Hilmar Björnsson fæddist í Reykjavík 14. apríl 1933. Hann lést 13. febrúar 2012.

Foreldrar hans voru Björn Finnsson og Emilía Magðalena Jóhannesdóttir, bæði fædd og uppalin á Snæfellsnesi. Hilmar var yngstur sex systkina sem öll eru látin; Guðrún Jóhanna, f. 1918, Salbjörg, f. 1923, Ragnar Emil, f. 1925, Finndís, f. 1929 og Sigmundur, f. 1931.

Eftirlifandi kona Hilmars er Marie Bögeskov, f. 1934 í Reykjavík. Þau giftu sig sumardaginn fyrsta 1956. Þau byggðu sér hús við Kársnesbraut 103 og bjuggu þar í 45 ár. Þau seldu húsið sitt fyrir sex árum og keyptu íbúð í Víðihvammi 24, þar sem heimili þeirra hefur verið síðan. Þau eignuðust þrjú börn; 1) Emilía María Hilmarsdóttir, f. 1961, gift Birni Elíassyni og eiga þau þrjú börn; Hilmar Ágúst, Anton Örn og Elísu Björk. 2) Björn Bögeskov Hilmarsson, f. 1965, kvæntur Ólöfu Ævarsdóttur og eiga þau þrjár dætur; Rakel Rut, Maríu Mjöll og Kristbjörgu Karen 3) Hjördís, f. 1975, gift Tryggva Rúnari Guðmundssyni og eiga þau eina dóttur; Guðrúnu Emmu.

Hilmar ólst upp í mikilli fátækt eins og víða var á þessum árum í Reykjavík. Ellefu ára er hann sendur í sveit að Saxhóli á Snæfellsnesi og lendir þar hjá góðu fólki, sem hann minntist oft á síðar á ævinni. Móðir hans deyr 1946 og kemur hann þá í bæinn og upp frá því fer hann að vinna almenn verkamannastörf. Fjölskylda hans flutti í Kópavog 1945 og hefur hann búið alla tíð í Kópavogi. 1952 hóf hann störf hjá Kjöti og rengi, síðar Niðursuðuverksmiðjunni ORA, og vann þar óslitið í 50 ár til 2002.

Útför Hilmars fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 22. febrúar 2012, kl. 13.

Aldrei er dauðinn neinn auðfús gestur

en einstaka sinnum kærkominn þó.

Þegar að hugur og þrekið allt brestur,

þá horfum við flestöll himinsins til,

hér verða oftast á lífinu skil.

Þegar að síðasta þrautin er unnin,

þráum við hvíld þá er ætluð oss var.

Á þegar síðasti svefninn er runninn

og sólin er hnigin í kvöldroðans mar.

Þá gengur þú léttfættur, glaður í lund,

gengur til himins á feðranna fund.

Eftir er minningin ein til að ylja.

Allt sem er gengið á liðinni stund.

Minningar lifa og minningar skilja,

myndirnar eftir á samverugrund.

Þú fleyinu stýrir á frelsarans fund,

þar fagna þér vinir í eilífðarlund.

Takk fyrir allt og allt, vinur.

Marie.

Elsku besti pabbi. Þú varst algjör snillingur.

Samleið ykkar mömmu spannaði tæp 60 ár, oftar en ekki einkenndist sambúðin í fyrstu af mikilli vinnu og litlum frítíma en sá tími var engu síður vel notaður.

Þú varst e.t.v. þrjóskur, eins og ég er oft talinn vera, enda áttum við sama afmælisdag sem var alveg einstaklega vel útreiknað hjá ykkur mömmu, við erum hrútar.

Þú einsettir þér síðustu vinnuárin að ná því að starfa 50 ár í Niðursuðuverksmiðjunni Ora. Það er alveg ljóst að þú vannst ekki þar launanna vegna heldur að þér líkaði erfiðisvinna vel og einnig áttir þú góða vini og kunningja þar. Í öllum kaffi- og matartímum hljópstu upp brekkuna frá Ora og upp á Kársnesbraut 103, ég sé það núna að það var til þess að geta átt fleiri mínútur heima með mömmu og okkur systkinunum. Það var reyndar ekki nóg að þú ynnir í Ora heldur rákuð þið mamma Sælgætisgerðina HB á árunum 1968-1977. Flest kvöld vikunnar og um helgar var unnið úti í bílskúr við að sjóða brjóstsykur og karamellur. Mamma klippti niður kúlur og setti spýtur í og þú stimplaðir framleiðsluna HB, því næst pökkuðum við systkinin og oft vinir okkar namminu í poka (með eðlilegri rýrnun).

