Streita Jack James við rannsóknarbílinn þar sem komið hefur verið fyrir fullbúinni rannsóknarstofu, en í rannsókninni verða bæði félagslegir og líkamlegir þættir kannaðir.
Streita Jack James við rannsóknarbílinn þar sem komið hefur verið fyrir fullbúinni rannsóknarstofu, en í rannsókninni verða bæði félagslegir og líkamlegir þættir kannaðir. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unglingsárin geta verið stressandi en streita meðal unglinga hefur hingað til verið lítið rannsökuð. Mikilvægt er að skoða sem fyrst þá þætti sem valda streitu til að draga megi úr áhrifum hennar síðar meir.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Unglingsárin geta að mörgu leyti verið streituvaldandi tímabil í lífi fólks. Ýmiss konar breytingar verða á þessum árum, bæði líkamlegar og félagslegar. Hingað til hefur streita meðal unglinga lítið verið könnuð en ein fyrsta slíka rannsóknin mun hefjast hérlendis á næstunni. Rannsóknin er á vegum teymis sérfræðinga við sálfræðisvið Háskólans í Reykjavík með prófessorinn Jack James í fararbroddi.

Auknar kröfur gerðar

Útbúin hefur verið fullbúin rannsóknarstofa í litlum sendiferðabíl sem ekið verður á milli skóla.

„Rannsakaðir verða félagslegir þættir sem valda streitu meðal unglinga. Hingað til hefur áherslan verið á að skoða streitu meðal fullorðinna en unglingsárin geta jú verið stressandi tími. Unglingurinn fer úr hlutverki barnsins og til hans eru gerðar auknar kröfur. Ofan á það leggst einnig félagslegur þrýstingur frá jafnöldrum. Æða- og hjartasjúkdómar eru helsta dánarorsök Íslendinga og það hefur sýnt sig að stress er einn af þeim þáttum sem valdið geta slíkum sjúkdómum. Því er mikilvægt að skilja betur hvað orsakar streitu snemma á lífsleiðinni þar sem einkennin sýna sig strax á unglingsaldri. Rannsókn okkar miðar að því að skoða bæði líkamlega og félagslega þætti. Blóðþrýstingur og hjartsláttur verður skoðaður og einnig tekin munnvatnssýni. Þá verður svefnmynstur kannað og koffínneysla og reykingar. Með þessum aðferðum getum við aflað víðtækra upplýsinga um stressið sem hver manneskja upplifir,“ segir Jack.

Telja aftur á bak

Rannsókin fer fram í Reykjavík og víðar og hefur hlotið styrk frá Rannís. Rannsóknarteymið við Háskólann í Reykjavík vinnur verkefnið í samstarfi við Rannsóknir og greiningu sem og vísindamenn við erlenda háskóla, svo sem á Írlandi, í Bandaríkjunum og í Svíþjóð. Jack segir bílinn koma sér vel því auðveldast sé að ná til unglinga með því að leita til þeirra. Ein ástæða þess að streita í unglingum hafi lítið verið könnuð sé einmitt sú að erfitt getur verið að ná í þá. Rannsóknin verður gerð á 14, 15 og 18 ára unglingum og er vonast til að ná til sem flestra til að niðurstöðurnar verði sem marktækastar.

„Rannsóknin tekur um klukkutíma og hluti hennar er að skapa stressandi aðstæður. Við ætlum þó alls ekkert að hrella fólk heldur einfaldlega skapa aðstæður úr daglegu lífi. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að auðvelt er að kalla fram stresseinkenni með því að leggja fyrir fólk ögrandi verkefni. Þetta munum við nýta okkur og t.d. biðja unglingana að telja stóra tölu aftur á bak.

Slíkt gefur góða hugmynd um hvernig þau gætu brugðist við í hversdagslegum aðstæðum. Þetta gefur okkur heilsteyptari mynd af þeim þáttum sem skapað geta stress hjá unglingum. Með rannsókninni viljum við geta fundið leiðir til að draga úr þessu stressi,“ segir Jack.

Hann bætir við að sérstök áhersla verði lögð á að skoða koffínneyslu. Framleiðendur gos- og orkudrykkja einbeiti sér æ meira að því að ná til unglinga, en Jack segir rannsóknir sínar hafa sýnt að koffínneysla hafi áhrif á svefnmynstur unglinga sem geti síðan haft sín áhrif á námsárangur.