Helgi Þór Sigurðsson fæddist á Sauðárkróki 10. nóvember 1935. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 13. febrúar 2012. Móðir hans var Anna Sigurbjörg Helgadóttir, fædd á Hafgrímsstöðum í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði 20. maí 1913, d. 15. október 1976. Helgi Þór var elstur þriggja hálfsystkina en þau eru Elín Ingigerður Karlsdóttir, f. 1938, Ólafur Guðmundsson, f. 1947, og Sigurbjörg Guðmundsóttir, f. 1951.

Helgi Þór giftist Guðbjörgu Guðjónsdóttur, f. 6.7. 1950, árið 1984, þau skildu 1994. Þau eignuðust þrjú börn: 1) Anna Lýdía Helgadóttir, f. 3.3. 1978, leikskólakennari, gift Ólafi Ívari Jónssyni húsasmiði, f. 25.4. 1975, þau eiga eina dóttur; Emelíönu Líf, f. 15.8. 2005, og einn son Guðjón Helga, f. 4.11. 2010. 2) Elín Þóra Helgadóttir, f. 7.2. 1981, hún lést í bílslysi 22.10. 2000. 3) Theódór Helgi Helgasson, f. 31.3. 1984.

Helgi Þór var bifvélavirki.

Útför Helga Þórs var gerð frá Keflavíkurkirkju 21. febrúar 2012.

Elsku pabbi minn.

Frá því ég man eftir mér hef ég alltaf verið mikil pabbastelpa. Þú varst góður maður og vildir að öllum liði vel og máttir ekkert aumt sjá, þá þurftir þú að fara að bjarga málunum. Við eigum svo margar góðar minningar ég og þú. Ég ætla að rifja upp nokkrar; ég man eftir að í hádeginu á föstudögum kíktu ég og mamma oftast á þig í vinnuna og færðum þér hádegismat frá Villabar, mér fannst alltaf svo gaman að kíkja til þín á bílaverkstæðið. Ég man líka eftir að ein jólin gafstu mér veiðistöng í jólagjöf, og eftir veiðiferðunum sem við fjölskyldan fórum í saman eftir að þú hættir að vinna. Man ég hvað þú varst mikill húsfaðir, einu sinni þegar ég kom heim úr skólanum gekk ég inn í eldhúsið og borðið var fullt af jólakökum sem þú hafðir verið baka.

Ég var 12 ára gömul þegar þú fékkst hjartaáfall, ég var svo hrædd um þig en jafnframt mjög stolt af þér að taka málin í þínar hendur, þú varst svo duglegur að fara út að ganga og hugsa um heilsuna sem gerði það að verkum að við gátum átt fleiri minningar saman, þar má nefna giftinguna mína og tvö barnabörn. Þú varst svo flottur afi og ég veit að Emelíana Líf og Guðjón Helgi eiga eftir að sakna afa Helga, en minning þín lifir í hjörtum okkar allra. Við eigum eftir að sakna þess að vakna á morgnana og finna Fréttablaðið í lúgunni og heyra brakið í hurðinni þegar þú varst að koma kíkja á okkur eftir að ég kom heim úr vinnunni og um helgar.

Ég hefði aldrei getað trúað því að þú værir orðinn svona veikur þegar þú varst hjá okkur á aðfangadag enda sýndir þú engin merki um það. En ég hafði miklar áhyggjur af þér annan í jólum þegar þú varst farinn að finna til. Ég hugsaði strax um hjartað en lungnabólga sögðu þeir og þú fórst heim með lyf. Ég skildi ekki alveg af hverju þér batnaði ekki. En hinn 4. janúar hringdi ég á sjúkrabíl, mér leist ekkert á þetta og var mjög hrædd um þig en aldrei hugsaði ég um krabbamein en 6. janúar var hringt í mig, læknarnir höfðu fundið meinvörp og seinna kom í ljós að þetta var lungnakrabbamein sem var búið að dreifa sér víða og leiðin lá ekki aftur heim. Þú varst ótrúlega duglegur, tókst öllu með svo miklu jafnaðargeði, ég er svo stolt af þér. Ég var þakklát að fá að vera hjá þér og halda í höndina á þér þegar þú kvaddir þennan heim. Ég var ekki tilbúin að kveðja þig en þér leið ekki vel, þú varst orðinn svo veikur. En ég er jafnframt mjög þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman.

Þú tókst af mér loforð tveimur dögum áður en þú kvaddir að ég ætti ekkert að vera að gráta, en pabbi, ég á erfitt með halda það loforð, ég get stundum ekki haldið aftur af mér, ég sakna þín svo mikið. En veistu hvað, pabbi, þegar þessu verkefni er lokið er ég nokkuð viss um að ég verð sterkari og mun halda áfram að brosa framan í lífið.

Takk, pabbi, fyrir að vera besti pabbi sem ég hefði getað hugsað mér. Þú ert mín fyrirmynd.

Ástar- og saknaðarkveðja,

Anna Lýdía.

Vinur okkar Helgi gamli eins og við kölluðum hann er látinn. Leiðir okkar Helga lágu saman þegar nýir eigendur tóku við Áhaldaleigu Suðurnesja. Segja má að Helgi hafi fylgt með í kaupunum. Það tókst strax með okkur góð vinátta. Við áttum oft leið í áhaldaleiguna og þar var Helgi alltaf með heitt á könnunni og tilbúinn að taka vel á móti gestum og gangandi. Þeir voru ófáir fastagestirnir sem komu til að sýna sig og sjá aðra. Þar var oftast glatt á hjalla enda Helgi mikill húmoristi og minnumst við hans varla öðruvísi en með bros á vör og segjandi skemmtilegar sögur. Helgi var einstaklega hjálpsamur maður og leituðu margir til hans með ýmis erindi bæði stór og smá. Helgi fór að koma við hjá okkur hjónunum oftast á sunnudagsmorgnum enda nokkuð víst að allavega húsbóndinn var kominn á ról. Hér voru þjóðmálin rædd, oftar en ekki á léttu nótunum og yfirleitt fundin lausn á þeim öllum.

Við kveðjum góðan vin og þökkum honum samfylgdina. Ættingjum og vinum Helga sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Kristinn Arnar og Hrönn.