Fögnuður Úrúgvæinn Edinson Cavani fagnar marki sínu gegn Chelsea á Naples San Paolo vellinum í Napoli í gærkvöld.
Fögnuður Úrúgvæinn Edinson Cavani fagnar marki sínu gegn Chelsea á Naples San Paolo vellinum í Napoli í gærkvöld. — AP
Chelsea hefur svo sannarlega verk að vinna ætli liðið að komast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í fótbolta. Chelsea tapaði fyrir Napoli, 3:1, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitunum í gærkvöld í stórskemmtilegum og opnum leik.

Chelsea hefur svo sannarlega verk að vinna ætli liðið að komast í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í fótbolta. Chelsea tapaði fyrir Napoli, 3:1, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitunum í gærkvöld í stórskemmtilegum og opnum leik. Spánverjinn Juan Mata kom Lundúnaliðinu yfir og það mark gæti reynst ansi dýrmætt en frábært lið Napoli svaraði með þremur mörkum þar sem Ezequiel Lavezzi skoraði tvö markanna og Edinson Cavani eitt.

„Napoli er mjög sterkt á heimavelli sínum en við munum leggja allt í sölurnar á Brúnni. Ég vissi að þetta yrði opinn leikur því Napoli er sóknarlið. Ég hef fulla trú á okkar liði. Þetta verður erfitt en við verðum að skora snemma og ef það tekst er ég bjartsýnn á að við förum áfram,“ sagði Juan Mata eftir leikinn.

Mark í fyrsta leiknum

Svíinn Pontus Wernbloom tryggði CSKA Moskva jafntefli gegn níföldum Evrópumeisturum Real Madrid á gervigrasinu í frostinu í Moskvu. Wernbloom, sem lék sinn fyrsta leik með rússneska liðinu, jafnaði þegar hálf mínúta var eftir af uppbótartíma. Hver annar en Cristiano Ronaldo skoraði mark Real Madrid en hann kom sínum mönnum yfir á 28. mínútu með sínu 35. marki á tímabilinu.

„Við auðvitað köstuðum frá okkur sigrinum en engu að síður eru þetta góð úrslit á útivelli. Í seinni leiknum höfum við engan annan kost en að vinna en CSKA er erfiður mótherji. Aðstæður, bæði veður og völlur, verða miklu betri í seinni leiknum en engu að síður býst ég við erfiðum leik,“ sagði José Mourinho, þjálfari Real Madrid, eftir leikinn.

gummih@mbl.is