Ævintýri Helga Arnalds skapar ótrúlegan ævintýraheim fyrir börn og fullorðna úr pappír í verkinu Skrímslið litla systir mín.
Ævintýri Helga Arnalds skapar ótrúlegan ævintýraheim fyrir börn og fullorðna úr pappír í verkinu Skrímslið litla systir mín.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikhúsið 10 fingur. Norræna húsið, 19. febrúar 2012. Höfundur og flytjandi: Helga Arnalds. Leikstjóri: Charlotte Böving. Tónlist: Eivör Pálsdóttir. Búningar: Eva Signý Berger. Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmsson.
Skrímslið litla systir mín er barnaleikrit sem er sýnt í Norræna húsinu af leikhúsinu Tíu fingrum. Í því segir frá hugmyndaríkum strák sem eignast litla systur. Í hans augum er hún lítið skrímsli, sem étur allt sem hún kemst í, meðal annars mömmu hans. Strákurinn er hugrakkur og ákveður að bjarga heiminum og mömmu sinni frá litla skrímslinu. Til þess ferðast hann um skuggalegar lendur; skóga, hella og drekaslóðir. Hann fer með systur sína alla leið út á heimsenda og á leiðinni þangað lærir hann að elska hana, hún er nefnilega lítið, skrítið og skemmtilegt skrímsli.

Þetta er óvenjuleg leiksýning – engin læti, glys og græjur. Sviðsmyndin er stórir pappírsstrangar sem Helga Arnalds skapar söguna á. Hún málar, sker og rífur. Hún lætur pappírinn lifna við á ótrúlegan hátt. Helga er líka sögumaðurinn, leikur hlutverkin og notast við fingrabrúður. Ég hef aldrei séð viðlíka heim skapaðan úr jafn „litlu“. Sagan og persónurnar lifnuðu við á auðveldan hátt. Tónlist og ljós hjálpa svo til við sköpunina og tekst allstaðar jafn vel til.

Sýning er rúmur hálftími að lengd og allan tímann sat ég bergnumin, það er ekki oft sem manni er boðið inn í slíkan ævintýraheim. Börnin sátu líka heilluð og lifðu sig inn í söguna. Þetta er leikrit er þó ekki fyrir mjög ung börn að mínu mati, ekki mikið yngri en 3 ára. Að sýningu lokinni fengu börnin að búa til dreka úr pappírnum sem var notaður í sýningunni. Það þótti þeim spennandi og fylgdarsveinn minn, 4 ára, er enn að leika sér að sínum; láta hann fljúga, vera kolkrabba eða margfættan karl. Það þarf ekki meira til en tættan pappír og límband til að skapa heilan heim fyrir börn.

Skrímslið litla systir mín er ein magnaðasta leiksýning sem ég hef séð. Sýningin er virkilega vel gerð, sannfærandi og lætur hugann vinna sitt verk í að skapa enn stærri ævintýraheim en sést á sjálfu sviðinu.

Ingveldur Geirsdóttir