Rokkarar Hljómsveitarmeðlimir Dimmu lifa og hrærast í rokktónlistinni.
Rokkarar Hljómsveitarmeðlimir Dimmu lifa og hrærast í rokktónlistinni.
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Rokkhljómsveitin Dimma verður á ferðinni um helgina en hljómsveitin fer ásamt hljómsveitinni Sólstöfum á tónleikaferð um landið og hefur hún fengið nafnbótina „Þungur kross á svörtum söndum“ sem er skírskotun í nýja lag Dimmur „Þungur kross“ og nýju plötu Sólstafa sem heitir „Svartir sandar“. Birgir Jónsson, meðlimur Dimmu, segir ferðina vera nokkurs konar útgáfutónleika sveitanna vegna nýju plötu Sólstafa og smáskífu Dimmu sem kom út fyrir jól.

„Smáskífan sem við gáfum út fyrir jól hefur að geyma nýja lagið okkar Þungur kross og fjögur lög sem við tókum upp af tónleikum ásamt lagi af plötunni Killer eftir Alice Cooper band en hún varð 40 ára á síðasta ári. Við fengum bassaleikara Alice Cooper band til að spila með okkur sem var mikill heiður enda er þetta hljómsveit sem var mjög fræg á sínum tíma og er komin í Rock and Roll Hall of Fame,“ segir Birgir en smáskífan er að hans sögn einungis forsmekkurinn af því sem koma skal á nýrri plötu hljómsveitarinnar sem kemur út í vor. „Það verður fyrsta platan okkar sem verður á íslensku og lagið Þungur kross er fyrsta íslenska lagið okkar.“

Tónleikaferð hljómsveitanna um helgina kemur við á þremur stöðum að sögn Birgis og verður fyrsta stoppið á Hvanneyri á fimmtudaginn og síðan spilar hljómsveitirnar á Græna hattinum á Akureyri á föstudaginn og enda svo túrinn á laugardaginn á Valaskjálf á Egilsstöðum.

Innrásin, útrásin og metnaðurinn

Það er ekkert til sparað fyrir tónleikaferðina um landsbyggðina og segir Birgir það markmið í sjálfum sér að vanda til verks og slá ekkert af metnaðinum. „Við viljum gera þetta vel og skemmta fólki um leið og breiðum út tónlistina. Tónleikaferð eins og þessi verður ekki farin nema vandað sé til verks og það kostar sitt en við sættum okkur við að koma út á sléttu.“ Að sögn Birgis er ávallt góð stemning á tónleikum þeirra enda spili hljómsveitirnar skemmtilegt partírokk á tónleikum.

Í nóvember fór Dimma til Rússlands og spilaði á tónlistarhátíð í St. Pétursborg. „Það er áhugaverð upplifun og gaman að sjá hvað það er mikill áhugi á rokkinu í austurblokkinni og við stefnum á að fara út aftur og spila fyrir aðdáendur úti.“ Spurður um útrásina segir Birgir að innrásin á landsbyggðina sé í forgangi núna en útrásin komi seinna.