Okkar sameiginlega áhugamál var fótbolti. Við horfðum á marga leiki, fyrst vikugamla leiki úr enska á RÚV en síðan beinar útsendingar eftir að tækninni fleygði fram. Þú spilaðir sjálfur með Þrótti, Val og Breiðabliki og varst mikill varnarjaxl. Ég spilaði í um 20 ár og síðan tóku stelpurnar mínar við. Þú fylgdist ávallt vel með okkur öllum og eins með barnabörnum í ÍBV. Við fórum oft saman á Breiðabliksleiki sl. sumar, þótt við hefðum nú ekkert verið ánægðir með árangur meistaraflokks karla, þá erum við kannski orðnir of góðu vanir eftir tvo frábæra titla 2009 og 2010.

Kvart og kvein yfir vinnu eða þínum erfiðu veikindum voru orð sem ekki voru til í orðabók þinni. Þú varst ávallt ótrúlega duglegur, ósérhlífinn og vildir allt fyrir alla gera. Þegar mig vantaði aðstoð við eitthvað – eitt símtal og þú varst mættur. Þú og mamma voruð ein af frumbyggjum á Kársnesinu, fyrstu árin bjugguð þið í sumarbústað og síðan þegar fjölskyldan stækkaði var byggt við nýtt. Allt var unnið í aukavinnu á kvöldin og um helgar og tók þetta ykkur um sjö ár. Allt hafðist þetta með ótrúlegum dugnaði, eljusemi, hagsýni og samviskusemi. Við systkinin nutum góðs af þessu, ólumst upp í frábæru hverfi og hófum öll okkar búskap í kjallaranum á Kársnesbrautinni.

Það er erfitt að kveðja þig, elsku besti pabbi minn, ekki síst vegna þess hversu snöggt þú fórst frá okkur. Við huggum okkur við það að einmitt þannig hefðir þú viljað hafa það sjálfur, ekkert kvart né kvein og virðum við það. Þú ert örugglega að hefja nýtt líf núna og fylgist með okkur öllum, sem þú unnir svo mikið, af áhuga og með bros á vör.

Ótal minningar hrannast upp en minningin ein um algjöran snilling, frábæran pabba og afa koma til með að lifa til eilífðar.

Megi Guð gefa að við hittumst aftur á nýjum stað í nýju lífi.

Kveðja frá þínum elskaða syni.

Björn Bögeskov Hilmarsson.

Elsku pabbi, það er svo sárt að fá ekki að kveðja þig. Þú varst tekinn frá okkur á einu augabragði, bráðkvaddur. Veikindi þín ágerðust síðastliðið ár en þú varst alltaf svo sterkur og þrautseigur. Þrátt fyrir að vera kvalinn á stundum varstu ekkert að kvarta og kveina eða deila því með okkur. Það var ekki þinn stíll, sannur víkingur. Það eru svo margar góðar minningar sem streyma um huga mér. Þegar eitthvað þurfti að framkvæma; mála, smíða, flytja, laga, sama hvað það var þá varst þú mættur með verkfærin þín og tilbúinn að hjálpa og leiðbeina. Traustur og tryggur, ávallt til reiðu. Takk fyrir allt.

Það voru ófá skiptin sem þið voruð að gæta og hugsa um hraunið og hundana. Þú varst þeim svo góður vinur. Grettir heitinn aðstoðaði þig við smíðarnar og þið voruð mestu mátar. Þið félagarnir munuð finna ykkur margt til dundurs. Æskuminningar; Þú kenndir mér að hjóla og þegar fór að vora þá var hjólið mitt tilbúið til notkunar þegar veður leyfði. Þú kenndir mér að veiða, það voru ófá skiptin sem við fórum saman eftir vinnu niður í fjöru til að veiða. Við áttum okkar stað. Við fórum stundum upp að Meðalfellsvatni með nesti og eyddum deginum þar í að baða orma. Orma sem við höfðum tínt í garðinum á Kársnesbrautinni og geymt með mosa og mold í þar til gerðum fötum. Þetta voru góðar stundir. Eitt af okkar sameiginlegu áhugamálum var að safna steinum, áttum orðið dágott safn. Þú passaðir alltaf upp á að skautarnir mínir væru í lagi sem og skíðin. Þeim var reglulega skipt út eftir því sem ég stækkaði. Ég man eftir því þegar þú kenndir mér á skauta niðri á tjörn. Þá dróstu mig með trefli á eftir þér og sagðir mér hvernig ég átti að gera til að skauta.

