Valgeir Sigurðsson
Valgeir Sigurðsson
Eftir Valgeir Sigurðsson: "Er mönnum ekki sjálfrátt? Hún lifði í sæmd í 27 ár eftir þetta og dó vorið 1968, á 96. aldursári."

Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur hefur skrifað ævisögu Gunnars Gunnarssonar rithöfundar. Það er vel, og þess var þörf. Ég ætla ekki að segja hér eitt orð um bókmenntalega hlið þessa verks, hún er ekki til umræðu hér. Ég tel víst að höfundurinn hafi unnið það verk samvizkusamlega. En í kaflanum um Heiðaharm og slysið á Þorbrandsstöðum vorið 1910 hefur komizt inn svo ótrúleg vitleysa, að ekki verður hjá því komizt að leiðrétta hana opinberlega. Á bls. 381 stendur:

„Í Vopnafirði lifðu lengi sögur um að Bergljótu hefði orðið svo mikið um útkomu Heiðaharms að hún hefði sturlast um tíma...“

„En sagan um sturlun Bergljótar á Fossi er gott dæmi um fjöður sem verður að hænsnahóp. Gunnar sendi Bergljótu söguna áritaða og henni varð ekki meint af,“ segir Jón Yngvi. „„Það sem gerðist var, að hún fékk dýrasmit í höndina og hún fékk háan hita og komst alveg í dauðann,“ sagði sonur hennar Sveini Skorra Höskuldssyni“.

Ja, hérna. Mig setur hljóðan. Þarna er öllu öfugt snúið og ekki eitt orð satt né rétt með farið og eru áhöld um hvor óvandvirkari er, Sveinn Skorri eða Jón Yngvi. Báðum hefði verið í lófa lagið að komast að hinu sanna um sturlun Bergljótar. Trúir nokkur maður því að samferðamenn hennar hefðu farið að ljúga þessu upp í opið geðið á henni? Er mönnum ekki sjálfrátt? Hún lifði í sæmd í 27 ár eftir þetta og dó vorið 1968, á 96. aldursári.

Ég veit að ég þarf ekki að fræða sveitunga mína um það sem hér fer á eftir, en við Jón Yngva Jóhannsson vil ég segja þetta:

Faðir minn, Sigurður Þorsteinsson, sem bjó í Fremri-Hlíð í Vopnafirði í 32 ár, var alinn upp á Fossi frá eins árs aldri og átti þar heima fram yfir tvítugt. Lang-nánast var á milli hans og Aðalbjargar fóstru hans, og einnig milli hans og Bergljótar, svo segja mátti að hún væri hans önnur fóstra, enda ellefu árum eldri en hann.

Aldrei gleymi ég þeim degi vorið 1941 – ég var þá fjórtán ára – þegar Stefán á Fossi (einmitt hann!) kom ríðandi norður í Fremri-Hlíð, kallaði pabba á eintal og spurði hvort hann gæti komið upp í Foss og hjálpað til að flytja mömmu sína á spítala, hún væri búin að vera alveg sturluð heima og þetta gæti ekki gengið svona lengur. Jú, auðvitað. Það var sjálfsagt. Þegar í Foss kom sá pabbi strax að fóstursystir hans var mjög mikið veik. Hún talaði í sífellu um börnin sín sem drukknuðu og sagði: Þau voru þrjú en ekki tvö. Af hverju gat hann ekki haft það rétt, fyrst hann fór að minnast á það? Ástæðan fyrir sturluninni leyndi sér ekki, hvorki þá né síðar.

Nú þarf ekki að segja það neinum, að margir samtíðarmenn Bergljótar á Fossi vildu að sögur væru „sannar“, eða a.m.k. „sennilegar“. Þeir gerðu ekki alltaf skýran mun á skáldskap og veruleika. Skáldin máttu ekki „afbaka“, sízt jafn alvarlegan hlut sem dauða manns eigin barna. Og Bergljót las og las, varð andvaka, missti alveg svefn og sturlaðist um síðir.

Hún var flutt á sjúkraskýli héraðsins í kaupstaðnum. Það hét Garður. Sjálfur heimsótti ég hana á spítalann, eftir að henni var tekið að batna, og ég get bent á fólk í Vopnafirði, Reykjavík og á Akureyri, sem getur staðfest frásögn mína. Og svo kynni ég nú einnig að þekkja líf konunnar sem var í senn fóstursystir og fóstra föður míns, lifði þangað til ég var rúmlega fertugur, og alltaf mikið samband á milli heimilanna.

Veikindi Bergljótar á Fossi vorið 1941 voru aldrei neitt sveitarslúður. En hvernig kemst öll hin vitleysan í gang? Og „dýrasmitið“. Jú, hún fékk einu sinni blóðeitrun í handlegg (ekki hönd). En það var nokkrum áratugum fyrr!

Í sambandi við slysið á Þorbrandsstöðum veit ég ýmislegt sem aldrei hefur verið sagt frá opinberlega. Allar þær heimildir eru frá föður mínum og sumt skrifaði ég upp eftir honum og geymi það hér hjá mér.

Jóni Yngva Jóhannssyni er vorkunn þótt hann treysti handritsdrögum Sveins Skorra. (Þótt maður eigi reyndar alltaf að kanna gildi heimilda). Hitt er með öllu óskiljanlegt hvers vegna slíkum manni sem Skorra varð á sú reginskyssa að spyrja ekki um trúverðugleik heimildarmanns síns, heldur láta fylla sig af fjarstæðum. Hafi hann aflað þessara „upplýsinga“ sumarið 1975, sem eflaust er rétt, hefði honum verið auðvelt að athuga þetta nánar, því þá var enn á lífi margt fólk í Vopnafirði sem lifði þessa atburði og mundi þá. Menn gleymdu ekki harmi og veikindum Bergljótar.

Hitt er alvarlegri spurning, hvað í ósköpunum gat komið Stefáni frá

Fossi til að segja þetta – sem hann sjálfur vissi manna bezt að var þveröfugt við allar staðreyndir. Og að allir aðrir vissu sannleikann.

Og hinn ungi bókmenntafræðingur hefði gjarna mátt vanda sig betur. Hann hefði t.d. getað hringt í mig! og þannig sparað sér háðsglósurnar um fjöðrina og hænsnahópinn, því að þær eiga ekki heima þarna. Aftur á móti höfum við hér fyrirtaks dæmi um það, hversu langt má komast frá hinu rétta með nógu óvandlegum vinnubrögðum.

Höfundur er fyrrverandi blaðamaður.

Höf.: Valgeir Sigurðsson