Örn Gunnlaugsson
Örn Gunnlaugsson
Eftir Örn Gunnlaugsson: "Er ekki orðið tímabært að vinda ofan af þessu dagpeningasukki og krefja menn um nótur með skattframtalinu?"

Fyrir nokkru sá Ögmundur Jónasson sig knúinn til að biðjast afsökunar á orðum sínum í pontu Alþingis en þar talaði hann um að embættismenn hefðu í ferðum sínum til Brussel ánetjast kerfinu sem færði þeim dagpeninga sem þeir fengju á ferðalögum. Ekki veit ég hvað fékk Ögmund til að biðjast afsökunar því þessi orð hans voru fullkomlega réttmæt. Svo mikil læti voru vegna þessara orða Ögmundar að Félag háskólamenntaðra dagpeningafíkla Stjórnarráðsins var með ályktun um orð hans tilbúna þar sem átti að mótmæla. En skoðum nú málið aðeins. Fjöldi embættismanna og annarra starfsmanna stjórnsýslunnar er á sífelldum tilgangslausum ferðalögum og fær greidda skattsvikna dagpeninga á þessum ferðum sínum. Við skulum ekki gleyma því að í dag býður tæknin upp á að fundir sem þessir geta farið fram gegnum fjarfundabúnað fyrir utan það að í flestum tilfellum kemur ekkert gagnlegt út úr þessu ferðabrölti. En hvað eru dagpeningar? Jú, þeim er ætlað að standa straum af þeim kostnaði sem launamaður verður fyrir vegna tilfallandi ferða sinna á vegum vinnuveitanda utan venjulegs vinnustaðar (hvar er venjulegur vinnustaður ef viðkomandi „vinnur“ við að flækjast milli landa?). Dagpeninga skal svo færa sem tekjur á skattframtali.

Á móti fengnum dagpeningum mega þeir sem fá greidda dagpeninga hins vegar færa til frádráttar á móti fengnum tekjum að hámarki upphæð sem ríkisskattstjóri vísar til í leiðbeiningum sínum. Það þýðir þó ekki að færa eigi hámarksupphæðina til frádráttar eins og tíðkast hefur um áraraðir. Að sjálfsögðu eiga menn aðeins að færa til frádráttar þá upphæð sem þeir hafa varið til greiðslu ferðakostnaðar og greiða a.m.k. skatt af því sem þeir halda eftir. En í raun ættu þessir aðilar að skila því sem umfram er og ekki er varið til greiðslu ferðakostnaðar.

En skattayfirvöld hafa engan áhuga á að taka á þessum málum vegna þess að embættismenn þar hafa mestan hag af óbreyttu kerfi. Ríkisskattstjóri er með her fólks í vinnu við að fara yfir nótur einstaklinga vegna endurgreiðslu vsk vegna viðhalds á íbúðarhúsnæði. Væri ekki nær að nýta þennan mannafla til að kalla eftir gögnum varðandi fengna dagpeninga og færa réttar tölur til frádráttar? Væri kannski rétt að launaskrifstofa ríkisins kallaði eftir þessum gögnum hjá sínum starfsmönnum þannig að ríkið væri réttilega að greiða eingöngu það sem því ber? Þarna liggja svörtu peningar þeirra sem njóta dagpeninga og þarna er eftir talsverðu að slægjast fyrir ríkið og þá bæði launaskrifstofuna og skattinn.

Talsvert meiru er eftir að slægjast hjá skattyfirvöldum vegna þess að þetta er einnig misnotað skattalega í einkageiranum. Getur t.d. einhver gefið haldbæra skýringu á hvaða ferðakostnað flugfélag endurgreiðir flugliða sem fer með flugfari að morgni og kemur til baka sama dag án þess að bera nokkurn ferðakostnað? – Þessir aðilar fá samt greidda skattsvikna dagpeninga. Þetta sama fólk sem nýtur þessara svörtu tekna hneykslast yfirleitt mest á iðnaðarmanninum sem fær greitt fyrir einhverja klukkutíma nótulaust og yfirleitt er slík greiðsla að kröfu verkkaupans enda er það hann sem nýtur þess að vsk er stolið undan en ekki iðnaðarmaðurinn.

Er ekki orðið tímabært að vinda ofan af þessu dagpeningasukki og krefja menn um nótur með skattframtalinu? Hvernig ætli utanríkisráðherrann okkar færi þessar greiðslur á sínu framtali?

Höfundur er launamaður í einkageiranum.

Höf.: Örn Gunnlaugsson