Á sunnudögum fór ég oft með þér að leggja baunir í bleyti í Ora. Það var svakalegt sport, við fórum um allt á trillu. Eftir vinnu var oft farið í sunnudagsbíltúra og keyptur ís, það var auðvitað toppurinn. Pabbi var mikill ísmaður. Sunnudagar voru mínir uppáhaldsdagar í æsku. Ég var alltaf litla stelpan þín þó að ég færi snemma að heiman. Á brúðkaupsdaginn minn vorum við álíka stressuð þegar þú fylgdir mér inn kirkjugólfið og stóðst þig með sóma. Ég man eftir því eins og að það hefði gerst í gær, þú varst með rauðan ópal. En rauður ópal var í miklu uppáhaldi hjá þér og í öllum jakkavösum og yfirhöfnum var að finna misjafnlega gamla pakka af rauðum ópal. Það mátti bara fá sér eitt í einu. Hvort sem um var að ræða mat eða drykk þá var allt innan hófsamlegra marka. Mér er minnisstætt eitt af fyrstu skiptunum sem hann Tryggvi eiginmaður minn borðaði með fjölskyldunni. Þá hafði hann á orði; þið borðið eins og fuglar, kroppið bara í matinn.

Þú kenndir okkur systkinunum að fara vel með alla hluti og ef eitthvað bilaði var hægt að laga það. Núlifandi kynslóðir ættu að taka þína kynslóð sér til fyrirmyndar, sem alin var upp í fátækt. Við mættum tileinka okkur meiri nægjusemi. Ég er mjög þakklát fyrir þann stutta tíma sem dóttir okkar Guðrún Emma fékk að kynnast „áva“ sínum. Guð geymi þig.

Hinsta kveðja,

Hjördís.

Það er ýmislegt sem við þurfum að glíma við á lífsleið okkar. Við fáum lífið lánað þegar við fæðumst og skilum því aftur þegar við deyjum. Meðan við lifum er hægt að halda góðri heilsu með því að lifa heilbrigðu lífi. Við verðum að gæta vel að hreyfingu, mataræði, tímasetningum á matartímum, hvíld o.fl. Það má segja að faðir minn, tengdafaðir og afi hafi alla tíð passað upp á þetta. En svo gerist eitthvað sem ekki er hægt að stjórna en kannski hægt að fresta í einhvern tíma.

Mér sem tengdasyni er mjög minnisstætt þegar ég kom fyrst inn í tengdafjölskylduna. Tengdapabbi sagði ekki mikið en hann hefur væntanlega verið nokkuð hissa þegar hann sér þennan strák hlaupa frá Kársnesbrautinni í rauðköflóttum buxum. Hann hefur örugglega hrist höfuðið og verið mjög hissa og sagt við tengdamömmu hvað er í gangi? Eftir þessa uppákomu var mér mjög vel tekið af öllum. Sennilega sá Hilmar eitthvað í tilvonandi tengdasyninum. Þegar ég var að kynnast eldri dóttur Hilmars, Emilíu Maríu, var hann oft að kaupa og selja bíla. Það var ótrúleg seigla í Hilmari við þetta en alltaf þegar hann seldi bíl fékk hann sér vindil og brosti, honum leið greinilega vel með söluna. Ég vissi alltaf þegar ég kom á Kársnesbrautina og fann vindlalykt þá var hann að selja bíl. Ég man ekki eftir öðru en hann ætti alltaf tvo bíla og treysti mér strax til að keyra þá. Hann var alltaf tilbúinn að lána mér bíl. Þarna kom vel í ljós hve vel hann treystir sínum nánustu og þeim sem voru að tengjast fjölskyldunni. Hann var ekkert að flýta sér, fékk upplýsingar og var ekkert að taka ákvarðanir í fljótheitum. Ég held að sumir ættu að fara hægar.

