[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Skortur á færni í íslensku kann að hamla stærri hóp við atvinnuleit á Íslandi en talið hefur verið til þessa. Staða erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði er erfið.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Skortur á færni í íslensku kann að hamla stærri hóp við atvinnuleit á Íslandi en talið hefur verið til þessa. Staða erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði er erfið. Vandinn kann hins vegar að snerta fleiri en talið hefur verið fram að þessu ef horft er til þeirra sem hafa íslenskan ríkisborgararétt en hafa ekki náð fullu valdi á íslensku.

Ari Klængur Jónsson, sérfræðingur hjá Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði, leiðir líkur að þessu þegar talið berst að stöðu erlendra ríkisborgara á íslenskum vinnumarkaði.

Tilfinningin að talan sé hærri

„Menntun innflytjenda er vannýtt auðlind. Þetta er vandamál sem er ekki einskorðað við Ísland heldur er þekkt í ýmsum öðrum þjóðfélögum.

Það er mikið atvinnuleysi á meðal innflytjenda á Íslandi í dag en við höfum engar tölur um atvinnuþátttöku þeirra sem hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt. Tilfinning okkar hjá Fjölmenningarsetri er sú að atvinnuleysi meðal þessa hóps kunni að vera meira en landsmeðaltalið,“ segir hann en það var 7,2% í jan. sl.

Frank Friðrik Friðriksson, hagfræðingur hjá Vinnumálastofnun, segir engar greiningar hafa verið gerðar um atvinnuleysi þeirra sem fengið hafa íslenskan ríkisborgararétt vegna þess að upplýsingar um uppruna þeirra liggi ekki fyrir hjá Vinnumálastofnun.

Langflestir vilja læra íslensku

Líkt og rakið var í Morgunblaðinu nýverið leiddi nýleg könnun Eflingar á meðal félagsmanna í ljós að aðeins einn af hverjum átta Pólverjum sem voru í atvinnuleit kvaðst geta haldið uppi almennum samræðum á íslensku. Var hlutfallið 13%.

Athyglisvert er að bera þetta hlutfall saman við niðurstöður viðhorfskönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Fjölmenningarseturs á meðal innflytjenda sem gerð var um og eftir efnahagshrunið.

Langflestir vilja læra íslensku

Nokkrar niðurstöður könnunarinnar eru raktar í grafinu hér fyrir ofan og er ein megin niðurstaðan sú að yfirgnæfandi meirihluti, eða 86% aðspurðra af 797 þátttakendum, vill læra íslensku betur. Aðeins einn af hverjum 16, eða um 6%, hafði ekki áhuga á að læra íslensku yfirhöfuð eða læra málið betur.

Annað sem athygli vekur er að 24,9% aðspurðra sögðust aldrei hafa farið á námskeið í íslensku, 23,8% sagðist lítið umgangast Íslendinga og 13,8% kvaðst sjaldan heyra íslensku talaða. Samanlagt merktu 62,5% aðspurðra við einhvern þessara valmöguleika.

Spurður um þessar niðurstöður segir Ari Klængur, sem kom að könnuninni fyrir hönd Fjölmenningarseturs, að horfa beri til þess að 45% aðspurðra hafi komið til landsins eftir áramótin 2005/2006 eða skömmu áður en hafist var handa við gerð könnunarinnar í ársbyrjun 2008. Margir þátttakendur hafi því ekki dvalið lengi á landinu þegar þeir voru spurðir um kunnáttu sína í málinu. Engu að síður séu niðurstöðurnar sterk vísbending um að efla þurfi íslenskukennslu til handa innflytjendum. Það sé lykilþáttur í aðlögun þeirra.

Hlutfallið hærra í ár

Ari Klængur vísar að lokum í vinnuskýrslu Fjölmenningarseturs frá því í mars sl. en þar kemur m.a. fram að í byrjun árs 2000 voru erlendir ríkisborgarar rúmlega 2% af fólki á atvinnuleysisskrá. Í byrjun árs 2011 var hlutfallið 16% en það var 17,6% í jan. sl.

VÍSBENDINGAR UM AÐ TOPPI Í ATVINNULEYSI SÉ NÁÐ

Pólverjar fjölmennastir

Líkt og komið hefur fram eru Pólverjar fjölmennasti einstaki hópurinn á meðal atvinnulausra erlendra ríkisborgara á Íslandi.

