Leiddur í réttinn Marcin Tomasz Lech kemur í réttarsal Héraðsdóms Reykjavíkur í fylgd lögreglumanna. Krafist er fimm ára fangelsis yfir honum.
Leiddur í réttinn Marcin Tomasz Lech kemur í réttarsal Héraðsdóms Reykjavíkur í fylgd lögreglumanna. Krafist er fimm ára fangelsis yfir honum. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andri Karl andri@mbl.is Farið var fram á það við aðalmeðferð í gær að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Marcin Tomasz Lech, einn þeirra sem tóku þátt í ráninu í Michelsen úrsmiðum 17. október sl., í fimm ára fangelsi.

Baksvið

Andri Karl

andri@mbl.is

Farið var fram á það við aðalmeðferð í gær að Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Marcin Tomasz Lech, einn þeirra sem tóku þátt í ráninu í Michelsen úrsmiðum 17. október sl., í fimm ára fangelsi.

Verjandi Lechs sagði hins vegar að tveggja ára fangelsi væri hæfileg refsing fyrir brot hans. Hefði Lech tekið verkið að sér vegna langvarandi atvinnuleysis og peningaskorts. Hann hefði ekki vitað nákvæmlega hvað stóð til, annað en að hann ætti að flytja úr landi og til Póllands illa fenginn varning.

Lech sagði sögu sína í réttarsalnum í gær. Hún hófst klukkan tíu að föstudagskvöldi 7. október sl. en þá óku fjórir pólskir menn frá heimabæ sínum og í átt að Kaupmannahöfn. Þangað voru þeir komnir um klukkan sex morguninn eftir.

Lech skildi mennina eftir á hóteli en hélt sjálfur áfram ferð sinni, því hann átti miða í Norrænu til Seyðisfjarðar. Frá Seyðisfirði ók hann til Reykjavíkur. Hinir áttu flugfar til Reykjavíkur síðar á laugardeginum en hópurinn hittist síðan á hóteli í Síðumúla aðfaranótt fimmtudagsins 13. október.

Planið breyttist

„Þetta átti að vera innbrot, hinir höfðu ákveðið að brjótast inn að nóttu til. Planið breyttist svo hjá þeim. Af einhverri ástæðu gátu þeir ekki brotist inn að nóttu til en ákváðu þá frekar að fremja rán að degi til,“ sagði Lech.

Hann lýsti því að á mánudeginum 17. október hefði hann sótt hina mennina þrjá á hótel þeirra um klukkan níu um morguninn. Hann ók niður í miðbæ og lagði bíl sínum hjá kirkju. Hann gat ekki nefnt kirkjuna en sagði hana stóra og í miðbænum.

Lech sagðist hafa skilið mennina þrjá eftir þar en sjálfur farið aftur á hótelið sitt. „Milli hálfellefu og ellefu fékk ég símtal. Ég fór út fyrir hótelið og þeir komu þarna þrír en aðeins einn fer með mér inn á herbergi. Hann bað mig að koma með salernispappír og límband og byrja að pakka inn úrunum.“

Úrapakkana földu þeir vandlega í bílnum sem Lech kom á til landsins. Hinir þrír flugu síðan úr landi daginn eftir.

Handtekinn en sleppt strax

„Daginn eftir, það var þriðjudagur eða miðvikudagur, kom lögreglan til mín. Þeir spurðu mig spurninga, svo vildu þeir fá að leita í bílnum. Þeir fóru með mig niður á höfn og gegnumlýstu bílinn, en slepptu mér svo lausum. Ég fór aftur á hótelið og hafði samband við strákana. Ég sagði þeim hvað gerðist en þeir sögðu mér að vera rólegur, ef lögreglan ætlaði að handtaka mig hefði hún gert það strax. Ég ætti bara að vera rólegur og bíða. Mig langaði að losa mig við úrin og ég hafði á tilfinningunni að verið væri að fylgjast með mér.“

Eftir þetta fór hann að keyra um bæinn til að athuga hvort verið væri að fylgjast með sér. Hann hafði aftur samband við samverkamenn sína sem sögðu honum enn að vera rólegur. „Ég beið í viku, til næsta miðvikudags, en þá kom sérsveitin og handtók mig á hótelinu.“

Laug að fjölskyldunni

Lech sagði að sér hefði ekki litist á blikuna þegar áætlunin breyttist úr því að vera innbrot í rán og að hann skammaðist sín.

„Ég laug að allri fjölskyldu minni, sagðist vera að fara til Svíþjóðar að leita að vinnu. Kærastan mín vissi þetta aðeins rétt fyrir handtöku. Þetta var ekki það sem ég ætlaði mér að gera.“

MIKIÐ ÖRYGGISLEYSI Í KJÖLFAR ÚRARÁNSINS

Starfsfólkið óttaðist um líf sitt

Meðal þeirra sem komu fyrir dómara við aðalmeðferð vegna úraránsins í Michelsen úrsmiðum voru eigandi og starfsfólk verslunarinnar. Þau lýstu því öll að ránið hefði haft mikið áhrif á þau. Þá óttuðust þau um líf sitt á meðan ráninu stóð.

Sigrún Ragnarsdóttir, starfsmaður verslunarinnar, sagði að sér hefði liðið hræðilega meðan á ráninu stóð. Hún hefði heyrt háan hvell. „Ég hugsaði með mér hvort væri búið að skjóta Frank (Michelsen úrsmið) og hvort við værum næst.“

Hún sagði eins og aðrir starfsmenn að tortryggni hefði aukist. „Þegar einhver kemur inn, ég tala nú ekki um þegar það eru ungir menn sem tala ekki íslensku, þá fer maður strax í viðbragðsstöðu. Síðast gerðist það í gær,“ sagði hún.