Á Stórhöfða Lundinn er meðal fimm tegunda sem lagt er til að friða.
Á Stórhöfða Lundinn er meðal fimm tegunda sem lagt er til að friða. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Starfshópur á vegum umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, vill láta friða fimm tegundir sjófugla á þeirri forsendu að hindra verði ofveiði en sams konar friðun er í gildi í löndum Evrópusambandsins.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Starfshópur á vegum umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, vill láta friða fimm tegundir sjófugla á þeirri forsendu að hindra verði ofveiði en sams konar friðun er í gildi í löndum Evrópusambandsins. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi til ráðherra vegna málsins og óskað eftir skriflegu svari.

Guðlaugur Þór spyr í upphafi hvenær umhverfisráðuneytið eða stofnanir þess hafi haft upplýsingar um að íslensk lög frá 1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, væru ósamrýmanleg fuglatilskipun ESB.

„Lá tillaga Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar um að til að samræmast löggjöf Evrópusambandsins (ESB) þyrfti að breyta ákvæðum laga nr. 64/1994 þannig að nýting hlunninda gengi ekki framar friðunarákvæði laga fyrir þegar starfshópur um svartfugla var starfandi?“ spyr Guðlaugur. „En í greinargerð á vef utanríkisráðuneytis um undirbúning rýnifunda um umhverfismál í tengslum við aðildarviðræður Íslands og ESB sem unnin var á tímabilinu janúar til júní 2010 má finna þessa tillögu stofnananna. Var hópurinn beinlínis stofnaður til að fela ástæður lagabreytingarinnar sem eru nauðsynlegar vegna umsóknar Íslands í ESB?“

VG með forystuhlutverk í aðlögunarferli?

Einnig spyr þingmaðurinn hvaða rannsóknir eða upplýsingar séu fyrirliggjandi um það hvort hlunnindanýting hafi afgerandi áhrif á afkomu svartfuglastofna.

„Er þetta allt í framhaldi af því að nú eru hafnar alvörusamningaviðræður um ESB og hefur VG tekið að sér forystuhlutverk í umsóknar- og aðlögunarferlinu?“ spyr Guðlaugur Þór.