Hilmar gat verið nokkuð þrjóskur þegar hann var búinn að taka eitthvað í sig og dómharður. Það var ekkert auðvelt að breyta um skoðun hjá honum. Hilmar var mjög gefandi til barnabarna sinna, hann var alltaf tilbúinn að leika við barnabörnin í eltinga- og feluleik, hand- og fótbolta o.fl. Hann lét ekki sjónvarp trufla sig, barnabörnin höfðu forgang. Honum fannst óþægilegt ef hann heyrði eitthvert barnabarnið gráta. Honum leið best þegar barnabörnin brostu og voru kát.

Hilmar hafði mikinn áhuga á íþróttum. Hann spilaði með Þrótti í Reykjavík og síðan með Breiðablik í Kópavogi. Hann átti uppi í hillu sögu Þróttar og hefur örugglega oft skoðað hana, allavega er ég búinn að skoða hana 3-4 fjórum sinnum. Hann sagði mér oft frá því þegar hann fór til Ísafjarðar og Vestmannaeyja að keppa. Þá var ekki hoppað upp í flugvél og lent eftir örfáar mínútur. Aðstæður voru þá töluvert aðrar. Hilmar hafði mjög gaman af því að fara og horfa á knattspyrnuleiki. Hann var oft mjög ósáttur þegar hann kom til baka með það hvernig liðin voru að spila að hans mati. Síðustu árin sátum við, ég og strákarnir mínir, oft með Hilmari að horfa á knattspyrnuleiki í sjónvarpinu og var hann oft mjög dómharður á leikinn, lélegur leikur, leikmenn nenntu þessu ekki, o.fl. Allt tekur enda. Þegar horft er yfir farinn veg spyr maður sig er ég sáttur með það sem ég er búinn að gera í lífinu?

F.h. fjölskyldunnar Fjólugötu 1, Vestmannaeyjum,

Björn Elíasson.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

Þín vinartryggð var traust og föst

og tengd því sanna og góða,

og djúpa hjartahlýju og ást

þú hafðir fram að bjóða.

Og hjá þér oft var heillastund,

við hryggð varst aldrei kenndur.

Þú komst með gleðigull í mund

og gafst á báðar hendur.

Svo, vinur kæri, vertu sæll,

nú vegir skilja að sinni.

Þín gæta máttug verndarvöld

á vegferð nýrri þinni.

Með heitu, bljúgu þeli þér

ég þakka kynninguna,

um göfugan og góðan dreng

ég geymi minninguna.

(Höf. ók.)

Elsku tengdapabbi.

Ég þakka þér samfylgdina sl. 25 ár sem aldrei bar skugga á. Þú reyndist mér svo frábær tengdafaðir og þér á ég svo margt að þakka. Guð gefi Marie, Möllu, Bödda, Hjöddu og fjölskyldum þeirra styrk og ég óska þér góðrar ferðar á vit nýrra ævintýra.

Blessuð sé minning þín, Hilmar minn, þín verður sárt saknað.

Þín tengdadóttir,

Ólöf.

Það var undarlegt hvað sírenan á sjúkrabílnum sem þaut framhjá okkur hljómaði eins og henni væri sérstaklega beint til okkar fjölskyldunnar og tengdamömmu sem var þá stödd hjá okkur. Um klukkutíma síðar var það síðan staðfest að tengdafaðir minn hafði kvatt þennan heim. Snöggt fráfall hans kom á óvart þó svo að hann hafi verið svo lánsamur að lifa löngu og innihaldsríku fjölskyldulífi. Hilmari verður ef til vill best lýst sem fjölskylduföðurnum sem var alltaf til staðar, fyrir fjölskyldu, vini og ættingja. Það er kostur sem ef til vill er ekki nógu mikils metinn fyrr en hann er ekki lengur til staðar. Þeim hefur fækkað um einn, harðduglegum Íslendingum, sem eru knúnir áfram af vinnusemi og finnst ekkert skemmtilegra en að taka til hendinni. Það er mín von nú þegar Hilmar stendur frammi fyrir nýjum verkefnum að hann muni loks gefa sér meiri tíma fyrir tónlist og veiði. Takk fyrir allt, Hilmar. Hvíl í friði.

