Drómi hf. gerir alvarlegar athugasemdir við fullyrðingar Umboðsmanns skuldara í Kastljósi, „sem ekki mátti skilja á annan veg en þann að hjá Dróma hf. fengju skuldarar ýmist enga eða síðbúna úrlausn sinna mála“.

Drómi hf. gerir alvarlegar athugasemdir við fullyrðingar Umboðsmanns skuldara í Kastljósi, „sem ekki mátti skilja á annan veg en þann að hjá Dróma hf. fengju skuldarar ýmist enga eða síðbúna úrlausn sinna mála“. Segir í athugasemdunum að þetta sé alrangt.

„Drómi hefur lagt áherslu á uppbyggileg samskipti við embætti Umboðsmanns skuldara með það fyrir augum að leysa úr þeim álitamálum sem upp koma og færa mál til betri vegar þar sem það á við. Það hefur hins vegar vakið bæði vonbrigði og furðu að Umboðsmaður skuldara hefur kosið að reka fremur áróður í fjölmiðlum og fara fram með almennum staðhæfingum um vafasama viðskiptahætti, í stað þess að upplýsa Dróma um efnislegar kvartanir þannig að úr þeim megi leysa.

Ekki upplýst um kvartanir

Drómi hefur ítrekað skorað á Umboðsmann að upplýsa um þær kvartanir sem hún hefur fjölyrt um í fjölmiðlum, en hún hefur kosið að verða ekki við því.

Það vekur einnig furðu að Umboðsmaður skuldara kjósi að skilgreina hlutverk sitt gagnvart skuldurum svo þröngt að það felist í því að áframsenda kvartanir til annars stjórnvalds, í stað þess að leysa úr málunum sjálf í samstarfi við viðkomandi lánafyrirtæki. Á meðan starfsmenn Dróma fá ekki upplýsingar um þau mál sem staðhæfingar Umboðsmanns vísa til er ókleift að svara þeim eða vinna að lausn þeirra.

Farið að almennum úrræðum

Til upplýsingar þá hafa starfsmenn Dróma átt tvo fundi með Umboðsmanni skuldara á síðustu fimm vikum, þar sem samtals voru borin upp fimm sérgreind mál sem öll hafa verið útskýrð eða leyst eins og fundargerðir staðfesta.

Drómi hf. harmar að Umboðsmaður skuldara skuli kjósa að viðhafa slík vinnubrögð. Drómi fagnar því hins vegar að málið komist á faglegan vettvang, þar sem unnt er að svara athugasemdum á málefnalegan hátt, þótt æskilegra væri að geta átt slík samskipti við Umboðsmann skuldara og leysa með því úr málunum á skjótari hátt.

Loks vill Drómi árétta að félagið fer að öllum almennum úrræðum í þágu skuldara og starfsmenn félagsins leggja sig fram við að finna viðeigandi lausn á málefnum viðskiptavina,“ segir í athugasemdum félagsins.