðardóttir, Sigvarður Ari, Hróðný María og Eðna Hallfríður Huldarsbörn.

Í dag kveð ég systur mína Sigríði, ég hef alltaf litið á hana sem litlu systur þó svo að það séu bara átta ár á milli okkar. Það eru margar minningar sem koma upp í hugann þegar ég hugsa til baka. Sigga var óvenjulega ljúf og skapgóð manneskja og sá alltaf jákvæðu hliðarnar á öllum málum – nema í pólitík. Hún var þannig gerð að fólk þurfti ekki að þekkja hana mikið til að líka vel við hana. Það er bara þannig að sumir hafa eitthvað við sig; ljúft og bjart fas og hún átti gott með að ná sambandi við fólk og það sama má segja um Hauk, þess vegna eignuðust þau marga vini og stóran kunningjahóp.

Þegar Haukur og Sigga ákváðu að flytja til Svíþjóðar vegna framhaldsnáms var meiningin að vera aðeins í fáein ár en þau eru nú orðin 22 og þau voru ekki á leiðinni heim vegna þess að þeim leið vel þar. Gríska skáldið Aristófanes sagði: „Föðurland manns er þar sem honum gengur vel“ og þeim leið vel í Svíþjóð en taugarnar til Íslands voru sterkar og Sigga vildi koma heim til Íslands að lokum.

Sigga hafði til að bera einstakt æðruleysi og vildi ávallt sjá heiminn björtum augum. Hún gerði lítið úr veikindum sínum og fannst ekki taka því að gjaldfella sjálfa sig með veikindatali og það villti um fyrir okkur hinum sem vorum svo langt í burtu, hún vildi hlífa okkur við áhyggjum.

Ég vil þakka elsku systur minni fyrir hvað hún var góð og sýndi mömmu okkar mikla alúð og hlýju með því að bjóða henni til sín í Svíþjóð á hverju sumri í mörg ár, hún naut þess að sitja úti í fallega garðinum þar innan um fjölskrúðug blómabeðin.

Að kveðja ástvin sem deyr fyrir aldur fram eftir langa og góða samferð er erfið reynsla sem mörg okkar verða að takast á við einhvern tímann á lífsleiðinni. Það getur verið erfitt að sjá framhaldið og hvernig á að fylla upp í það tómarúm sem skapast við slíkar aðstæður. Það er nú verkefnið sem blasir við Hauki og börnunum og þá skiptir máli að eiga góðar minningar, geta rifjað upp allt það góða og skemmtilega. Fjölskylda Siggu á fjársjóð minninga sem léttir sporin og auðveldar þeim að byggja framtíðina án hennar.

Gangi henni vel á þeirri leið sem hún hefur nú lagt út á.

Megi góður Guð blessa minningu Siggu systur.

Hákon Sigurðsson.

Kær vinkona er látin. Fallegar minningar um hlýja og trausta vinkonu streyma um hugann. Fagran haustdag lá leið okkar Siggu saman í strætó. Við fórum út á Þóroddsstöðum og héldum af stað í Kennaraskólann. Við vorum 16 ára; á tímamótum; skólaævintýri að hefjast og lífið var gott. Þar hófst vinátta sem hélst æ síðan. Sigga var Kópavogsbúi og ég nýlega flutt þangað. Hún var listræn og skáldleg og tók mig með í leikhús og söfn; dró mig á sinfóníuna, sleppti aldrei úr tónleikum. Hún kenndi mér að meta klassíska tónlist og bókmenntir. Kennaraskólinn var okkur dýrmætur í glaðværum hópi í C-bekknum, lærdómurinn góður. En við mótuðumst einnig af bítlunum; hippunum; vorum '68-kynslóðin, blómabörn; pólitískar og baráttuglaðar og gengum í takt. Sigga tók bílpróf og nýr kafli hófst í ferðalögum okkar; við fórum rúntinn á kvöldin, spiluðum bítlalögin í botn og „Hey Jude“ varð okkar lag. Glaumbær beið handan við hornið og þar fann Sigga Haukinn sinn.

Skólaárunum lauk og lífið tók nýja stefnu, kennarastarfið og fjölskyldulíf tók við; árin liðu. Við fögnuðum hvor með annarri þegar börnin okkar fæddust. Hvor með tvo drengi og eina stúlku. Fylgdumst með börnunum dafna og þroskast, bárum saman bækur okkar í leik og starfi. Stundum leið langt milli funda, en það var alltaf eins og við hefðum hist deginum áður; Hlustuðum, heyrðum og töluðum lengi; deildum gleði og sorgum.

