Kjartan Jón Hjartarson vélstjóri fæddist á Hvanneyri í Borgarfirði 28. febrúar 1933. Hann andaðist á Hrafnistu í Hafnarfirði 30. janúar 2012. Foreldrar hans voru hjónin Hjörtur Jónsson kennari og ráðsmaður og Guðný Margrét Runólfsdóttir húsfreyja. Börn þeirra hjóna voru fjögur og var Kjartan þeirra elstur, en systkini hans eru þau Geir, f. 1936, Ingólfur Þórir, f. 1939 og Kristín Guðrún, f. 1943.

Kjartan kvæntist Sigríði Svanlaugu Heiðberg, f. 30.3. 1938, d. 22.2. 2011, þau skildu. Með seinni eiginkonu sinni Ásdísi Finnsdóttur, f. 22.8. 1957, þau slitu samvistum, eignaðist hann þrjá vel gerða syni. Jóhannes Andri, f. 5.2. 1979, er þeirra elstur, kona hans er Ragnheiður Björgvinsdóttir og synir þeirra þeir Atli Þór og Axel Óli. Næstur er Guðbjörn Ívar, f. 11.1. 1980, kona hans er Allyah og börn þeirra eru þau Gabríel Jusef og Ísabella. Ágúst Ingi er yngstur, f. 19.5. 1989, unnusta hans er Freydís Halla Friðriksdóttir.

Kjartan lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar og tók síðan stefnu á iðnnám. Hann hafði mikinn áhuga á allri véltækni og vélsmíði og lagði því stund á vélvirkjanám hjá vélsmiðjunni Hamri hf. Próf tók hann frá Iðnskólanum í Reykjavík, vélstjórnarpróf frá Vélskóla Íslands í Reykjavík og einnig próf frá rafmagnsdeild sama skóla. Eftir nám starfaði Kjartan í landi og síðar til sjós við fag sitt.

Útför Kjartans fór fram í kyrrþey frá Hafnarfjarðarkapellu 9. febrúar 2012.

Kjartan var oft langtímum saman að heiman vegna starfs síns. Þegar hann var í landi sinnti hann hugðarefnum sínum af áhuga og mikilli ástundunarsemi. Hann var alla tíð áhugamaður um vélar og vélsmíði og gat dundað sér tímunum saman utan heimilisins. Hann var listasmiður á járn og vélar. Þá höfðaði ljósmyndun einnig til hans og var hann duglegur að taka myndir og íhuga myndavélatæknina.

Kjartan var afar hlédrægur maður. Hann hafði ekki mörg orð um hlutina heldur kaus að láta verkin tala. Hann átti ekki marga vini, en þeir sem hann eignaðist voru traustir. Sumarið 1999 fékk hann heilablóðfall með alvarlegum afleiðingum. Missti þar með mál og mátt í hægri hluta líkamans. Hann náði sér aldrei eftir áfallið og fluttist á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hann dvaldist uns hann lést.

Starfsfólki Hrafnistu er þakkað fyrir velvild og einstaka umönnun. Guð blessi minningu Kjartans.

Systkinin,

Geir, Ingólfur Þórir og Kristín Guðrún.