Stæði? Mikið álag er á bílastæðum í miðbænum og víða lagt ólöglega.
Stæði? Mikið álag er á bílastæðum í miðbænum og víða lagt ólöglega. — Morgunblaðið/Golli
Til stendur að hækka bílastæðagjöld í miðbænum um 100 krónur fyrir klukkutímann og lengja gjaldskyldan tíma.

Til stendur að hækka bílastæðagjöld í miðbænum um 100 krónur fyrir klukkutímann og lengja gjaldskyldan tíma.

Meirihluti umhverfis- og samgönguráðs samþykkti á fundi sínum í gær að beina því til borgarráðs að hækka gjald fyrir bílastæði í Kvosinni og á Laugavegi úr 150 í 250 krónur fyrir klukkutímann. Er þetta 66% hækkun. Jafnframt hefst gjaldskyldan klukkutíma fyrr á daginn, eða klukkan 9 í stað 10, og gjaldskyldu lýkur ekki fyrr en klukkan fjögur á laugardögum. Stöðumælagjaldið verður hækkað úr 80 í 150 krónur á gjaldsvæði tvö í miðborginni, eða um 87%, og einnig verður stöðumælagjald við háskólana og sjúkrahúsin hækkað. Gjald í bílastæðahúsum verður óbreytt.

Kristín Soffía Jónsdóttir, varaformaður umhverfis- og samgönguráðs, segir að breytingin sé gerð í þeim eina tilgangi að auka nýtingu bílastæða í miðborginni. Hún bendir á að bílastæðin séu ætluð fyrir viðskiptavini stofnana og fyrirtækja. Mælingar sýni hins vegar að bílastæðin í miðbænum séu meira og minna full allan daginn og viðskiptavinir eigi erfitt með að finna stæði. Á sama tíma séu laus stæði aðeins lengra frá og í bílastæðahúsunum. Gjaldinu sé ætlað að stýra notkun stæðanna þannig að þau nýtist betur.

Ansi brött hækkun

Fulltrúi VG í umhverfis- og skipulagsráði studdi tillögu meirihlutans en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá. Gísli Marteinn Baldursson segir að færa megi ýmis rök fyrir þessum breytingum en hækkunin sé ansi brött. Hana verði einnig að skoða í ljósi þess hversu mikið meirihlutinn hafi aukið álögur á borgarbúa. helgi@mbl.is