Sigga og Haukur fóru í framhaldsnám í Svíþjóð og settust að í Åkarp á Skáni. Sigga tók sérkennarapróf með góðum vitnisburði, varð afbragðs sérkennari í Malmö svo eftir var tekið. Þau eignuðust barnabarn í Svíþjóð og undu hag sínum vel. Við Bjarni áttum þess oft kost að koma til þeirra, njóta þeirra einstöku gestrisni; það voru góðar stundir, mikið hlegið; „Hey Jude“ og dans inn í nóttina.

Síðustu árin tókst Sigga á við erfiðan sjúkdóm með þeim baráttuvilja og æðruleysi sem einkenndi hana. Lífsins ferðalagi hennar er nú lokið. Í huga mér er sár söknuður en jafnframt þakklæti yfir að hafa fengið að verða henni samferða öll þessi ár. Blessuð sé minning hennar.

Stillt vakir ljósið

í stjakans hvítu hönd,

milt og rótt fer sól

yfir myrkvuð lönd.

Ei með orðaflaumi

mun eyðast heimsins nauð.

Kyrrt og rótt í jörðu

vex korn í brauð.

(Jón úr Vör)

Elsku Haukur, Una, Jói, Finnbogi og María litla, á þessari kveðjustund er hugur okkar Bjarna hjá ykkur.

Okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Kolbrún Þórðardóttir.

Lífið er fljótt;

líkt er það elding sem glampar um nótt

ljósi, sem tindrar á tárum,

titrar á bárum.

(Matthías Jochumsson)

Kær vinkona og skólasystir, Sigríður Sigurðardóttir, er fallin frá, alltof fljótt. Með sorg í hjarta kveð ég þessa ljúfu æskuvinkonu mína. Við Sigga vorum bekkjarsystur, fyrst í Kársnesskólanum í Kópavogi, í Gagnfræðaskóla Kópavogs og í Kennaraskóla Íslands, þar sem við útskrifuðumst sem kennarar aðeins tvítugar að aldri.

Sigga var yndisleg að utan sem innan, fíngerð og falleg, brosmild og hæglát, góð og traust. Margt kemur upp í hugann þegar ég lít til baka og oft var glatt á hjalla t.d. þegar Sigga spilaði á píanóið fyrir okkur krakkana eða þegar við fórum á rúntinn á bíl pabba hennar. Einu sinni sem oftar fórum við Sigga saman í Glaumbæ og hittum þar fyrir ungan og myndarlegan mann frá Eskifirði, Hauk Viggósson, sem var góður vinur minn. Ég kynnti þau að sjálfsögðu og hann bauð Siggu upp í dans. Nú eru liðin meira en fjörutíu ár og hafa þau Haukur dansað saman alla tíð síðan.

Fjölskyldan var henni kær, eiginmaðurinn, börnin og nú síðast barnabarnið, María, litla fallega stúlkan hans Finnboga. Hún var augasteinn afa og ömmu og dvaldi mikið hjá þeim. Er missir hennar mikill.

Fyrir nokkrum árum fór Sigga að kenna sér meins en tókst að vinna bug á því að talið var. Þá átti hún góðan tíma þar til meinið tók sig upp á ný. Fyrir tæpum tveimur árum héldum við bekkjarsystkinin upp á fjörutíu ára útskriftarafmæli úr Kennaraskólanum og kom Sigga þá frá Svíþjóð þar sem fjölskyldan hefur verið búsett síðastliðin tuttugu ár. Hún var orðin mjög veik en sýndi mikið æðruleysi og styrk þó svo að hún yrði að fara á læknavaktina seinna um kvöldið.

Rétt fyrir jólin áttum við Þórleifur þess kost að heimsækja þau hjónin og eiga með þeim góðan tíma þó svo að skuggi veikindanna hvíldi yfir. Löngu og ströngu stríði æskuvinkonu minnar er lokið og kveð ég hana með þökk og hlýju. Við biðjum góðan Guð að hugga Hauk og fjölskylduna alla í þeirra miklu sorg.

Stefanía María Júlíusdóttir.