Einar K. Guðfinnsson
Einar K. Guðfinnsson
Eftir Einar K. Guðfinnsson: "Það er orðið algjörlega augljóst mál að veigamikil mistök voru því gerð við stofnun nýju bankanna."

Fullyrt er að bankarnir hafi fullnýtt það svigrúm – og vel það – sem þeir fengu til afskrifta á skuldum heimilanna. Þetta er niðurstaðan þegar skoðaðar eru tölur um þær eignir sem nýju bankarnir, Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki, fengu við stofnun og þær skuldir sem fylgdu með. Við stofnun bankanna var gert ráð fyrir tilteknu svigrúmi til afskrifta. Ljóst var að ýmsar skuldir yrðu ekki innheimtanlegar. Þetta var því sjálfsagt sjónarmið við aðstæður eins og þær sem voru og eru í okkar samfélagi.

Auðvitað fylgir mikil óvissa um mat á slíkum skuldum og eignum. Tekið var tillit til þess að nokkru við uppbyggingu nýju bankanna, en nú er hins vegar orðið morgunljóst að þar var ekki gengið fram af nægjanlegri varfærni. Með gengislánadómunum blasir við að virði tiltekinna stórra eignasafna var miklu minna en talið var. Það hefur fyrir vikið skert mjög svigrúm bankanna til þess að takast á við aðrar skuldir heimila og fyrirtækja. Fyrir vikið hafa skuldalækkanir heimilanna í landinu einvörðungu að litlu leyti orðið á grundvelli aðgerða stjórnvalda. Langstærsti hluti þeirra skulda, sem hafa á annað borð verið afskrifaðar, var ólöglegur. Þar var því ekki um að ræða eiginlegar aðgerðir í þágu skuldugra heimila, sem stjórnvöld höfðu atbeina að. Fjármálastofnanir voru einfaldlega dæmdar til þess að bregðast við. Lánin sem áttu að koma til innheimtu voru ólögleg og verðminni en áður var talið.

Afskriftirnar að mestu vegna ólöglegra lána

Skoðum tölurnar: Alls hafa verið afskrifaðir um 196 milljarðar króna af skuldum heimilanna í landinu. Þar af vegna hinnar svo kölluðu 110% leiðar um 44 milljarðar og vegna sérstækrar skuldaaðlögunar um 6 milljarðar. Alls um 50 milljarðar. Þetta er hinar svo kölluðu aðgerðir stjórnvalda; skjaldborgin fræga. Sem sagt um fjórðungur, 25 prósent, af heildarafskriftinni. Þrjár af hverjum krónum, 75 prósent, sem hafa verið afskrifaðar af heimilunum, stafa af því að lánin sem voru tekin reyndust ólögleg. Menn máttu sem sagt ekki innheimta þá upphæð sem hafði staðið á inniheimtuseðlunum.

Til að allrar sanngirni sé gætt, skal þó á það minnt að ef ekki hefði komið til gengislánadómanna má gera ráð fyrir að hluti gengistryggðu lánanna hefði afskrifast í gegnum skuldaaðlögun og 110% leið.

Svigrúm bankanna einkanlega nýtt í gengistryggðu lánin

Það er þá orðið ljóst að svigrúmið sem bankarnir fengu við stofnun hefur farið að mestu leyti til þess að standa straum af skuldaniðurfærslu á lánum sem voru og eru ólögleg. Lánin voru sem sagt ekki jafn verðmæt og ætlað var við stofnun bankanna. Augljóst má telja að þessi gengistryggðu lán hafi verið hluti af því „eitraða“ lánasafni sem flutt hafi verið á milli gömlu og nýju bankanna og virði þeirra því ekki bókfært að fullu.

En það breytir því ekki að kostnaðurinn sem fjármálastofnanirnar hafa borið af niðurfærslu lána heimila var að langstærstu leyti vegna lána sem voru hreinlega ólögleg. Þeir fjármunir sem bankastofnanirnar voru neyddar til þess að nýta til þess að standa straum af þessum lánalækkunum til almennings verða ekki notaðir aftur. Þeim hefur þegar verið varið og komið misskuldugum heimilum til góða; en bara sumum, bara þeim sem voru með ólöglegu lánin. Þessar afskriftir fóru fram án tillits til getu fólks til þess að standa undir lánunum. Þessir fjármunir verða ekki nýttir til þess sem nú er svo mjög kallað eftir; að gerðar séu öflugri ráðstafanir til aðstoðar heimilunum í landinu.

Góð ráð dýr

Þá eru góðu ráðin hins vegar orðin dýr. Frekari skuldalækkanir verða ekki gerðar nema með því að skerða hag fjármálastofnananna, sem nú eru orðnar í eigu erlendra vogunarsjóða og sem taka slíku örugglega ekki fagnandi.

Það er orðið algjörlega augljóst mál að veigamikil mistök voru því gerð við stofnun nýju bankanna. Í ljósi þeirrar óvissu sem ríkti um verðmæti eigna þeirra hefði verið eðlilegt að settir hefðu verið fram skýrir almennir fyrirvarar um raunverulegt verðmæti eignasafnanna. Þar hefði til dæmis verið hægt að vísa til óvissu sem væri til staðar um lögmæti hluta eignasafnsins, svo sem gengistryggðu lánanna. Þar með hefði væntanlega verið hægt að tryggja að kostnaðurinn við gengistryggðu lánin hefði verið eyrnamerktur sérstaklega og kröfuhafarnir orðið að bera áhættuna, eins og eðlilegt hefði verið. Eignasöfnin voru jú sem þessu nam verðminni en þau hefðu orðið ef lánin hefðu reynst lögmæt.

Klúðrað – eins og Icesave

En það var ekki við góðu að búast. Þetta er jú sama fólkið, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, sem gerði Ice-save-amningana árið 2009 og allir þekkja. Þeir hefðu kostað okkur mörg hundruð milljarða, en var afstýrt. Þess vegna er það auðvitað ofrausn að gera þær kröfur til núverandi stjórnvalda að þau hafi gengið almennilega frá málum þegar íslenska bankakerfið var endurreist. Þau klúðruðu þessu eins og svo mörgu öðru.

Höfundur er alþingismaður.