Kveðja,

Tryggvi Rúnar.

Elsku afi.

Af einhverjum ástæðum hef ég enga hugmynd um hvernig ég á að lýsa því hvernig mér líður núna, hvaða orð geta lýst öllum hugsunum mínum best. Þetta gerðist allt svo fljótt. Aðeins nokkrum klukkutímum áður en þitt undursamlega líf tók enda kyssti ég þig bless og sagði: „Heyrðu afi, ég er farin aftur upp í skóla, ég sé þig á morgun,“ og smellti koss á kinnina eins og ég gerði alltaf. Ég mun alltaf vera þakklát fyrir þessa setningu og fyrir að hafa komið til ykkar þennan morgun.

Það eru svo ótal margar minningar sem við eigum saman, afi. Allir fótboltaleikirnir sem þú horfðir á mig keppa, allir leikirnir sem við sáum meistaraflokk Breiðabliks spila, allir brandararnir sem við sögðum okkar á milli og lengi gæti ég talið. Ég hafði alltaf jafn gaman af því þegar þú sagðir mér sögur frá því þegar þú varst í fótbolta. Í hvert sinn sem þú byrjaði sögur af þínum fótboltaferli byrjaðirðu á að segja mér hvernig þú varst minnstur af öllum í liðinu þínu og spilaðir sem miðvörður en samt varstu langbestur í vörninni. Ég heyrði þessa setningu ófáum sinnum en ég varð aldrei þreytt á því að heyra hana. Allir leikirnir sem þú og amma komuð að horfa á mig spila voru ómetanlegir og ekki margir leikir sem þú misstir af á rúmum 10 árum. Stelpurnar með mér í liði vissu allar hver þið voruð og sögðu alltaf hvað þið væruð miklar dúllur að mæta alltaf og styðja okkur.

Áður en þú veiktist fóruð þið amma út að labba á hverjum degi. Amma fór reyndar ekki út að labba, hún fór út að hlaupa eins og þú orðaðir það. Amma alltaf nokkrum metrum á undan þér og þú eins og hundur í eftirdragi (engin skömm, ég á í erfiðleikum með halda í við hana). Þú sagðir mér sögur frá því þegar þið voruð úti í útlöndum og amma var komin nokkra tugi metra á undan öllum hópnum því henni lá svo mikið á og þú sagðist ekki hafa hugmynd um hver þessi kona væri. Ég man hvað ég hló mikið þegar þú sagðir þetta. Þú hafðir kannski ekki mikla orku í að fara í göngutúra þessa síðustu mánuði en ég er viss um að þú ert að spila fótbolta af miklum krafti með öðrum góðum félögum uppi á himni.

Vegna þín munu fílar, frímerki, lottó og íþróttir alltaf hafa aðra þýðingu fyrir mér. Fyrir mér eru þetta ekki bara dýr og dauðir hlutir. Þetta eru hlutir sem gerðu afa að afa Hilmari, afa sem allir elska og ómögulegt að líka ekki við.

Þú ert kannski ekki hérna til að kyssa og knúsa en þú ert í hjarta okkar allra og verður þar að eilífu. Ég er ánægð að þú ert kominn á góðan og hlýjan stað þar sem þú spriklar um í fótbolta og skemmtir þér með gömlum vinum.

Megir þú hvíla í friði.

Þitt barnabarn,

María Mjöll.

Elsku afi.

Þá er komið að kveðjustund. Þú varst alltaf glaður og brosmildur, þegar ég kom í heimsókn til þín og ömmu. Þú tókst utan um mig og kysstir.

Takk fyrir að koma og horfa og styðja mig á fimleika-, fótbolta- og handboltamótunum.

Síðast sá ég þig þegar þú komst að horfa á mig á handboltamóti, það var tveimur dögum áður en þú kvaddir þetta líf.

Takk fyrir að vera afi minn. Ég hugsa til þín með þakklæti í hjarta. Sjáumst á ný björtu sólskini í.

Þitt barnabarn.

Elísa Björk.

Elsku afi minn.

