Bragi Leifur Hauksson
Bragi Leifur Hauksson
Eftir Braga Leif Hauksson: "Ekki er örgrannt um að sú hugsun leiti á að stjórn Fjármálaeftirlitsins ætti að segja af sér, svo skipa megi aðra sem stendur þétt við bak forstjóra."

Árin fyrir hrun fór margt úrskeiðis á Íslandi. Þá léku lausum hala gráðugir siðblindir sótraftar með einbeittan brotavilja sem svifust einskis. Eftirlit og aðhald var í molum og ef einhver sýndi lit í þeim efnum var umsvifalaust reynt að kaupa viðkomandi eða eyðileggja mannorð hans. Allt of mikið var af meðvirkum nytsömum sakleysingjum. Þau voru mörg atvikin sem maður var gáttaður á og síðan kom margt í ljós í Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar var kominn grundvöllur til uppgjörs við fortíðina, en í ljósi þess sem sést hafði fyrir hrun var ekki ástæða til of mikillar bjartsýni.

Ef vitleysan átti ekki að halda áfram þurfti að manna vel lykilstöður eins og stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Í það starf þurfti mann með víðtæka þekkingu á fjármálakerfinu, en jafnframt mann með þor og þrautseigju til að komast til botns í flóknum og vafasömum málum og standast árásir og brögð óprúttinna manna sem forðast réttvísina. Ég gladdist því mjög þegar Gunnar Andersen sótti um stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins og fékk hana. Gunnar hefur glímt við margt í þessu starfi. Sumt var fyrirséð, eins og það að sótraftarnir og skósveinar og leigupennar þeirra hafa verið óþreytandi við að reyna að ata Gunnar auri og hafa verið heldur pirraðir á hve illa það hefur gengið. Gunnar var svo verðlaunaður fyrir störf sín með myndarlegri launalækkun! Hvorugt lét hann á sig fá og hélt ótrauður áfram.

Eftir að Gunnar var nefndur í rannsóknarskýrslu Alþingis í tengslum við aflandsfélög fyrir 10 árum, fékk þáverandi stjórn Fjármálaeftirlitsins Andra Árnason hæstaréttarlögmann til þess að skrifa greinargerð um hæfi Gunnars. Stjórnin ákvað í framhaldinu að ekki væri tilefni til neinna viðbragða. Hælbítar héldu samt ótrauðir áfram og núverandi stjórn Fjármálaeftirlitsins bað Andra aftur að skoða hæfi Gunnars og komst hann aftur að sömu niðurstöðu. Þá var bætt um betur og Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður og Ásbjörn Björnsson, löggiltur endurskoðandi, fengnir til að rýna bæði álit Andra!

Þarna er kominn verulegur óþefur af aðgerðum stjórnar Fjármálaeftirlitsins og kannski ráð að draga fram aðgerðaáætlun um viðbrögð við einelti.

Ástráður og Ásbjörn eru að flestu leyti jákvæðir í umsögn sinni. Það neikvæðasta er „huglægt“ mat, en slegið úr og í. Þeir tala um opinbera umfjöllun eins og hún komi þeim á óvart.

Í framhaldi af þessu virðist stjórn Fjármálaeftirlitsins hafa ákveðið að segja Gunnari upp störfum. Beitt er gamalkunnu bragði til þess að lágmarka fjölmiðlaumfjöllun, en það er að stjórn FME tilkynnir þetta seint á föstudegi og Gunnari er gefinn andmælafrestur til mánudags! Þetta er fyrirlitleg framkoma og gerir trúverðugleika stjórnar FME að engu.

Málflutningur stjórnar FME er líka í mýflugumynd og þar virðist lítill áhugi á að kanna nánar réttmæti þess sem „huglæga“ matið byggðist á.

Þeir einu sem hagnast á þessu brölti stjórnar FME eru skjálfandi skúrkar sem vita að unnið hefur verið af fagmennsku að rannsókn mál þeirra og það þola þeir ekki.

Ekki er örgrannt um að sú hugsun leiti á að stjórn Fjármálaeftirlitsins ætti að segja af sér, svo skipa megi aðra sem stendur þétt við bak forstjóra og styður hann í mikilvægum störfum hans, en gengur ekki í lið með þeim sem verið er að rannsaka!

Höfundur er tölvunarfræðingur.

Höf.: Braga Leif Hauksson