Alls voru 1.245 Pólverjar án vinnu í janúar sl. og voru þeir um 60% þeirra 2.126 erlendra ríkisborgara sem voru þá án vinnu.

Samkvæmt Hagstofu Íslands voru 9.463 pólskir innflytjendur á Íslandi í janúar 2011. Til samanburðar voru 1.435 Pólverjar skráðir atvinnulausir í sama mánuði eða um 15% skráðra erlendra ríkisborgara frá Póllandi.

Atvinnuleysi meðal Pólverja sem ekki hafa fengið ísl. ríkisborgararétt var því nærri tvöfalt meira en landsmeðaltalið sem var 8,5% í janúar 2011.

Vísbendingar eru um að atvinnuleysi meðal þessa þjóðfélagshóps hafi náð hámarki.

Þannig sést þegar rýnt er í gögn Vinnumálastofnunar að atvinnuleysi meðal pólskra innflytjenda náði hámarki í mars 2011 er 1.468 Pólverjar voru án vinnu eða 60,22% þeirra 2.412 erlendra ríkisborgara sem voru atvinnulausir á Íslandi í þeim mánuði.

Mest varð atvinnuleysið meðal erlendra ríkisborgara í mars 2010 þegar 2.421 voru án vinnu.

Þróun atvinnuleysis meðal þessa hóps yfir átta samanburðarmánuði er sýnt á kortinu hér fyrir ofan. Benda tölurnar til að atvinnuleysið sé í hægum tröppugangi niður á við. Á móti kemur að fleiri erlendir ríkisborgarar fluttu frá landinu í fyrra en til þess. Sú þróun er að snúast við og eiga áhrifin á atvinnuleysistölurnar eftir að koma í ljós síðar á árinu.

Má ljóst vera að ef aftur tekur að fjölga í röðum erlendra ríkisborgara muni þörfin fyrir ný störf á vinnumarkaði aukast frekar.

Þótt Pólverjar séu fjölmennasti einstaki hópurinn var hlutfall atvinnulausra hærra hjá Litháum og Lettum eða 17,7% annars vegar og 17,4% hins vegar í janúar 2011.

Athygli vekur að atvinnuleysi meðal Portúgala var litlu minna eða um 14%. Verður samanburður nær í tíma að bíða nýrri gagna frá Hagstofunni um fjölda ríkisborgara frá þessum þrem ríkjum.

Íslendingar hjálpa til við íslenskuna

„Þegar ég kom til Íslands 19. desember 2009 gat ég barið saman nokkrar setningar. Ég man daginn sem ég kom því það var svo stutt til jóla. Áður en ég kom keypti ég geisladisk og bók með kennsluefni á íslensku. Síðan hef ég komist betur inn í málið og get nú haldið uppi samræðum um daginn og veginn á íslensku. Ég á hins vegar erfiðara með að ræða flóknari hluti,“ segir Mike McKenzie um fyrstu skref sín í íslenskunámi.

Eiga saman dóttur

McKenzie er fæddur í Bristol, borg í SV-Englandi sem telur 550.000 íbúa ef nágrannabæir eru taldir með.

Ástin leiddi hann til Íslands en hann er í sambúð með Kristínu Hrönn Hreinsdóttur og eiga þau saman fimm mánaða dóttur, Evu Frances McKenzie. Fyrir á Kristín Hrönn níu ára stúlku, Anja Isis Brown, og er McKenzie stjúpfaðir hennar. Hann starfar nú sem klippari hjá Gagnvirkni í Kópavogi.

Stundum er sagt að enska sé annað tungumál Íslendinga. Spurður hvort samt sé nauðsynlegt að læra íslensku til að komast inn í íslenskt samfélag segir hann svo vera.

„Það er mikilvægt að læra tungumál landsins sem maður flytur til. Hér hjálpar til að Íslendingar eru einstaklega hjálpsamir þegar tungumálið er annars vegar. Það gerist til dæmis undantekningarlaust þegar ég er í verslun að afgreiðslufólkið heyrir á hreimnum að íslenska er ekki mitt móðurmál. Samt heldur það áfram að tala við mig á íslensku þótt það tali líklega betri ensku en ég tala íslensku. Nú er ég farinn að skilja hvað er verið að fjalla um í fjölmiðlum. Fyrir tveim árum horfði ég á íslensku kvikmyndina Sódómu Reykjavík. Um daginn horfði ég á hana aftur og hafði þá meira gaman af enda farinn að skilja meira í málinu.