Ég sakna þín mjög mikið en ég veit að þú ert á góðum stað núna. Þar get ég séð þig fyrir mér glaðan og frískan, laus við allar þjáningar.

Ég vil þakka þér fyrir að koma að horfa á fótboltaleiki með mér og vera alltaf svona góður. Þú hefur kennt mér mikið og gefið mér mikið í gegnum tíðina.

Núna ertu þarna uppi að fylgjast með okkur og búinn að hitta fólkið sem á undan þér er farið og það hefur tekið vel á móti þér.

Í minningunni man ég eftir okkur saman að borða ís og nammi.

Elsku afi, vonandi hefur þú það gott og við sjáumst síðar.

Kristbjörg Karen Björnsdóttir.

Elsku besti afi Hilmar minn, hefði ég vitað að síðast þegar ég sá þig yrði það allra síðasta hefði ég faðmað þig og aldrei viljað sleppa. Að fá þær fréttir að þú hafir fallið frá eru svo óhugsanlega sorgmæddar. Að hugsa til þess að það verði enginn afi með okkur á blikaleikjunum í sumar, enginn afi til að gefa okkur gúmmígott lengur, enginn afi til að spjalla við um fótboltann, enginn afi til að spila skák við, og svona gæti ég endalaust talið áfram. Þú varst með eindæmum langbesti afinn til að geta hugsað sér og allar minningarnar með þér eiga stóran stað í hjarta mínu. Þú ert nú kominn á betri stað og ert í örmum Guðs og engla með öðrum kærkomnum og ég veit að þér líður nú vel.

Nú sefur þú í kyrrð og værð

og hjá englunum þú nú ert.

Umönnun og hlýju þú færð

og veit ég að ánægður þú sért.

Ég kvaddi þig í hinsta sinn

ég kveð þig nú í hinsta sinn.

Megi minning þín lifa að eilífu og ég mun aldrei gleyma þér. Hvíl í friði elsku afi.

Þitt barnabarn,

Rakel Rut.

Góður vinur og vinnufélagi til margra ára er látinn.

Það var mikil og góð lífsreynsla fyrir mig að fá að starfa í liðlega 50 ár með jafn heilsteyptum manni og Hilmari. Við stofnun Ora byrjuðum við að vinna saman, þá báðir ungir menn.

Hilmar var drengur góður í þess orðs fyllstu merkingu, samvinnufús og bóngóður starfsmaður sem stóð og féll með því sem hann tók sér fyrir hendur. Reglusemi, stundvísi og snyrtimennska voru hans aðalsmerki. Það var sama hvaða störf Hilmar tók að sér, alltaf stóð hann við allt sem honum var falið að gera og skilaði því með prýði.

Hilmar var léttur og kátur á sínum yngri árum, og var vinnudagurinn oft langur hjá honum, því hann tók að sér kvöld- og helgarstörf fyrir fyrirtækið sem ósjaldan þurfti að sinna á þeim árum. Hann sá um hráefnislager fyrirtækisins til margra ára og sá til þess að allir vöruflokkar væru til og geymdir við réttar aðstæður, og að allt væri tilbúið þegar vinnslan fór í gang að morgni. Atorkusemi Hilmars var ekki eingöngu bundin við vinnustaðinn, heldur réðst hann í húsbyggingu við Kársnesbrautina á sínum yngri árum, byggði þar stórt og mikið hús fyrir sig og fjölskylduna. Hilmar var afburða verklaginn og útsjónarsamnur, fann oft upp á ýmsu sem öðrum hafði ekki komið til hugar. Við áttum einnig okkar gleðidaga utan vinnunnar, fórum t.d. eitt sumarið í ferð norður í land og til Austfjarða og heimsóttum þá síldarverkun í leiðinni sem fyrirtækið keypti síld af, það var ógleymanleg ferð. Hilmar var farsæll í sínu einkalífi, átti því láni að fagna að eiga góðan lífsförunaut sér við hlið, eiginkonuna Marie og sólargeislana sem þau hjónin unnu svo heitt, börnin og barnabörnin.

Að leiðarlokum vil ég þakka Hilmari fyrir alla þá vináttu og traust sem hann ætíð sýndi mér og fjölskyldu minni. Við sendum Marie og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Hilmars.

Magnús Tryggvason.