Gunnlaugur Aðalsteinn Jónsson fæddist á Möðrudal á Fjöllum 28. maí 1931. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 7. febrúar 2012.

Gunnlaugur var jarðsunginn frá Fossvogskirkju 15. febrúar 2012.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(S. Egilsson)

Elsku afi minn, með þessum orðum langar mig til að kveðja þig og þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig. Margar góðar stundir rifjast upp í huga mér sem við höfum átt saman. Oft fór ég með þér upp í hesthús og vorum við þar tímunum saman að sinna hestunum og hafa gaman. Ég var skírður eftir þér og var það við hæfi að það bar upp á sama dag og þú hélst upp á 60 ára afmælið þitt. Eins útskrifaðist ég sem stúdent 28. maí 2011 sem var 80 ára afmælisdagurinn þinn. Sá dagur var skemmtilegur og minnisstæður og gaman að þú gast tekið þátt í honum með mér, elsku afi minn. Stuttu seinna veiktist þú mikið og hefur verið veikur síðan. Þegar ég var lítill fannst mér gaman að fara að heimsækja þig í vinnuna en þá vannstu hjá Strætó og eins var gaman að sitja og hlusta á þig segja sögur um Búkollu og fleiri skemmtilegar sögur. Eins var gaman að fá að sitja hjá þér og spila á harmonikkuna.

Elsku afi minn, ég sakna þín mikið og mun aldrei gleyma þér.

Þinn dóttursonur,

Gunnlaugur.

Elsku afi minn, þakka þér fyrir allan þann stuðning sem þú gafst mér, alla hjálpina og allar sögurnar. Það er erfitt að sjá fyrir sér framtíðina án þín, Blástakks, Búkollu, Ásu, Signýjar og Helgu. Ég veit að seinustu ár hafa verið erfið en um leið veit ég að nú ertu á betri stað og við betri heilsu. Örugglega stiginn upp á Blakk og ríður í átt að sólsetrinu. Bíður okkar þar með heitt á könnunni og tvöfaldan spilastokk. Ég sakna þín en hafðu engar áhyggjur af ömmu því við munum gæta hennar. Ég mun sjá til þess. Að lokum skaltu vita að við munum þig um alla tíð og tíma og elskum þig meira en orð fá lýst.

Þín

Sigríður (Sigga litla).

Það gustaði vel um landið okkar, Ísland, kvöldið sem Gunnlaugur kvaddi þessa veröld. Þetta kvöld varð á vegi mínum lítið spjald með sálminum Láttu nú ljósið þitt, en Sigurbjörn Einarsson biskup orti viðbót við sálminn:

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Eins láttu ljósið þitt

lýsa í hjarta mitt,

skína í sál og sinni,

sjálfur vaktu þar inni.

Lát húmið milt og hljótt

hlúa að mér í nótt

og mig að nýju minna

á mildi arma þinna.

Ég fel minn allan hag

einum þér nótt og dag,

ljósið af ljósi þínu

lifi í hjarta mínu.

(Sigurbjörn Einarsson)

Gulli, eins og hann var alla tíð kallaður, var vinur minn rétt eins og Sigga konan hans, ég var ávallt velkomin á þeirra heimili, hlaut alltaf konunglegar og hlýjar móttökur hjá þeim hjónum. Aðrir munu rekja lífshlaup Gunnlaugs, en síðustu mánuði höfum við Gulli verið nágrannar, gantaðist hann oft með það að undirrituð væri nú ekkert of góð að hoppa inn þar sem ég keyrði nánast um bæjarhlaðið á leið minni að heiman. Það var nefnilega það sem skipti hann máli, að hafa sína hjá sér og það var auðsótt mál að Sigga sæti við hlið mannsins síns dag hvern eftir að heilsu hans fór að hraka og þurfti að dvelja í Sóltúni. Gulli sá við okkur báðum dag einn er ég mætti á svæðið skömmu eftir að hann átti þetta sérstaka heimili og bauð mér í kjöt í karrý, eftir matinn myndum við aka saman heim og ég skila honum í hús númer 2 og halda síðan mína leið, hann tilkynnti Siggu að þau ættu von á gesti í mat. Þetta var ekki alveg eins og hann skipulagði í það sinnið en við reyndar fórum við stöku sinnum saman þessa leið eftir að hafa gætt okkur á krásum úr pottunum hjá Siggu.

En eina ferð fórum við þrjú á liðnu ári í Selvoginn í Strandakirkju. Ferðin var rækilega greypt í minni Gunnlaugs því þessari ferð gleymdi hann ekki og var sjálfur búinn að plana aðra samskonar ferð eins fljótt og mögulega gæti orðið. Það var undursamlegt veður, fagurblár himinn sem líktist helst málverki, birtan svo sérstök og rokið þá stundina var kyrralogn. Sýn hans og upplifun var þess eðlis að ég vil trúa því að á þennan hátt hafi heimkoma Gulla í handanheiminn verið þar sem aðrir ástvinir sem á undan eru gengnir hafi umvafið hann hinu eilífa ljósi almættisins. Ég mun sakna vinar í stað.

Blessuð sé minning Gunnlaugs Jónssonar.

Jóhanna B. Magnúsdóttir.