Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon
Það sér hver maður að engin sanngirni er í því að hnjóða í menn fyrir að gera ekki það sem vitað er að þeir eru ófærir um. Nú er ennþá einu sinni verið að vega ómaklega að Steingrími J. Sigfússyni.

Það sér hver maður að engin sanngirni er í því að hnjóða í menn fyrir að gera ekki það sem vitað er að þeir eru ófærir um.

Nú er ennþá einu sinni verið að vega ómaklega að Steingrími J. Sigfússyni. Hann hafði verið spurður í fjölmiðlum um aðkomu sína að fárinu í kringum forstjóra FME. Steingrímur svaraði að hann hefði aðeins heyrt um uppsagnarmálið í fjölmiðlum.

En í gær var upplýst: „Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, viðurkenndi á Alþingi í dag að hafa fundað með stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins, Aðalsteini Leifssyni, í síðustu viku þar sem Aðalsteinn hafi gert honum grein fyrir því að mál Gunnars Þ. Andersen, forstjóra stofnunarinnar, væru í ákveðnu ferli.“

Þetta virðist í fljótu bragði ekki líta vel út fyrir Steingrím. Enda fór hann í mikla mælskukeppni við sjálfan sig til að sýna fram á að það að hafa ekki heyrt um málið og að hafa rætt það fáeinum dögum fyrir afneitunina stangaðist ekki á.

En þetta var algjörlega óþarft af Steingrími. Allir sanngjarnir menn hafa fyrir löngu áttað sig á að Steingrímur J. getur ekki sagt satt orð eigi hann kost á öðru.

Skafanka, eins og sannleikshefti á hástigi, má ekki brúka gegn þeim einstaklingum sem við slíka hömlun búa. Miklu fremur á að sýna þeim alúð og umhyggju og reyna að gera gott úr.