Sóltún Hjúkrunarheimilið er eitt fárra sem eru með gildan þjónustusamning við ríkið. Samningurinn kveður m.a. á um aukinn lyfjakostnað.
Sóltún Hjúkrunarheimilið er eitt fárra sem eru með gildan þjónustusamning við ríkið. Samningurinn kveður m.a. á um aukinn lyfjakostnað. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Hjúkrunarheimilið Sóltún er eitt þeirra hjúkrunarheimila sem eru með þjónustusamning við ríkið. Samningurinn kveður m.a. á um að fari lyfjakostnaður fram yfir ákveðin viðmiðunarmörk taki ríkið þátt í þeim aukna kostnaði.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Hjúkrunarheimilið Sóltún er eitt þeirra hjúkrunarheimila sem eru með þjónustusamning við ríkið. Samningurinn kveður m.a. á um að fari lyfjakostnaður fram yfir ákveðin viðmiðunarmörk taki ríkið þátt í þeim aukna kostnaði.

Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns, sagði að samningurinn hefði verið gerður að undangengnu útboði ríkisins. Hún taldi það hafa verið mjög skynsamlegt hjá ríkinu að setja í útboðsgögn slíka magnleiðréttingu á daggjaldi vegna lyfjakostnaðar. Leiðréttingin á bæði við ef lyfjakostnaður fer yfir ákveðna heildarupphæð á ári og eins ef einstök lyfjameðferð fer yfir tiltekna upphæð.

„Við þurfum ekki að hafa jafnmiklar áhyggjur af því og margir aðrir ef fólk er á dýrum lyfjum eins og kom fram í grein Gísla Páls Pálssonar í Morgunblaðinu [sl. laugardag]. Eldri hjúkrunarheimili sem eru ekki með þjónustusamninga hafa ekkert svona ákvæði,“ sagði Anna Birna. Hún sagði að mikil breyting hefði orðið því hverjir flyttu á hjúkrunarheimilin í kjölfar breytingar á reglugerð um vistunarmat.

„Hjúkrunarheimilin eru nú almennt með veikara fólk sem áður fékk jafnvel eingöngu þjónustu á sjúkrahúsum. Sóltún var sérstaklega opnað til þess að taka við fólki beint af sjúkrahúsum og hefur sinnt þessum hópi frá upphafi,“ sagði Anna Birna. Í þessum hópi eru bæði sjúklingar á mjög dýrum lyfjum og fólk sem þarf reglulegar blóðgjafir til þess að halda lífi. Flóknar lyfjameðferðir og reglulegar blóðgjafir krefjast fleiri rannsókna. Hún sagði að með jafnmargbreytilegri sjúkdómsmynd og hjúkrunarþörf og nú er orðin á hjúkrunarheimilunum þyrfti fleiri fagmenntaða og dýrari starfskrafta. Þessi kostnaður hefði færst frá sjúkrahúsunum til hjúkrunarheimilanna með þeim sem nytu þjónustunnar.

Tímabær umræða

„Það er alveg réttmæt gagnrýni að það hafi ekki verið tekið tillit til þessara breytinga í daggjaldaútreikningum vegna hjúkrunarheimila,“ sagði Anna Birna. Hún sagði tímabært að taka þessa umræðu upp. Ætla mætti að menn hefðu ekki séð þessa þróun fyrir og einnig mætti gagnrýna að ekki hefði verið reiknað út hvað væri eðlilegt daggjald til að standa undir auknum þörfum íbúa heimilanna.

Anna Birna taldi líklegt að Sóltún fengi fleiri einstaklinga sem krefðust mikillar meðferðar en önnur hjúkrunarheimili á grundvelli þess að Sóltún ætti að geta tekið við þessum hópi. Hún sagði að þeim sem þörfnuðust mikillar og dýrrar umönnunar væri einnig að fjölga hjá öðrum heimilum.

„Hjúkrunarheimilin hafa ekki sama val og áður þegar þau gátu valið hverja þau tóku inn. Nú fara nánast allir sem koma frá spítölunum á hjúkrunarheimili. Vistunarmatsnefnd setur þá fremst í röðina sem eru í mestri þörf. Það er skylda hjúkrunarheimilanna að velja einn af þremur sem stillt er upp hverju sinni. Áður var hægt að hafna þeim öllum og velja bara einhvern af heildarvistunarmatsskránni,“ sagði Anna Birna.

Áður en Anna Birna fór að reka Sóltún rak hún öldrunarsvið Landspítalans. Hún sagði að hópurinn sem nú væri kominn á hjúkrunarheimili væri fyllilega sambærilegur við þann sem áður var hjá öldrunarsviði spítalans og jafnvel einnig á nýrnadeild, blóðsjúkdómadeild og líknardeild. Hún benti á að hjúkrunarheimilin væru að taka yfir mikið af líknarþjónustu aldraðra sem áður var á spítalanum.

„Þegar eina háskólasjúkrahúsið okkar verður fyrir miklum niðurskurði fer það að velta því fyrir sér hver séu verkefni þess og hvað aðrir séu færir um að annast. Það ýtir öllu nema því allra sérhæfðasta út af sjúkrahúsinu,“ sagði Anna Birna. Hún sagði það vera eðlilegt varðandi sjúklinga sem þyrftu ekki nauðsynlega að vera á sérhæfðu sjúkrahúsi. Umönnun þar væri miklu dýrari en á hjúkrunarheimili.

„Það er hins vegar einkennilegt að eini kaupandi þjónustunnar, sem er ríkið, reyni ekki að finna kostnaðarverð sem dugar til að standa straum af þjónustunni. Um það er og verður alltaf togstreita,“ sagði Anna Birna.

FIMM SAMNINGAR UM HJÚKRUNARHEIMILI

Ólíkt inntak

Samkvæmt upplýsingum velferðarráðuneytisins eru eftirtaldir samningar vegna rekstrar hjúkrunarheimila í gildi:

Samningur við Öldung ehf. um byggingu og rekstur hjúkrunarheimilisins Sóltúns í Reykjavík.

Samningur við Grund um rekstur hjúkrunarheimilisins Markar í Reykjavík.

Samningur við Sjómannadagsráð um rekstur Boðaþings í Kópavogi.

Þá hafa sveitarfélögin Akureyri og Höfn í Hornafirði rekið heilbrigðis- og öldrunarþjónustu til margra ára samkvæmt þjónustusamningum við ríkið.