Ingibjörg Halldórsdóttir fæddist í Hólshjáleigu í Hjaltastaðarþinghá 24. desember 1921. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 5. febrúar 2012.

Foreldar hennar voru hjónin Sigurbjörg Þorláksdóttir og Halldór Gíslason, ábúendur í Hólshjáleigu. Ingibjörg var yngst í sínum systkinahópi en systkini hennar voru Guðmundur, Vilborg, Björg, Sigvarður og Geir sem öll eru látin.

Eiginmaður Ingibjargar var Gunnþór Þorsteinsson frá Húsavík í Borgarfirði eystra, f. 3. júní 1911, d. 4. apríl 2006. Þau eignuðust soninn Sigurbjörn, f. 29. janúar 1955, sem lést af slysförum 25. ágúst 1974.

Ingibjörg og og Gunnþór bjuggu á Akureyri nær alla sína búskapartíð, lengst af í einbýlishúsi sem þau reistu sér að Kambsmýri 6. Ingibjörg starfaði lengst af í Sambandsverksmiðjunum á Akureyri.

Útför Ingibjargar fór fram í kyrrþey 15. febrúar 2012.

Imba mín, ég ætla ekki að fara að skrifa um þig langa minningargrein enda yrðir þú sjálfsagt ekki hrifin af því þó að margs sé að minnast frá liðinni tíð. Mér verður sérstaklega hugsað til æskuáranna okkar heima í Hólshjáleigu. Við vorum báðar hestkærar og áttum sinn hestinn hvor. Þú Bleik og ég Fák. Oft var nú sprett úr spori á þeim, enda reiðvegir góðir þarna á eyjunum. Kom fyrir að sundriðið var í tjörnunum sem nóg var af þarna. En það var nú ekki vel séð af fullorðna fólkinu.

Þegar þú varst tæplega þrítug fluttuð þið Gunnþór til Akureyrar. Ég elti þig svo norður þremur árum seinna og þú tókst mig undir þinn verndarvæng. Ég átti heimili hjá ykkur næstu árin. Fyrst meðan þið bjugguð í Norðurgötu 1 og síðan að Kambsmýri 6 þar sem þú áttir þitt fallega heimili til æviloka. Á þessum árum styrktist okkar góða vinátta enda varst þú vinur vina þinna.

Það var eftirtektarvert hvað þú lagðir mikla rækt við húsið og garðinn í Kambsmýrinni. Þar var snyrtimennskan í hávegum höfð. Þú lést hlutina aldrei reka á reiðanum og ótal stundum eyddir þú í að fegra umhverfi þitt. Blómarækt var eitt af áhugamálum þínum og þú lagðir mikla alúð í umhirðu þeirra hvort sem um var að ræða blóm í garðinum eða pottablóm inni í gluggunum. Hannyrðir voru líka eitt af áhugamálunum þínum og ótal blómamyndir saumaðir þú út í gegnum árin. Þú virtist hafa óbilandi starfsþrek sem Elli kerling virtist ekki bíta á og varst ætíð tilbúin að rétta hjálparhönd.

Það var ekki í kot vísað þegar litið var í heimsókn til þín í Kambsmýrina. Þá var allt besta meðlætið borið fram og hitað nóg af kakói. Þú varst alltaf með fulla könnu af kakói og slepptir henni helst ekki fyrr en allt var búið úr henni. Þá var nú eins gott að standa sig í kakódrykkjunni!

Addi frændi þinn þakkar þér óteljandi kakóbolla síðustu árin.

Ég minnist líka allra ferðalaganna sem við fórum saman á bernskuslóðirnar austur á land. Í þeim ferðum naust þú þín því þér þótti svo vænt um æskustöðvarnar. Þar lágu ræturnar okkar.

Að endingu vil ég þakka þér fyrir samfylgdina í gegnum árin og allan velvilja og umhyggju sem þú sýndir mér alla tíð. Ég og fjölskylda mín þökkum þér hjartanlega fyrir allt sem þú varst okkur, þú varst alltaf til staðar.

Hvíl í friði, elsku frænka.

Sigurbjörg (Didda) og fjölskylda.