Öll erum við vitsmunaverur sem tökum sjálfstæðar ákvarðanir eftir eigin dómgreind. Eða því viljum við gjarnan trúa.

Öll erum við vitsmunaverur sem tökum sjálfstæðar ákvarðanir eftir eigin dómgreind. Eða því viljum við gjarnan trúa. En jafnvel þótt okkur finnist við sjálf vera meðvituð og gagnrýnin í hugsun er staðreyndin sú að við höfum takmarkaðan aðgang að eigin huga og þannig geta ytri aðstæður stundum stýrt því hvernig við högum okkur ómeðvitað. Sálfræðingurinn Daniel Kahneman segir í bók sinni Thinking, Fast and Slow frá rannsóknum á mannlegri hugsun og atferli sem grafa svolítið undan ímynd okkar sem sjálfstæðar vistmunaverur. Stundum er sagt: „Brostu! Þá líður þér betur.“ Slíkir Pollýönnuleikir eru ekki alvitlausir. Í tilraun einni voru tveir hópar háskólanema látnir lesa teiknimyndasögur Garys Larsons, The Far Side .

Annar hópurinn var látinn halda blýanti þvert milli tannanna á meðan, þannig að munnvikin spenntust upp í „bros“. Hinn hópurinn hélt blýanti milli varanna þannig að munnsvipurinn varð stúrinn. Niðurstaðan var sú að hópnum með gervibrosið fannst sögurnar skemmtilegri en þeim sem skoðuðu þær með stút á munni. Í annarri tilraun voru þátttakendur látnir hlusta á upplestur leiðara úr dagblaði, undir því yfirskini að verið væri að kanna hljómgæði heyrnartólanna. Annar hópurinn var látinn kinka kolli á meðan hann hlustaði, en hinn látinn hrista höfuðið. Eftir á voru þeir fyrrnefndu líklegri til að segjast sammála leiðaranum, en þeir síðarnefndu voru frekar ósammála. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á því sem kallað er ýfingaráhrif, þegar eitthvað sem við upplifum hefur ómeðvituð áhrif á hegðun okkar strax á eftir. (Það er t.d. gild ástæða fyrir því að kosningaáróður er bannaður við kjörstaði á kjördag.) Í einni slíkri rannsókn voru áhrif hugsana um peninga könnuð. Þátttakendur voru óbeint minntir á peninga, í orðum eða myndrænt, og í kjölfarið látnir takast á við óvæntar aðstæður. Í ljós kom að ómeðvituð hugrenningatengsl við peninga virtust vekja með þátttakendum meiri einstaklingshyggju. Þeir urðu sjálfstæðari í hugsun en samanburðarhópurinn, en jafnframt eigingjarnari. Peningahópurinn bað síður um hjálp við að leysa erfitt verkefni strax á eftir og var líka mun síður tilbúinn að eyða tíma í að hjálpa ókunnugum manni að tína upp hluti sem hann missti. Í sambærilegri tilraun var þátttakendum sagt að þeir ættu að spjalla við ókunnuga manneskju og þeir beðnir að stilla upp tveimur stólum meðan hún var sótt. Þeir sem minntir voru á peninga stuttu áður stilltu stólunum upp með að jafnaði 38 cm meira millibili en hinir sem höfðu engin ómeðvituð hugrenningatengsl við peninga. Þetta er umhugsunarvert. Getur verið að menning sem minnir okkur stöðugt á peninga hafi ómeðvituð áhrif á framkomu okkar hvert við annað? Í öllu falli er gott að vera meðvituð um að við höfum kannski ekki jafnfullkomin tök á eigin huga og við viljum trúa. una@mbl.is

Una Sighvatsdóttir

Höf.: Una Sighvatsdóttir