Reynsla mín er sú að tungumálið er ekki þröskuldur þegar kemur að því að eignast íslenska vini og kunningja. Það hjálpar hins vegar mikið til að ná tökum á málinu. Það hefur auðveldað manni að auka færnina að sækja íslenskutíma í Molanum í Kópavogi.“

Slípa íslenskuna í spjalli

• Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Kópavogi kenna nýbúum málið • Afslappað andrúmsloft og áherslan á að efla færni með samræðu

,,Viltu tala meiri íslensku?“ er verkefni sem hófst í janúar 2009 hjá Kópavogsdeild Rauða kross Íslands. Þar hitta íslenskir sjálfboðaliðar vikulega innflytjendur og tala saman á íslensku. Með verkefninu vildi Kópavogsdeild miða að því að ná til innflytjenda og gefa þeim tækifæri til að þjálfa sig í íslensku og bæta orðaforða sinn. Verkefninu er einnig ætlað að rjúfa félagslega einangrun innflytjenda sem og auðvelda aðlögun þeirra að íslensku samfélagi.

,,Tungumálið getur verið mikil hindrun og ýtt undir félagslega einangrun. Fólk af erlendum uppruna sem hefur sótt námskeið í íslensku vantar oft meiri reynslu af aðstæðum þar sem það fær að tala íslensku frjálslega við ýmsar aðstæður,“ segir Hrafnhildur Helgadóttir, verkefnastjóri hjá Kópavogsdeild Rauða krossins, um þjálfun fólks af erlendum uppruna í íslensku, en hún

veitir verkefninu forstöðu.

Eykst ár frá ári

„Aðsóknin hefur aukist með ári hverju. Um tíu manns hafa sótt hverja samveru hjá okkur að jafnaði en þær eru yfirleitt haldnar í Molanum, samkomuhúsi í Kópavogi. Stærri hópur, um 60 manns, hittist á lokaðri Fésbókar-síðu þar sem fólk getur hjálpast að. Öflugur hópur sjálfboðaliða gerir okkur kleift að halda úti svona verkefnum. Mannfræðinemar hafa til dæmis tekið virkan þátt í verkefninu og svo eru aðrir sem hafa mikinn áhuga á innflytjendamálum. Bakgrunnur sjálfboðaliða er ólíkur en þessi áhugi sameinar. Hópurinn hittist vikulega, fer á listasöfn, horfir á íslenskar kvikmyndir og spjallar um þær á íslensku, svo eitthvað sé nefnt. Auk þess ganga sumar samverur út á að auka orðaforða þátttakenda um ákveðin málefni. Gott er að hafa ákveðinn grunn í íslenskunni áður en farið er að þjálfa talmálið en nokkrir þátttakenda hafa tekið þátt í verkefninu frá upphafi og náð ótrúlegum árangri.“

Leggja sig mikið fram

Hrafnhildur segir lagt upp með að allir taki virkan þátt.

„Við leggjum áherslu á að hafa þetta afslappað og efla sjálfstraust í gegnum þátttöku í umræðum. Fólkið er virkilega að leggja sig fram og það sést hvernig það verður hugrakkara með aukinni færni. Við erum með mjög alþjóðlegan hóp. Til okkar mæta einstaklingar frá Bretlandi, Þýskalandi, Víetnam, Frakklandi, Hollandi, Póllandi og Serbíu svo eitthvað sé nefnt. Sumir eru giftir Íslendingum og eiga börn sem eru komin langt fram úr þeim í íslensku. Þeir tala jafnvel ensku við maka og skortir þjálfun í íslenskunni. Hvað snertir þátttöku þeirra á vinnumarkaði er reynsla mín sú að langflestir hafi vinnu.

Sumir hafa þó þurft að taka sér hlé frá störfum vegna þess að þeir þurfa að komast betur inn í málið áður en þeir fara aftur á vinnumarkaðinn. Það sem fólkið á sameiginlegt er viljinn til þess að komast betur inn í íslenskt samfélag í gegnum tungumálið,“ segir Hrafnhildur.